...vegna gjaldþrots fyrirtækis

Starfsfólk sem verður fyrir því að fyrirtæki sem það starfar hjá verður gjaldþrota á venjulega bótakröfu á fyrirtækið vegna riftunar á starfssamningi. Yfirleitt er um að ræða bætur í uppsagnarfresti viðkomandi starfskrafts ásamt áunnum rétti eins og orlofsuppbót, desemberuppbót og uppsafnað orlof.

Verði fyrirtæki gjaldþrota getur VR félagi VR leitað til skrifstofu félagsins sem gerir kröfu fyrir hann í þrotabú fyrirtækisins. Mikilvægt er að starfskraftur hafi samband við sérfræðing á kjaramálasviði VR sem fyrst óski hann eftir aðstoð félagsins. Starfskraftur skal hafa með sér eftirtalin gögn strax í upphafi þ.e. ráðningarsamning ef hann er til, uppsagnarbréf ef það á við, launaseðla a.m.k. sl. 6 mánaða og annað sem gæti skipt máli varðandi vinnslu málsins.

Gjaldþrot er þegar fyrirtæki lýsir sig vanhæft til að greiða skuldir sínar með lögbundnum hætti. Við gjaldþrot er skipaður skiptastjóri sem lýsir eftir kröfum í þrotabúið með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Krafa fyrir hönd starfskraftsins er send innan kröfulýsingarfrests til skiptastjóra. Kröfulýsingarfrestur er tveir mánuðir frá dagsetningu auglýsingar skiptastjóra í Lögbirtingablaðinu. Mikilvægt er að koma vel tímanlega innan þess tíma til stéttarfélagsins þannig að það gefist tími til að vinna kröfuna. Lista yfir gjaldþrot þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar er að finna hér. Ef skiptastjóri þrotabúsins samþykkir kröfuna og fyrirtækið, sem hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, á ekki fyrir greiðslu launa er krafan send á Ábyrgðasjóð launa til greiðslu. Launakröfur sem eru eldri en 18 mánaða frá gjaldþroti (frestdegi) njóta ekki forgangs í þrotabúið og þar af leiðandi ekki heldur ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa.

Ábyrgðasjóður launa

Launakröfur eru forgangskröfur við gjaldþrot fyrirtækja sem þýðir að slíkar kröfur eru greiddar fyrst séu til eignir í þrotabúinu. Ef þrotabúið er hinsvegar eignalaust eru launakröfur tryggðar hjá Ábyrgðasjóði launa. Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslur á kröfum skv. lögum um sjóðsins sem eru að hámarki ákveðin upphæð í þrjá mánuðir á uppsagnarfresti auk þrír mánuðir fyrir uppsagnarfrest, orlof upp að ákveðinni upphæð ásamt skyldulífeyrisiðgjöldum og að hámarki 2% í séreign. Ábyrgð sjóðsins er háð því skilyrði að kröfurnar hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur skv. lögum um gjaldþrotaskipti.

Þegar starfsfólk missir vinnuna vegna þess að fyrirtæki verður gjaldþrota skal það samstundis skrá sig atvinnulaust hjá Vinnumálastofnun. Slík skráning er meðal annars forsenda þess að Ábyrgðasjóður launa greiði út launakröfu vegan óunnins uppsagnarfrests hjá gjaldþrota fyrirtæki. Greiðslur atvinnuleysisbóta koma til frádráttar kröfunnar um launamissi á uppsagnarfresti sem og allar aðrar greiðslur sem starfsfólk fær á sama tíma frá öðrum aðilum.