VR blaðið
4. tbl. VR blaðsins 2013
4. tbl. VR blaðsins 2013 er að mestu leyti helgað launakönnun 2013 og starfsmenntamálum. Í blaðinu eru birtar niðurstöður í launakönnuninni, launatölur, launaþróun, launamun kynjanna og annað sem varðar stöðu félagsmanna á vinnumarkaði. Í blaðinu er einnig ítarleg umfjöllun um starfsmenntamálin. Fjallað er um verkefnið Fræðslustjóri að láni, starfsþróun og nám innan veggja fyrirtækja. Þá er rætt við mannauðsstjóra og trúnaðarmenn í fyrirtæki. Formaður VR gerir launakönnun og stöðu í kjarasamningaviðræðum að umræðuefni sínu í leiðara.
3. tbl. VR blaðsins 2013
Í 3. tbl. VR blaðsins árið 2013 eru niðurstöður í könnun VR á Fyrirtæki ársins fyrirferðarmiklar. Þessi árlega könnun vekur allajafna mikla athygli og umræður. Í blaðinu eru einnig birtar niðurstöður í stjórnendakönnun VR en hún hefur verið gerð annaðhvert ár frá árinu 2006. Rætt er við nýjan formanns, Ólafíu B. Rafnsdóttur, og ný stjórn kynnt. Þá er rætt við tvo gullmerkishafa félagsins um liðna tíð en þeir Gunnar Helgi Guðmundsson og Ragnar Engilbertsson voru í Stormsveit VR á áttunda áratug síðustu aldar. Í blaðinu er fjallað um réttindi unglinga á vinnumarkaði og birt grein eftir lögmann VR, Guðmund B. Ólafsson, um fíkniefnapróf. Þá er rætt við fulltrúa fjögurra fyrstu fyrirtækjanna sem fengu Jafnlaunavottun VR og gluggað í bækur fyrir sumarið. Í leiðara fjallar formaður um könnun VR á fyrirtæki ársins og komandi kjarasamningaviðræður.
2. tbl. VR blaðsins 2013
2. tbl. VR blaðsins 2013 er helgað orlofsmálum og kosningum til trúnaðarstarfa fyrir félagið. Frambjóðendur til formanns og sjö sæta í stjórn fyrir kjörtímabilið 2013 – 2015 kynna sig og helstu áherslur sínar og fjallað er um framkvæmd kosninganna. Kosningar standa í félaginu dagana 7. - 15. mars. Þá er ítarleg umfjöllun um orlofshús VR en um þetta leyti eru flestir farnir að huga að því hvenær fara á í fríið. Í sumar býður VR til leigu orlofshús í Danmörk, rétt við bæinn Hundested sem er á norðanverðu Sjálandi og um klukkustundar akstur frá Kaupmannahöfn. Þetta er skemmtileg viðbót við fjölbreytta orlofsmöguleika VR. Við hvetjum svo félagsmenn til að fylgjast með heimasíðunni þar sem kynnt verða jafnóðum fleiri orlofshús sem verða í boði í sumar.
1. tbl. VR blaðsins 2013
Þetta 1. tbl. VR blaðsins árið 2013 er helgað Jafnlaunavottun VR, nýju vopni í baráttunni gegn launamun kynjanna. Jafnlaunavottun var hleypt af stokkunum í byrjun febrúar og er markmið þess að uppræta launamuninn og stuðla að jafnrétti karla og kvenna á vinnumarkaði. Í blaðinu er fjallað um þróun launamunar kynjanna innan VR síðustu ár og hvað VR hefur lagt af mörkum í baráttunni fyrir jöfnum launum. Leiðari fjallar einnig um jafnréttismálin og Jafnlaunavottun VR undir fyrirsögninni Nýtt vopn í jafnréttisbaráttu. Í blaðinu er jafnframt fjallað um hádegisfyrirlestra vorsins, viðhorf kynslóða til vinnunnar og orlofsmálin. Þá eru í blaðinu viðtöl við tvo fyrrverandi formenn VR sem fara yfir liðinn tíma og núverandi formann sem fjallar um endurskoðun kjarasamninga og stöðuna í kjarabaráttunni í dag.
4. tbl. VR blaðsins 2012
Í 4. tbl. VR blaðsins árið 2012 er áhersla lögð á umfjöllun um niðurstöður í launakönnun 2012. Birtar eru töflur yfir laun helstu starfsstétta og töflur yfir breytingar á launum á milli ára. Í blaðinu er einnig ítarleg umfjöllun um starfsmenntamál, upplýsingar um styrki og áhugaverð námskeið fyrir félagsmenn. Þá er í blaðinu fjallað um námskeið fyrir trúnaðarmenn, framboð náms hjá Mími-símenntun, raunfærnimat og framboð hádegisfyrirlestra haustsins svo eitthvað sé nefnt. Formaður VR fjallar um launakönnunina og launamun kynjanna sem hefur verið og verður áfram eitt helsta baráttumál félagsins í leiðara.
