VR spurði og framboðin svöruðu

Enginn flokkur sem býður fram til Alþingis í kosningunum í lok nóvember hyggst hækka skatta á almennt launafólk. Þetta kemur fram í svörum framboðanna við spurningum sem VR sendi þeim öllum um afstöðu þeirra til niðurskurðarstefnu (e. austerity) og til hvaða aðgerða þeir hyggist grípa í efnahagsmálum hljóti þeir umboð til. Í svörunum kemur fram að flokkarnir eru sammála um að ná niður vöxtum og verðbólgu en eru með með ólíka sýn á hvernig það verði best gert. Svör flokkanna eru birt í heild sinni hér að neðan.

  • xB - Framsókn

    Staða hagkerfisins er sterk og við sjáum verðbólguna fara lækkandi, en Framsókn leggur áherslu á áframhaldandi vinnu við lækkun hennar með skynsömum hætti. Það er okkar mikilvægasta viðfangsefni um þessar mundir, samhliða lækkun vaxta.
    Framsókn leggur áherslu á nokkur úrræði til að takast á við efnahagsvandann og styðja við heimili sem bera þyngstu byrðarnar af verðbólgu og hávaxtastefnu. Meðal þeirra eru:

    1. Óverðtryggð húsnæðislán á föstum vöxtum: Framsókn vinnur að því að skapa grundvöll fyrir óverðtryggð húsnæðislán til lengri tíma á föstum hagstæðum vöxtum, sem geti veitt heimilum meiri fyrirsjáanleika og stöðugleika.
    2. Lækkun virðisaukaskatts á matvæli: Til að draga úr kostnaði við matarinnkaup, sem er stór hluti af heimilisbókhaldinu, vill Framsókn lækka virðisaukaskatt á matvæli.
    3. Aukið húsnæðisöryggi: Framsókn leggur áherslu á að tryggja húsnæðisöryggi með auknu framboði á húsnæði og lóðum, og innleiða skattahvata fyrir hagkvæmt húsnæði.
    4. Traust hagstjórn: Framsókn telur að ábyrg hagstjórn sé lykilatriði til að draga úr verðbólgu og lækka vexti, sem er mikilvægt fyrir heimili og fyrirtæki.

    Þessi úrræði miða að því að létta á fjárhagslegri byrði heimila og stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu. Stöðugleiki og lægri verðbólga er það sem kemur heimilunum í landinu að bestum notum við að bæta lífskjör sín.

    xC - Viðreisn

    Viðreisn leggur mjög mikla áherslu á að ráðast í aðgerðir til að lækka verðbólgu og þar með vexti. Lækkun greiðslubyrði einstaklinga, fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga skiptir miklu máli fyrir afkomu þessara aðila allra. Koma þarf jafnvægi á rekstur ríkissjóðs. Viðreisn leggur áherslu á að bæta rekstur ríkisins, minka kostnað við innkaup, fækka stofnunum og losa um eignir - svo ekki þurfi að lækka útgjöld til velferðarmála. Aðgerðir sem styðja þessi markmið eru skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn.

    xD - Sjálfstæðisflokkurinn

    Mikilvægasta verkefnið er að halda áfram á þeirri braut sem hefur nú þegar lækkað vexti og verðbólgu, sem er nú 5,1% en stefnir í 4,5% í nóvember skv. spám. Að engin truflun verði á því ferli mun skipta fjárhag heimilanna gríðarlega miklu máli. Næstu misseri þarf einkum að stuðla að stöðugleika á vinnumarkaði og áframhaldandi aðhaldi ríkissjóðs til að festa í sessi stöðugt verðlag og viðunandi vaxtastig.

    xF - Flokkur fólksins

    Flokkur fólksins vill ráðast í þjóðarátak í húsnæðismálum með því að brjóta nýtt land og endurskoða vaxtamörk. Við leggjum til byggingu 8.000 íbúða í Úlfarsárdal með aðkomu Bjargs og Blævar, húsnæðisfélögum verkalýðshreyfingarinnar í samstarfi með ríki og lífeyrissjóðum og koma á sérstökum innviðasjóði til að fjármagna innviðauppbyggingu svæðisins samhliða því. Þannig er hægt að byggja hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði til kaups og leigu.

