Félagsgjald og aðild

Félagsgjald VR og iðgjöld í sjóði

Félagsfólk hefur rétt til:

  • upplýsinga um réttindi og skyldur,
  • aðstoðar við túlkun kjarasamninga,
  • aðstoðar við ráðningarsamninga,
  • aðstoðar við útreikninga á launum og innheimtu,
  • aðstoðar ef upp kemur ágreiningur á vinnustað,
  • lögfræðiaðstoðar tengda kjaramálum,
  • styrkja til forvarna, trygginga og endurhæfingar,
  • niðurgreiðslu á námi og námskeiðum,
  • aðgangs að orlofshúsum (á 21sta aldursári),
  • trygginga í veikindum í gegnum Sjúkrasjóð VR*

*Ath. Samkvæmt gr. 9.4 í reglugerð um Sjúkrasjóð VR getur fólk þó ekki skapað sér réttindi í sjóðnum með félagsgjaldsgreiðslum til VR af atvinnuleysisbótum eða fæðingarorlofsgreiðslum nema það hafi sannanlega verið félagsfólk í VR þegar það missti vinnu og sótti um atvinnuleysisbætur.

Aðild að VR

Þrátt fyrir að VR sé fyrst og fremst launþegafélag er fleirum gefinn kostur á aðild að félaginu. Þau sem hætta störfum á vinnumarkaði vegna atvinnuleysis eða örorku geta verið áfram félagsfólk og eru þá félagsgjöld dregin af bótagreiðslum þeirra.

Eldri félagsmenn sem fá greiddan ellilífeyri og sem verið hafa í félaginu a.m.k. 5 ár samfellt fyrir töku eftirlauna teljast áfram félagsmenn í VR en njóta ekki kjörgengis.

Einnig geta þau sem hverfa frá störfum um stundarsakir vegna náms eða veikinda nýtt sér áunninn rétt við inngöngu að nýju skv. nánari reglum.

Sjálfstætt starfandi, þ.e. þeim sem ber að áætla sér reiknað endurgjald samkvæmt ákvörðun skattayfirvalda, auk þeirra sem skráð eru sem launafólk hjá eigin fyrirtæki, geta verið í VR. Þau þurfa að standa skil á öllum greiðslum og iðgjöldum til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Þar sem sjálfstætt starfandi, og/eða fjölskyldumeðlimur rekstraraðila, teljast hafa ráðandi stöðu skulu iðgjöld þeirra ávallt vera greidd og í skilum ef sækja á þjónustu til VR eða réttindi í sjóðum félagsins. Fyrir nánari upplýsingar, vinsamlega hafið samband við þjónustuver VR í síma 510 1700 eða í tölvupósti til vr@vr.is.

Hvað er lágmarksfélagsgjald hátt?

Til að sjá lágmarksfélagsgjald veldu mánuð.

loading

Lágmarksfélagsgjald

Til að öðlast full félagsréttindi þarf að greiða mánaðarlegt félagsgjald (0,7% af heildarlaunum). Það skal ekki vera lægra en sem svarar til 0,3% af byrjunarlaunum afgreiðslufólks, samkvæmt launataxta VR, eins og þau eru á hverjum tíma. Félagsgjald tekur því breytingum í samræmi við umsamdar breytingar á launataxta VR. Þegar rætt er um lágmarksfélagsgjald er miðað við gjald samtals í eitt ár, eða undangengna 12 mánuði (sjá að ofan lágmarksfélagsgjald á ársgrundvelli).

Félagsfólk sem ekki hefur náð lágmarksfélagsgjaldi eiga rétt á aðstoð við kjaramál og réttindi í sjóðum félagsins í hlutfalli við greiðslur. Til þess að viðhalda fullgildum félagsrétti í VR þurfa félagsgjaldsgreiðslur að berast reglulega. Ef ekkert félagsgjald er greitt í þrjá mánuði samfellt fellur viðkomandi af félagsskrá. Hægt er að ná aftur fullgildingu frá þeim mánuði sem næsta félagsgjaldsgreiðsla berst, ef lágmarksfélagsgjaldi er náð undangengna 12 mánuði.

Aðild öryrkja að VR

Samkvæmt 3. gr. laga VR er öryrkjum heimilt að greiða 0,7% félagsgjald af örorkubótum og geta þannig viðhaldið vissum réttindum í sjóðum félagsins. Skilyrði sem öryrki þarf að uppfylla til að öðlast þessi réttindi er að hann hafi verið félagi í VR óslitið í 5 ár áður en til örorku kom og að árlegar greiðslur félagsgjalds af örorkubótum nái lágmarksfélagsgjaldi hverju sinni. Þetta á þó aðeins við um örorkubætur sem greiddar eru hjá lífeyrissjóðum sem bjóða milligöngu um að skila félagsgjöldum til stéttarfélaga.

Öryrkjar geta sótt um styrk úr VR varasjóði, svo fremi að þeir eigi inneign í sjóðnum, sem og orlofshús o.fl. úr Orlofssjóði. Félagsgjald af örorkubótum veitir einnig rétt til dánarbóta úr Sjúkrasjóði VR en ekki til annarra styrkja úr sjóðnum.

Öryrkjar halda fullum rétti í 12 mánuði frá því að iðgjaldagreiðslur atvinnurekenda hætta að berast vegna þeirra til starfsmenntasjóða sem VR á aðild að og halda rétti í 36 mánuði vegna tómstundastyrks. Réttindi miðast við síðustu iðgjaldagreiðslur atvinnurekanda sem berast í sjóðina.

Nánari upplýsingar hjá þjónustuveri VR í síma 510 1700 eða með tölvupósti til vr@vr.is.

Félagsgjald til VR er 0,7% af heildarlaunum. Atvinnurekendur greiða mótframlag til félagsins - sjá nánar hér. Félagsgjald er innheimt af Lífeyrissjóði verzlunarmanna - sjá nánar hér.

Greiðslur í lífeyrissjóð eru 4% af hálfu VR félaga en 11,5% af hálfu atvinnurekanda. Í séreignarsjóð getur VR félagi greitt 2-4%, mótframlag atvinnurekanda er 2%. Endurhæfingarsjóður er 0,10% sem reiknast af launum og greiðist í þann lífeyrissjóð sem starfskraftur greiðir í.