VR blaðið
4. tbl. VR blaðsins 2020
Jólablað VR blaðsins er komið út og er því dreift til félagsmanna með pósti. Í þessu síðasta tölublaði ársins er fjallað um atvinnuráðgjöf sem VR býður félagsmönnum sínum þeim að kostnaðarlausu. Auk ráðgjafar mun VR fara af stað með nýjung, svokölluð „Hádegisráð VR“ sem verða stuttir rafrænir fyrirlestrar sem ætlaðir eru að koma atvinnuleitendum að góðum notum. Magnús L. Sveinsson, fyrrum formaður VR, er í viðtali í VR blaðinu, en hann hefur gefið út bók „Af moldargólfi í ólgusjó verkalýðsmála“ þar sem félagið kemur mikið við sögu, enda starfaði Magnús hjá VR í 42 ár. Þá er einnig viðtal í blaðinu við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, um það helsta sem er á döfinni hjá félaginu og er Ragnar Þór meðal annars inntur eftir því hvort hann ætli að gefa kost á sér í formannskjöri félagsins á næsta ári.
Á þessum árstíma er mikilvægt að huga að réttindum sínum og skyldum á vinnumarkaðnum enda jólaverslunin í algleymingi.
Við minnum félagsmenn á að þeir geta afþakkað blaðið í prentaðri útgáfu og skráð sig fyrir rafrænu eintaki á Mínum síðum.
3 tbl. VR blaðsins 2020
Þriðja tölublað ársins af VR blaðinu er komið út og er því dreift til félagsmanna í pósti. Í blaðinu má finna umfjöllun um skrifstofu VR á Suðurnesjum og viðtöl við fjóra félagsmenn á svæðinu. Nathalía Druzin Halldórsdóttir hefur verið ráðin atvinnuráðgjafi hjá VR og er viðtal við hana í blaðinu um þau vinnumarkaðsúrræði sem VR hyggst ráðast í á næstu vikum og mánuðum. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna fjalla um vel heppnað samstarf VR og NS gegn ólöglegum smálánum. Þá er að finna í blaðinu grein eftir Guðrúnu Johnsen Ph.D., efnahagsráðgjafa VR sem nefnist „Stærsta áskorun efnahagsstjórnunar: Að viðhalda eftirspurn“. Í blaðinu er einnig fjallað um tvær kannanir sem framtíðarnefnd VR stóð fyrir um viðhorf til breytinga á störfum vegna fjórðu iðnbyltingarinnar.
2. tbl. VR blaðsins 2020
Annað tölublað ársins 2020 er komið út og er því dreift til félagsmanna í pósti. Í blaðinu er að finna umfjöllun fyrir atvinnuleitendur, hvernig má setja upp ferilskrá og góð ráð fyrir atvinnuviðtalið. Dr. Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir hjá Forvörnum, skrifar um áhrif kórónuveirufaraldursins í grein sinni „Andleg líðan á tímum heimsfaraldurs“. Í blaðinu er einnig að finna svör við helstu spurningum sem kjaramálasviðið hefur fengið inn á borð til sín í faraldrinum. Jóhann Ingi Gunnarsson og Bragi R. Sæmundsson skrifa til okkar hvatningu á óvissutímum og gefa ráð hvernig við getum haldið í gleðina og náð tökum á áhyggjum.
Í blaðinu er einnig umfjöllun um Fyrirtæki ársins 2020 en þau kynnt á vef félagsins um miðjan maí. Síðustu ár hefur VR kynnt niðurstöðurnar í fjölmennri móttöku starfsmanna og stjórnenda þeirra fyrirtækja sem fá viðurkenningu en vegna COVID-19 var gripið til annarra ráðstafana í ár.
Fastir liðir eru auðvitað á sínum stað í blaðinu, leiðari formanns, viðtal við trúnaðarmann og krossgátan.
