Útreikningur launa

Kaup fyrir eftirvinnu, næturvinnu, yfirvinnu og stórhátíðarvinnu samkvæmt kjarasamningi VR og SA

Eftir-/nætur- og yfirvinnukaup hjá afgreiðslufólki

Vinna utan dagvinnutímabils greiðist með tímakaupi sem nemur 0,8235% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu upp að 167,94 klst. vinnu hvern mánuð (38,75 klst. að jafnaði á viku). Vinna umfram 167,94 klst. greiðist með tímakaupi sem nemur 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Ef fyrirtæki reikna með virkum vinnutíma er miðað við 155,3 klst. á mánuði eða 35,83 klst. að jafnaði á viku.

Vinna á tímabilinu 00:00 - 07:00 greiðist með tímakaupi sem nemur 0,8824% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu upp að 167,94 klst. vinnu hvern mánuð, eða 155,3 klst. ef miðað er með virkum vinnustundum.

Eftir-/nætur- og yfirvinna hjá skrifstofufólki

Vinna utan dagvinnutímabils greiðist með tímakaupi sem nemur 0,875% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu upp að 159,27 klst. vinnu hvern mánuð (36,75 klst. að jafnaði á viku). Vinna umfram 159,27 klst. greiðist með tímakaupi sem nemur 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Ef fyrirtæki reikna með virkum er miðað við 153,86 klst. á mánuði eða 35,5 klst. á viku. 

Vinna á tímabilinu 00:00 - 07:00 greiðist með tímakaupi sem nemur 0,9375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu upp að 159,27 klst. vinnu hvern mánuð, eða 153,86 klst. ef miðað er með virkum vinnustundum.

Stórhátíðarkaup
Öll vinna sem unnin er á stórhátíðum greiðist með tímakaupi sem nemur 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Þetta gildir ekki um reglubundna vinnu, þar sem vetrarfrí eru veitt skv. sérstökum samningum vegna vinnu á umræddum dögum og haldast þar gildandi greiðslureglur óbreyttar.

Deilitölur vegna tímakaups

Kaffitímar teknir
Dagvinnutímakaup hvers starfsmanns skal fundið með því, að deila tölunni 167,94 í föst mánaðarlaun viðkomandi launaflokks, skv. gr. 1.1., að því er afgreiðslufólk í verslunum snertir, en með tölunni 159,27 að því er skrifstofufólk varðar.

Engir kaffitímar teknir
Dagvinnutímakaup hvers starfsmanns skal fundið með því, að deila tölunni 155,3 í föst mánaðarlaun viðkomandi launaflokks, skv. gr. 1.1. að því er afgreiðslufólk í verslunum snertir, en með tölunni 153,86 að því er skrifstofufólk varðar.

Deilitölur vegna dagkaups og orlofs
Dagkaup hvers starfsmanns skal fundið með því að deila tölunni 21,67 í föst mánaðarlaun (laugardagar ekki meðtaldir).