Vr Adalfundur 2025 Frettamynd A 1

Almennar fréttir - 27.03.2025

Eftir aðalfund VR

Á fjölmennum aðalfundi VR, sem haldinn var miðvikudaginn 26.mars 2025, voru samþykktar tillögur um sameiningu VR og Leiðsagnar og vegna endurskoðunar á styrkveitingum félagsins. Nýkjörinn formaður, Halla Gunnarsdóttir, gerði kjarasamninga að umtalsefni í ávarpi sínu og sagði undirbúning fyrir næstu lotu samninga hefjast strax í apríl enda ætli forysta félagsins að mæta vel undirbúin og samstillt í viðræður. Það skipti mestu í þessu samhengi að þær kjarabætur sem vinnast í samningum séu ekki teknar af launafólki jafnóðum í gegnum aukna gjaldtöku, verðhækkanir og hærri húsnæðiskostnað.

Á aðalfundinum var farið yfir skýrslu stjórnar og ársreikningur félagsins fyrir árið 2024 samþykktur. Stjórn lagði fram nokkrar tillögur að lagabreytingum sem voru allar samþykktar. Tillögurnar má sjá í heild sinni hér.

Tillaga vegna endurskoðunar styrkveitinga VR var samþykkt á fundinum en sú endurskoðun felur í sér atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks um tilhögun styrkja frá félaginu sem síðustu tvo áratugi hafa einkum verið greiddir í gegnum VR varasjóð. Samþykki félagsfólk upptöku nýs styrkjakerfis í allsherjaratkvæðagreiðslu í haust, verður VR varasjóður lagður niður. Ítarleg kynning á annars vegar VR varasjóði og hins vegar hefðbundnu styrkjakerfi fer fram á miðlum félagsins í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar.

Þá var tillaga um sameiningu VR og Leiðsagnar – félags leiðsögumanna samþykkt. Sjá nánar frétt um samþykktina hér.

Drögum lærdóm af síðustu kjarasamningum

Halla sagði síðustu kjarasamninga hafa verið samþykktir af félagsfólki fyrir ári á þeim grunni að verðabólga og vextir myndu lækka og féllst launafólk á lægri launahækkanir en ella með þá von í brjósti að ávinningurinn yrði meiri. Staðan er hins vegar sú að stýrivextir eru enn alltof háir – og sífellt er launahækkunum kennt um verðbólgu. Verðbólgan sem um ræddi átti sér ekki rætur í launahækkunum heldur fyrst og fremst í óstjórn húsnæðismála, sagði Halla, utanaðkomandi áhrifum og gróðasókn íslenskra fyrirtækja sem birtist í háu verði á nauðsynjum. Við verðum að draga lærdóm af síðustu kjarasamningum og mæta til næstu viðræðna vel undirbúin, með skýra sýn og sameinuð.

Húsnæði, starfsmenntamál og inngilding

Þá fjallaði Halla fjallaði um stóru verkefni félagsins í fortíð og framtíð, meðal annars húsnæðismálin en VR úthlutaði 36 leiguíbúðum VR Blævar íbúðafélags til félagsfólks á starfsárinu. Félagið mun áfram vinna í húsnæðismálum, fyrir unga sem aldna, sagði Halla á fundinum. Þá lagði VR aukna áherslu á sí- og endurmenntun á starfsárinu, en fyrr á þessu ári var opnuð vefsíðan Ræktum vitið sem er afrakstur samstarfs við Samtök verslunar og þjónustu og nýtist öllum í leit að upplýsingum um þá símenntunarmöguleika sem standa til boða.

Önnur þróun sem félagið varð vart við svo um munar á árinu er mikil fjölgun félagsfólks með erlent ríkisfang sem nú telja um 17% félaga. VR hefur brugðist við þessu með herferð um inngildingu sem hrint var af stað að frumkvæði jafnréttis- og mannréttindanefndar félagsins. „Við getum hreinlega ekki haldið samfélaginu úti með eingöngu því vinnuafli sem hér hefur fæðst og mælt sín fyrstu orð á íslensku. Þetta er staðreynd og við ætlum að vinna með hana,“ sagði Halla.

Þá gerði Halla gul stéttarfélög og gervistéttarfélög að umtalsefni og sagði þau birtingarmynd tilrauna til niðurbrots á stéttarfélögum. Þar sem stéttarfélög hafi verið brotin á bak aftur búi vinnandi fólk við mun lakari kjör, afkomuóöryggi og jafnvel fátækt þrátt fyrir fulla vinnu. „Þar sem öflugrar verkalýðshreyfingar nýtur ekki við hefur aukin framleiðni undanfarinna áratuga farið í vasa stórfyrirtækja en ekki þeirra sem búa til verðmætin,“ sagði Halla.

Endurskoðun á skipulagi

Til framtíðar litið sagði Halla að sameining við Leiðsögn, sem samþykkt var á fundinum, muni hafa í för með sér nokkrar breytingar. Stjórn hafi þegar samþykkt að ráðast í vinnu við endurskoðun á skipulagi félagsins. Tímabært sé að skoða hvort núverandi skipulag þjóni starfseminni og félagsfólki í ólíkum störfum og landsvæðum.

Hér má sjá ávarp formanns VR á aðalfundinum í heild sinni.

Gullmerki VR

Á aðalfundinum voru þrjú sæmd gullmerki VR og þeim þökkuð vel unnin störf á vettvangi félagsins en þau eru Árni Leósson, Jón Hrafn Guðjónsson og Jóhanna Sigurbjörg Rúnarsdóttir. Lýst var kjöri formanns, stjórnar og trúnaðarráðs en kosningar í félaginu voru haldnar í mars. Niðurstöður kosninga má sjá hér. Önnur aðalfundarstörf voru tekin fyrir.


Frá vinstri: Jón Hrafn Guðjónsson, Jóhanna Sigurbjörg Rúnarsdóttir, Árni Leósson og Halla Gunnarsdóttir, formaður VR

Framlag í VR varasjóð verður samtals 1.050 m.kr. fyrir árið 2024, en greitt verður í sjóðinn föstudaginn 28. mars.