    Einnig viljum við koma á nýju húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd til að tryggja stöðugleika og fyrirsjáanleika á húsnæðislánamarkaði og banna verðtryggingu á neytendalánum samhliða því. Tryggja þarf jafna áhættu lántaka og lánveitenda frá því sem nú er þannig að fjármálakerfið hafi raunverulegan hag af stöðugleika og lágri verðbólgu en ekki öfugt. Einnig viljum við koma á nýju félagslegu eignaíbúðarkerfi að fyrirmynd Obos í Noregi.

    Við munum einnig ráðast í aðgerðir fyrir fólk á leigumarkaði með bráðaaðgerðum eins og leiguþaki og skoða svo leiðir sem samtök leigjenda hafa lagt til um viðmiðunarverð á íbúðarhúsnæði til leigu.

    Ráðast þarf í bráðaaðgerðir og takmarka útleigu á íbúðum til ferðamanna og hefja tafarlausa uppbyggingu bráðabirgðahúsnæðis með íslenskum einingahúsum sem Bjarg hefur hannað.

    xJ - Sósíalistaflokkurinn

    Það sem er allra mikilvægast í dag er að tækla húsnæðisvandann. Ríkisstjórn Íslands hefur brugðist almenningi á ótal marga vegu, en þó hvergi eins alvarlega og í húsnæðismálum. Lengi hefur blasað við að staðan á húsnæðismarkaði hefur verið í algjörum ólestri og kemur það fyrst og fremst niður á þeim sem minnst hafa á milli handanna og hagnast helst þeim sem braska með íbúðir. Hagnaðardrifnir leigusalar og skammtímaleiga til ferðamanna í gegnum vefsíður eins og Airbnb hafa þrengt svo að leigjendum og fyrstu kaupendum að ekki er hægt að tala um annað en neyðarástand í húsnæðismálum. Aðgerðir þarf strax:

    1. Ráðist verði tafarlaust í umfangsmikla uppbyggingu á nýjum íbúðum á félagslegum grunni til þess að bregðast við hinni alvarlegu stöðu sem komin er upp. Sósíalistar leggja til að byggðar verði að lágmarki fjögur þúsund íbúðir á ári á næstu þremur árum og eftirleiðis nægilegt byggingarmagn á ári í kjölfarið í hlutfalli við íbúafjölda og þarfir á hverjum tíma. Ráðast verður í framkvæmdir strax.
    2. Tryggja þarf að þær íbúðir sem verið er að byggja verði nýttar fyrir íbúa landsins, ekki í útleigu í gróðaskyni. Líta skal til Noregs, þar sem sett hafa verið lög sem gera ráð fyrir fjórföldum fasteignaskatti á aðra íbúð sem keypt er. Með því að skattleggja eignir umfram eina má ná fram þeim árangri að draga verulega úr uppsöfnun fjárfesta á íbúðum. Til að tryggja að kostnaðinum sé ekki velt yfir á leigjendur þarf samhliða þeim breytingum að setja fram viðmið um leigu þannig að leiguverð sé í samræmi við aðrar hagstærðir á Íslandi.
    3. Einungis verði leyfilegt að leigja út eigið lögheimili í skammtímaleigu, eins og á Airbnb og að skylt verði að birta fasta- og leyfisnúmer eignar á auglýsingum skammtímaleigu áður en til útleigu kemur.
    4. Farið verði í að kortleggja umfang íbúða sem standa auðar og íbúða án lögheimilisskráninga og bregðast við eftir atvikum, til að mynda með hærri skattlagningu. Markmiðið með því er að íbúðir standi ekki auðar til lengri tíma.
    5. Uppsetning á einingahúsum fari fram til að mæta þeim mikla skorti sem er á íbúðarhúsnæði. Þau hús eru heilt yfir mun ódýrari og hægt að reisa mun hraðar.
    6. Taka þarf upp langtímahúsnæðisstefnu á félagslegum grunni sem mætir þeim gríðarlega skorti sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir.
    xL - Lýðræðisflokkurinn

