Greining á svörum flokkanna

Líkt og fram kom á málþingi VR um niðurskurðarstefnu fyrr á árinu er sú stefna þríþætt. Í fyrsta lagi birtist niðurskurðarstefna sem harkalegur niðurskurður á ríkisútgjöldum, einkavæðing og vanræksla á uppbyggingu innviða. Í öðru lagi kemur niðurskurðastefna fram í hávaxtastefnu sem viðbragð við verðbólgu og í þriðja lagi birtist niðurskurðarstefna í launalækkunum og niðurbroti á skipulagðri verkalýðshreyfingu.

Niðurskurður á ríkisútgjöldum, einkavæðing og vanræksla á uppbyggingu innviða

Afstaða flokkanna til niðurskurðar á ríkisútgjöldum er misjöfn. Af svari Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Miðflokksins má ráða að flokkarnir telji ríkisútgjöld of há og að þeim megi helst ná niður með því að fækka ríkisstofnunum, minnka framlag til ráðuneyta (xM), að ríkið dragi sig úr bankarekstri og áfengissölu (xD) og að losa um eignir ríkisins (xC). Vinstri græn, Flokkur fólksins, Píratar, Framsókn og Sósíalistar hneigjast ekki að niðurskurði á ríkisútgjöldum, en Flokkur fólksins leggur þó áherslu á að draga úr „óþarfa útgjöldum ríkisins“. Framsókn telur að aukin verðmætasköpun geti skapað tekjur fyrir ríkið og Píratar telja að stafræn umbylting geti sparað mikla fjármuni. Samfylkingin virðist telja mögulegt að draga úr kostnaði við rekstur ríkisins og ætlar m.a. að setja reglur um innri endurskoðun hjá öllum stærri ríkisstofnunum og leita til erlendra sérfræðinga um skilvirkni í ríkisrekstri.

Framsókn, Flokkur fólksins, Samfylkingin og VG leggja öll áherslu á innviðauppbygginu. VG hafnar niðurskurðarstefnu alfarið og Samfylkingin vill breyta fjármálareglum til að tryggja að þær leiði ekki til skorts á innviðafjárfestingum.
Þótt enginn flokkur vilji hækka skatta á launafólk eru ýmsar aðrar breytingar á skattkerfinu sem flokkarnir gætu séð fyrir sér. Samfylkingin, Píratar, VG og Sósíalistar opna öll á hækkun fjármagnstekjuskatts en þá með áherslu á efri fjármagnstekjuhópa. Þessir flokkar, auk Flokks fólksins, nefna einnig auðlindagjöld, Sósíalistar nefna auðlegðarskatt (eignaskatt) og Flokkur fólksins leggur til hækkun bankaskatts. Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta. Nokkrir flokkar nefna aukna gjaldtöku á ferðaþjónustu.

Niðurstaða: Líklegt er að sú ríkisstjórn sem tekur við eftir kosningar muni sammælast um einhvers konar aðgerðir til að draga úr ríkisútgjöldum. Hins vegar gefa flokkarnir almennt ekki upp nákvæmlega hversu háar fjárhæðir gætu verið þar undir eða hver áhrifin kunna að verða á þjónustu, gjaldtöku og aðra þætti sem varða launafólk. Skattahækkanir á launafólk koma ekki til álita en aðrar skattkerfisbreytingar gætu átt upp á pallborðið.

Hávaxtastefna sem viðbragð við verðbólgu

Stýrivextir eru ákvarðaðir af Seðlabankanum sem er sjálfstæður en umgjörðin er hins vegar sett af stjórnmálunum. Lítið er þó rætt um þá umgjörð eða um kostnaðinn sem almenningur ber af hávaxtastefnu. Flokkarnir eru eftir sem áður allir sammála um að forgangsmál sé að ná niður vöxtum og verðbólgu, en þá greinir á um hvaða leiðir séu bestar í þeim efnum. Sósíalistaflokkurinn, Framsókn, Flokkur fólksins, VG og Samfylkingin leggja öll áherslu á húsnæðismál sem lið í að takast á við efnahagsvandann. Viðreisn, Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn leggja frekar áherslu á rekstur ríkissjóðs.

Fáir flokkar tilgreina sérstakar aðgerðir um hvernig eigi að koma til móts við þau heimili sem bera og hafa borið þyngstu byrðarnar undanfarin misseri. VG ætlar að beita sérstökum vaxtastuðningi til fólks. Samfylkingin hefur talað á svipuðum nótum en leggur nú til bráðaaðgerðir sem lúta að hömlum á Airbnb sem VG og Sósíalistar telja líka mikilvægt. Flokkur fólksins nefnir leiguþak og hann, ásamt Sósíalistaflokki, telja þörf á að innleiða viðmið um leiguverð. Píratar vilja hækka vaxtabætur, barnabætur, persónuafslátt o.fl. Þá nefna Samfylkingin, Flokkur fólksins og Sósíalistar öll uppbyggingu færanlegra einingahúsa sem bráðaaðgerð.

Niðurstaða: Stjórnmálin eru tilbúin að ráðast í aðgerðir gegn vöxtum og verðbólgu en þau greinir mjög á um hvaða leiðir séu bestar. Hægri flokkarnir leggja öðru fremur áherslu á rekstur ríkissjóðs en miðju- og vinstriflokkar leggja meiri áherslu á húsnæðismál. Ljóst er að ekki er samhljómur meðal flokkanna um bráðaaðgerðir til að koma til móts við þau heimili sem hafa borið þyngstu byrðarnar af hávaxtastefnunni.

Launalækkanir og niðurbrot á skipulagðri verkalýðshreyfingu

Stéttarfélög á Íslandi þykja sterk í alþjóðlegum samanburði og stéttarfélagsaðild er mikil. Iðulega spretta upp tillögur sem miða að því að breyta ferli kjarasamninga sem myndi takmarka svigrúm stéttarfélaga til baráttu fyrir sitt félagsfólk. Ein slík hugmynd lýtur að því að auka valdheimildir ríkissáttasemjara.

Píratar, Vinstri græn, Sósíalistar og Flokkur fólksins svara spurningunni um hvort auka þurfi heimildir ríkissáttasemjara neitandi en sá síðastnefndi telur að auka mætti heimildir til verkfalla. Framsókn og Samfylkingin virðast ekki telja slíkar breytingar nauðsynlegar og Samfylkingin leggur áherslu á samráð við verkalýðshreyfinguna. Viðreisn vill skoða breytingar á vinnumarkaðslöggjöfinni, m.a. hvað varðar heimildir sáttasemjara til að fresta verkföllum og setja í lög að hafi atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu ekki átt sér stað innan tiltekins frests teljist hún samþykkt. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér að auka valdheimildir ríkissáttasemjara og Miðflokkurinn fullyrðir að íslenskur vinnumarkaður sé átakasækinn og telur hlutverk ríkissáttasemjara þurfa að koma til endurskoðunar.

Niðurstaða: Líklegra er að valdheimildir ríkissáttasemjara verði auknar í ríkisstjórn til hægri þar sem Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Miðflokkur væru burðarásar en í ríkisstjórn sem væri á miðju eða til vinstri. Einnig hafa Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur áhuga á frekari breytingum á vinnumarkaðslöggjöfinni, til dæmis hvað varðar stéttarfélagsaðild.