Hvíldartími og frítökuréttur

Vinnutíma skal haga þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfskraftur a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld. Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími fari umfram 13 stundir á dag og hvíldina skal veita á tímabilinu frá kl. 23:00 til kl. 06:00 verði því við komið. Heimilt er ef bjarga þarf verðmætum að lengja vinnulotu í allt að 16 klst. og skal þá undantekningarlaust veita 11 klst. hvíld í beinu framhaldi af vinnunni án skerðingar á rétti til fastra daglauna.

Sé starfsfólk sérstaklega beðið um að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð er heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur 1,5 klst. (dagvinna), safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist um. Heimilt er að greiða út ½ klst. (dagvinna) af frítökuréttinum óski starfsfólk þess. Í öllum tilfellum er óheimilt að skerða 8 klst. samfellda hvíld.

Vinni starfskraftur það lengi á undan frídegi að ekki náist 11 klst. hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags skal fara með það á sama hátt.

Vikulegur frídagur
Á hverju 7 daga tímabili skal starfsfólk hafa a.m.k. einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skal miðað að vikan hefjist á mánudegi. Heimilt er að fresta vikulegum frídegi með samkomulagi við starfsfólk þar sem sérstakar ástæður gera slík frávik nauðsynleg. Sé sérstök þörf á slíku skipulagi skal gerður um það kjarasamningur. Má þá haga töku frídaga þannig að teknir séu 2 frídagar saman aðra hverja helgi.

Hámark vikulegs vinnutíma
Vinnutími á viku skal ekki vera umfram 48 klst. að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili að yfirvinnu meðtalinni. Þessir tímar eru reiknaðir út frá virkum vinnutíma (þ.e. einungis unnum tímum, ekki með neysluhléum) að viðbættu lágmarksorlofi (24 dögum), veikindum, fæðingarorlofi og launuðu starfsnámi.

Æskilegt er að vinnutími breytist sem minnst milli vikna.

Atvinnurekendum er ekki heimilt að láta starfsfólk vinna umfram hámark vinnustunda sem nefnd eru hér að framan skv. lögum um aðbúnað og hollustuhætti. 

Nánar um frávik og frítökurétt í kjarasamningi í kafla 2.4.1.