1. tbl. VR blaðsins 2020
Fyrsta tölublað VR blaðsins ársins 2020 er komið út og er því dreift til félagsmanna í pósti. Í þessu fyrsta tölublaði ársins beinum við sjónum okkar að kosningum í félaginu en 13 einstaklingar eru í kjöri til stjórnar VR fyrir tímabilið 2020-2022. Nánari upplýsingar um frambjóðendur og kosningarnar má finna á bls. 24-32. Viðar Ingason, hagfræðingur VR, fjallar um fjórðu iðnbyltinguna í grein sem hann nefnir „Framtíð vinnumarkaðarins og gervigreind“. Þá er farið yfir stefnu VR um vinnumarkað framtíðarinnar en félagið stefnir markvisst að því að hafa áhrif á þróun vinnumarkaðarins til framtíðar og koma í veg fyrir að stórar breytingar á vinnumarkaði geti skert hagsmuni félagsmanna. Í blaðinu er einnig að finna umfjöllun um þrjár nýjar námslínur ætlaðar verslunarfólki en námslínurnar henta ólíkum markhópum og á ólíkum skólastigum. Í framhaldi af þessari umfjöllun er einnig viðtal við fræðslu-og mannauðsstjóra Samkaupa, Lyfju og Húsasmiðjunnar en fyrirtækin eru samstarfsfyrirtæki vegna námsins og hafa tekið þátt í að móta námið.
Félagsmenn eru minntir á könnun VR á Fyrirtæki ársins, nánari upplýsingar er að finna í þessu nýjasta tölublaði VR blaðsins. Fastir liðir eins og venjulega í blaðinu eru að sjálfsögðu á sínum stað eins og leiðari formanns, viðtal við trúnaðarmann og nú hefur krossgátan snúið aftur. Ekki missa af VR blaðinu!
4. tbl. VR blaðsins 2019
Í þessu síðasta tölublaði ársins höldum við áfram að fjalla um styttingu vinnuvikunnar en þann 1. desember næstkomandi skulu atvinnurekendur og félagsmenn VR hafa komist að samkomulagi um útfærslu styttingarinnar. Fjórir trúnaðarmenn VR voru spurðir út í styttinguna á þeirra vinnustöðum og einn félagsmaður VR hjá Hugsmiðjunni en Hugsmiðjan stytti vinnuvikuna umtalsvert hjá sér fyrir tveimur árum síðan. Í blaðinu er að finna umfjöllun um atvinnulýðræði en ályktun um starfsfólk í stjórnir fyrirtækja var samþykkt einróma á síðasta þingi Landssambands íslenzkra verzlunarmanna. Í blaðinu er einnig að finna grein um Stafræna hæfnihjólið en það er sjálfsmatspróf á netinu sem gefur félagsmönnum kost á að kortleggja eigin hæfni með það í huga að veita þeim mögulega sýn inn í þá þætti sem flokkast almennt undir stafræna hæfni. Þá er umfjöllun í blaðinu um réttindi félagsmanna VR í desember en eins og alltaf á þessum árstíma en mikilvægt að huga að daglegum hvíldartíma, frítökurétti og öðru slíku. Fastir liðir eins og venjulega í blaðinu eru á sínum stað eins og námskeið fyrir trúnaðarmenn, hádegisfyrirlestrar og námskeið fyrir félagsmenn.
3. tbl VR blaðsins 2019
Í þessu þriðja tölublaði ársins er megin áherslan á styttingu vinnuvikunnar sem samið var um fyrir VR félaga í síðustu kjarasamningum. Helstu upplýsingar og dæmi um útfærslumöguleika styttingar má finna á bls. 6 - 7. En einnig er fjallað um þann ávinning sem verður af styttingu í áhugaverðri grein eftir Ragnheiði Agnarsdóttur eiganda Heilsufélagsins á bls. 4. Þar fer hún einnig yfir 6 skref að vel heppnaðri innleiðingu á styttingu vinnutíma. Þessu til viðbótar, á bls. 9, er rætt við tvo trúnaðarmenn um styttingu vinnuvikunnar og hvort farið sé að ræða útfærslu þess á þeirra vinnustöðum. Fjallað er um, á bls. 10, nýtt fagnám verlsunar og þjónustu – Menntagátt – sem Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks hefur unnið að því að þróa fyrir starfsfólk í verslun og þjónustu og þá er einnig sagt frá áhugaverðum námskeiðum fyrir félagsmenn VR sem haldin verða á haustönn í húsakynnum VR. Loks er grein á bls. 14 um bestu árin eftir Ásgeir Jónsson sem hefur undanfarin ár haldið feykivinsæl námskeið fyrir félagsmenn VR sem eru að huga að starfslokum.