    Hallalaus fjárlög eiga að vera meginreglan með þröngum undantekningum.
    Lækka ætti skatta og gjöld eftir fremsta megni eftir að hagrætt hefur verið í ríkisrekstri. Því meira sem skattgreiðendur halda eftir af sínu sjálfsaflafé, því betra.
    Leggja ber niður alla framleiðslustyrki nema í landbúnaði. Afnema ber þá tolla sem ekki eru verndartollar.
    Einkavæða ber sem flest ríkisfyrirtæki nema Landsvirkjun og Landsnet.
    Hinir ríkisstyrktu kerfisflokkar hafa sýnt að þeim er ekki treystandi til að halda aftur af verðbólgu. Koma verður böndum á verðbólgu umsvifalaust, m.a. með hallalausum ríkisrekstri og niðurskurði útgjalda ríkisins um 20%.
    Lýðræðisflokkurinn mun beita sér fyrir lögbundnu 4% vaxtaþaki á stýrivexti ásamt því að taka húsnæðislið út úr vísitölu neysluverðs.

    xM - Miðflokkurinn

    Miðflokkurinn telur að ný ríkisstjórn verði að einsetja sér að skila hallalausum fjárlögum og gefa þannig væntingar um trausta stjórn efnahagsmála. Nauðsynlegt er að taka strax á hallarekstri og skuldasöfnun ríkisins. Þannig er unnt að sigrast á verðbólgunni og lækka vexti sem kemur öllum til hagsbóta.

    xP - Píratar

    Píratar hafa gagnrýnt aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart stjórnlausri verðbólgu undanfarinna ára og talað fyrir því að slegið yrði á þensluna í samfélaginu þar sem hún er mest í stað þess að leggja þungar byrðar á heimili landsins í formi himinhárra vaxta. Við leggjum til að hækka fjármagnstekjuskatt og að lækka verulega frítekjumark á fjármagnstekjur vegna arðgreiðslna og hlutabréfabrasks en halda því gagnvart vaxtatekjum. Þá viljum við endurskoða skattalegt umhverfi ferðaþjónustunnar með það að markmiði að minnka þenslu og auka verðmætasköpun í greininni.

    Píratar vilja hækka persónuafslátt til þess að koma til móts við öll heimili landsins ásamt því að hækka vaxtabætur, barnabætur og önnur stuðningskerfi samfélagsins eins og örorkulífeyri og ellilífeyri.

    Síðast en ekki síst vilja Píratar stórefla Samkeppniseftirlitið sem hefur mikilvægt eftirlit með því fákeppnisumhverfi sem Íslendingar búa við og teljum við að það geti skilað sér í heilbrigðari samkeppni og lægra vöruverði til lengri tíma.

    xS - Samfylkingin

    Samfylkingin hefur talað fyrir því á Alþingi síðustu tvö árin að ríkisfjármálunum sé beitt markvisst til að vinna gegn verðbólgu og þannig háum vöxtum, en jafnframt að stutt verði við heimilin sem bera þyngstu byrðarnar í gegnum tilfærslukerfin með vaxtabótum og stuðningi við leigjendur. Í framkvæmdaplani Samfylkingarinnar í húsnæðis- og kjaramálum setjum við fram forgangsaðgerðir á næsta kjörtímabili sem miða að því að halda aftur af hækkun fasteigna- og leiguverðs. Bráðaaðgerðir Samfylkingarinnar fela í sér auknar hömlur á Airbnb og að liðkað verði fyrir uppbyggingu færanlegra einingarhúsa og breytingu vannýtts atvinnuhúsnæðis í vandaðar íbúðir. Þá viljum við auka stuðning við óhagnaðardrifin félög á borð við Bjarg og Blæ og koma upp einu samræmdu húsnæðisstuðningskerfi á vegum ríkisins.

    xV - Vinstri græn

    Nauðsynlegt er að bregðast við áhrifum hávaxtastefnu á almenning með sérstökum vaxtastuðningi samhliða endurskoðaðri útfærslu séreignasparnaðarleiðar, með aukinni uppbyggingu leiguhúsnæðis með auknum stofnframlögum og með leigubremsu. Íbúðarhúsnæði á að vera fyrir fólk, ekki fjárfesta. Skattaafslættir af sölu aukaíbúða verði þrengdir og gildi fyrir venjulegt fólk en ekki fjárfesta. Settar verði frekari takmarkanir á skammtímaleigu (t.d. Airbnb). Koma þarf á fót raunverulegu félagslegu eignaíbúðakerfi í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar og stórauka þarf framboð á íbúðarhúsnæði um allt land. Auka þarf möguleika ríkisins á að styðja við innviðauppbyggingu samhliða auknu lóðaframboði sveitarfélaga.