3. tbl. VR blaðsins 2012
Niðurstöður í könnun VR á Fyrirtæki ársins 2012 eru helsta umfjöllunarefni 3. tbl. VR blaðsins 2012. Í blaðinu eru birtir listar yfir stöðu fyrirtækja, umfjöllun um sigurvegara og hástökkvara og aðrar helstar niðurstöður. Þá er einnig umfjöllun um STARF, nýja þjónustu á sviði vinnumiðlunar og ráðgjafar VR fyrir atvinnuleitandi félagsmenn, farið yfir orlofsréttindi og varaformaður veltir fyrir sér 1. maí. Fjallað er um réttindi unglinga á vinnumarkaði og sumarstarfshorfur ungs fólks og jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í leiðara fjallar formaðurinn um könnun VR á Fyrirtæki ársins undir yfirskriftinni Að skara framúr.
2. tbl. VR blaðsins 2012
Í þessu tölublaði VR blaðsins er áhersla lögð á orlofsmálin enda sumar á næsta leiti. Félagið tekur á leigu nokkur ný orlofshús fyrir félagsmenn sína eins og iðulega á sumrin og eru þau kynnt í þessu blaði ásamt húsum í eigu félagsins. Í sumar opnar nýtt tjaldsvæði í orlofshúsabyggð VR í Miðhúsaskógi en þar er mjög góð aðstaða fyrir tjöld, fellihýsi og tjaldvagna sem og pláss fyrir 40 – 50 ferðavagna og bíla með aðgangi að rafmagni á hagstæðu verði. Margt fleira tengt orlofsmálum er í blaðinu, s.s. ráðleggingar frá FÍB um umhverfisvænan akstur, hugmyndir að bókum í fríið o.fl. Í blaðinu er jafnframt farið yfir niðurstöður kosninga í mars, ný stjórn kynnt og stiklað á stóru hvað þjónustu VR varðar. Formaður bæði fer yfir farinn veg í leiðara og hugar að sumri framundan.
1. tbl. VR blaðsins 2012
1. tbl. VR blaðsins 2012 er helgað kosningum til stjórnar 2012. Frambjóðendur kynna áherslur sínar og fjallað er um fyrirkomulag kosninganna. Ellefu einstaklingar bjóða sig fram til sjö sæta í stjórn fyrir kjörtímabilið 2012 – 2014. Í blaðinu er ítarleg umfjöllun um Sjúkrasjóð og VR varasjóð en sjóðirnir eru tilkomnir vegna kjarabaráttu félagsins í gegnum árin. Fjallað er um nýjan samning sem felur í sér aukna þjónustu við atvinnuleitendur VR, fjallað um námskeið fyrir eldri félagsmenn sem slegið hefur í gegn, þunglyndi á vinnustað og margt fleira. Í leiðara fjallar formaður um stöðu lántakenda í því umróti sem nú er í samfélaginu.
6. tbl. VR blaðsins 2011
Í 6. tbl. VR blaðsins 2011 er fjallað um hádegisfyrirlestra á vorönn en VR býður félagsmönnum sínum á fyrirlestra reglulega um allt milli himins og jarðar, fjallað er um stöðu unga fólksins í kreppunni og stöðu kjarasamninga. Í blaðinu er grein um atvinnufærni, jólahald í Sviss og Serbíu, birtur pistill um boðskap jólanna og gómsætar uppskriftir af meðlæti með jólamatnum. Þá er áhugaverð grein um áhrif fjárlagafrumvarpsins á hag launafólks og birt grein undir heitinu Rjúfum þögnina sem fjallar um heimilisofbeldi. Í leiðara fjallar formaður um stöðu atvinnu- og efnahagsmála.
5. tbl. VR blaðsins 2011
Í 5. tbl. VR blaðsins 2011 er áhersla á umfjöllun um málefni eldri félagsmanna. Farið er yfir réttindi þeirra og hvað ber að hafa í huga þegar kemur að starfslokum, námskeið fyrir eldri félagsmenn kynnt, fjallað um samskipti kynslóða á vinnustað og birt grein um annríkið í iðjuleysinu svo eitthvað sé nefnt. Leiðari formanns fjallar einnig um þetta málefni undir heitinu Að hefjast handa. Þá er í blaðinu umfjöllun um jafnréttismál, t.d. um stöðu fæðingarorlofssjóðs, réttindi í fæðingarorlofi og hvað ber að hafa í huga þegar mætt er til vinnu eftir barnsburð. Einnig er áframhaldandi umræða um launamun kynjanna samkvæmt niðurstöðum launakönnunar VR 2011. Í blaðinu er birt áhugaverð grein um þjónandi forystu, farið yfir réttindi verslunarmanna í jólavertíðinni og margt fleira.