Efnahagsyfirlit

Efnahagsyfirlit VR - misjafnar mælingar á kaupmætti launa

Efnahagsyfirlit

07.04.2017

Í nýjasta Efnahagsyfirliti VR er meðal annars fjallað um kaupmátt og misjafnar mælingar á kaupmætti. Vísitölur fyrir kaupmátt launa sýna að kaupmáttur er nú mun meiri en nokkru sinni fyrr. Kaupmáttarvísitala Hagstofunnar er um 15% hærri en hæsta gildið fyrir hrun og Kaupmáttarvísitala VR er um 2% hærri en hæsta gildið fyrir hrun. Þessir mælikvarðar gefa þó ekki nægjanlega góða mynd af þeim kaupmætti sem heimilin finna fyrir þó Kaupmáttarvísitala VR komist örlítið nær því en vísitala Hagstofunnar. Vísitölurnar taka aðeins tillit til launa en ekki annarra tekna. Þá taka þessar vísitölur ekki tillit til ýmissa bóta eða vaxtagjalda. Allir þessir þættir hafa áhrif á kaupmátt heimila. Upplýsingar um ráðstöfunartekjur þ.e. allar tekjur heimilis að frádregnum sköttum og vaxtagjöldum, sýna að kaupmáttur heimilanna er töluvert minni en þegar best lét, þ.e. 2007. Nýjustu tölurnar eru frá 2015 og sýna, sem dæmi, að kaupmáttur hjóna með börn var 30% lægri árið 2015 samanborið við 2007. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju Efnahagsyfirliti VR. Efnahagsyfirlit VR er gefið út í tengslum við stjórnarfundi félagsins og er í því fjallað um helstu málefni líðandi stundar. Í yfirlitinu fyrir apríl í ár er auk umfjöllunar um kaupmáttarvísitölur fjallað um vinnusemi Íslendinga, hvort toppinum í efnahagsuppsveiflunni sé náð, verðbólgu, búferlaflutninga og vinnuskipti félagsmanna VR