Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
ZQ2A8315

Almennar fréttir - 19.12.2019

Laun í VR 666 þúsund að meðaltali

Heildarlaun félagsmanna VR voru að meðaltali 666 þúsund krónur í september síðastliðnum og höfðu þá hækkað um 2,1% á sjö mánaða tímabili eða frá febrúar. Miðgildi heildarlauna hækkaði um 2,5% á sama tímabili og var 615 þúsund. Grunnlaun í september voru 657 þúsund krónur að meðaltali og höfðu hækkað um 2% frá febrúar. Miðgildi grunnlauna var 606 þúsund og nam hækkunin 2,5% á sama tímabili. Þetta sýna niðurstöður launarannsóknar VR.

Launarannsókn VR fyrir september 2019 byggir á skráningum tæplega 13 þúsund félagsmanna í launareiknivél á Mínum síðum, eða um þriðjungi félagsmanna í þeim mánuði. Launarannsókn VR sýnir grunn- og heildarlaun eftir starfsstéttum, óháð atvinnugreinum, sem og starfsstéttum innan atvinnugreina. Laun eru birt ef tíu eða fleiri félagsmenn hafa skráð viðkomandi starfsheiti í launareiknivélina á Mínum síðum.

Laun eru birt eftir starfsheitum sem byggja á starfsheitaflokkun úr launakönnun VR. Flokkun atvinnugreina byggir á atvinnugreinaflokkun ÍSAT, en er aðlöguð að þörfum VR og er í samræmi við þá flokkun sem tíðkast hefur í launakönnun VR undanfarin ár.

Heildarlaun og grunnlaun fyrir allan hópinn (þ.e. launatölurnar sem birtar eru í fyrstu málsgrein hér að ofan) eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og atvinnugreinar til að endurspegla samsetningu félagsins. Aðrar launatölur eru óvigtaðar.