2. tbl. VR blaðsins 2019
Annað tölublað ársins af VR blaðinu er komið út og er því í þetta sinn dreift til félagsmanna með Fréttablaðinu. Í þessu öðru tölublaði ársins, sem verður dreift þann 1. júní, beinum við sjónum okkar að úrslitum í könnuninni um Fyrirtæki ársins 2019. Nánari upplýsingar um þau fyrirtæki sem fengu viðurkenningu þetta árið má finna á bls. 8. Fjallað er um nýja kjarasamninga, Lífskjarasamningana, sem voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta hjá VR. Þá er, á bls. 12 – 13, ítarleg umfjöllun um styttingu vinnuvikunnar, sem náðist að semju um í síðustu kjarasamningaviðræðum. Úrslit stjórnarkosninga VR eru kynnt, fjallað er um fagnám í Viðskiptafræði og verslunarstjórnun og sagt frá gríðarlegri stemningu á fjölskylduhátíð VR þann 1. maí.
1. tbl. VR blaðsins 2019
Fyrsta tölublað VR blaðsins ársins 2019 er komið út og er því dreift til félagsmanna í pósti. Í þessu fyrsta tölublaði ársins beinum við sjónum okkar að kosningum í félaginu en 13 einstaklingar eru í kjöri til stjórnar VR fyrir tímabilið 2019-2021. Nánari upplýsingar um frambjóðendur og kosningarnar má finna á bls.16-24. Fjallað er um Vinnustaðaeftirlit VR en markmið slíks eftirlits og vinnustaðaskírteina er að tryggja að atvinnurekendur og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum. Árni Sverrir Hafsteinsson fjallar um tækninýjunar í afgreiðslustörfum í grein sinni „Verslunarstörf framtíðarinnar“. Einnig er umfjöllun í blaðinu um tekjusögu Íslendinga og nýjan vef, tekjusagan.is en þar er meðal annars hægt að skoða kaupmáttarþróun ólíkra hópa. Félagsmenn eru minntir á könnun VR á Fyrirtæki ársins, nánari upplýsingar er að finna í þessu nýjasta tölublaði VR blaðsins. Stútfullt blað eins og venjulega, ekki missa af því!
4. tbl. VR blaðsins 2018
Síðasta tölublað VR blaðsins á árinu er í tímaritaformi og er því dreift til félagsmanna VR. Eins og venja er á þessum árstíma er farið yfir réttindi félagsmanna í desember enda sérlega mikilvægt að launafólk sé meðvitað um hvíldartíma, laun á frídögum og annað þess háttar, nú sem endranær. Í blaðinu er fjallað um kröfugerð VR og LÍV gagnvart SA og þá er einnig farið yfir þær kröfur sem VR gerir á stjórnvöld í komandi kjarasamningaviðræðum. Þá fjallar formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, um hvernig krónutöluhækkun skilar sér til félagsmanna VR. Í blaðinu er að finna viðtal við Ragnheiði Guðfinnu Guðnadóttur hjá Forvörnum ehf, en hún stýrir umræðuhópum fyrir karla sem hafa farið í gegnum kulnun í starfi. VR hefur um nokkurt skeið unnið að því að gera hæfni félagsmanna sinna sýnilega og fá hana metna til launa. Farið er nánar yfir málið í VR blaðinu í grein sem ber heitið „VR styður verslunarfólk til starfsþróunar.“
3. tbl. VR blaðsins 2018
Þriðja tölublað VR blaðsins er komið út og er því dreift um allt land með Fréttablaðinu. Magnús L. Sveinsson, fyrrverandi formaður VR, ræðir við ritstjóra VR blaðsins um komandi kjarabaráttu en Magnús man svo sannarlega tímana tvenna í þeim efnum. Mikil aukning hefur átt sér stað í sjúkrasjóði VR á undanförnum árum og er farið yfir stöðuna í blaðinu. Sigrún Ása Þórðardóttir, sálfræðingur hjá Heilsuborg og Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir hjá Heilsuborg, fjalla um mikilvægi þess að sofa og hvílast vel í grein sinni „Skipuleggur þú líf þitt á nóttunni?“ Fyrir hverja er VR? Svörin við því er að finna í þessu nýjasta tölublaði VR blaðsins. Stútfullt blað af frábærum fróðleik, ekki missa af því! Athugið að krossgátan verður á sínum stað í jólablaði VR blaðsins.