    xY - Ábyrg framtíð

    Ástæða verðbólgunnar í dag er fyrst og fremst fortíðarvandi, mest vegna tekjumissis ferðaþjónustu á covidtímanum ásamt peningaprentun og skuldaslöfnun yfirvalda sem átti sér stað í kjölfarið. Þessu fér er því miður búið að eyða og því er verðbólgan sem fylgir í kjölfarið óumflýjanleg. Núverandi hávaxtastefna hefur bara takmörkuð áhrif þar á og getur í besta falli aðeins tafið verðbólguskotið, en er í versta falli farið að búa til enn meiri verðbólgu t.d. með að kæla uppbyggingu nýs húsnæðis. Um leið og stýrivextir lækka aftur mun óumflýjanlega verða verðbólguskot. Af tveimur slæmum kostum þá er því farsælla að fá verðbólguna án hávaxtastefnunnar heldur en að hún komi með hávaxtastefnunni. Laun þurfa svo að fylgja á eftir.

    Mikil tækifæri gætu verið til að lækka húsnæðisverð, því frá aldamótum hefur raunhúsnæðisverð tvöfaldast. Ástæður hækkunar húsnæðisverðs má að hluta rekja til regluverksins, sem of flókið og leiður oft of mikinn lúxus í lög. Enn veigameira til hækkunar húsnæðisverðs er lóðaskortsstefnans sem fylgt hefur þéttingastefnu borgarinnar. Mun dýrara er að byggja húsnæði í þéttingasvæðum og því þarf að selja slíkar íbúðir mjög dýrt. Frjáls uppbygging úthverfa eins og áður tíðkaðist mun til lengri tíma slá á þennan verðþrýsting og lækka húsnæðisverð aftur í fyrra horf. Það er því forgangsmál að skapa aðstæður sem að tryggðu það að uppbygging nýrra úthverfa geti hafist aftur sem fyrst.

  • xB - Framsókn

    Framsókn leggur áherslu á ábyrgð í ríkisfjármálum og telur mikilvægt að ná jafnvægi í rekstri ríkisins. Það er afar mikilvægt að draga úr vaxtakostnaði ríkissjóðs eins og annarra í samfélaginu. Þar fara fjármunir sem svo sannarlega væri betra að nýta til annarra verkefna. Hins vegar er ekki endilega lögð áhersla á niðurskurð heldur á að auka tekjuöflun ríkisins með auknum hagvexti og verðmætasköpun fremur en með aukinni skattheimtu. Þetta felur í sér að skapa skilyrði fyrir aukna verðmætasköpun og nýsköpun, sem getur leitt til aukinna tekna fyrir ríkið án þess að þurfa að skera niður þjónustu eða fjárfestingar í innviðum.

    Framsókn vill einnig tryggja að fjárfestingar í fólki og innviðum haldi áfram með ábyrgum og skynsamlegum hætti. Ef niðurskurður er nauðsynlegur, er mikilvægt að hann sé framkvæmdur á þann hátt að hann hafi sem minnst áhrif á grunnþjónustu og velferðarkerfið.

    xC - Viðreisn

    Viðreisn leggur áherslu á að ríkissjóður sé rekinn í jafnvægi og rekstur hans taki tillit til aðstæðna í hagkerfinu. Velferðin verður ekki tekin að láni en við viljum tryggja fjármögnun útgjalda til velferðarmála.

    Ríkið þarf að leggja mun ríkari áherslu á að styðja hagstjórnina þannig að dregið sé úr þenslu í hagkerfinu með útgjaldalækkunum þegar þörf er á en stutt við hagkerfið með aukinni fjárfestingu þegar slaki er.

    Vaxtaútgjöld ríkis og sveitarfélaga eru með þeim hæstu sem sem þekkist í Evrópu. Því verður að breyta og það ætlar Viðreisn sér.

    Þetta eru viðfangsefni sem Viðreisn ætlar að taka á með festu. Það ætlar Viðreisn að gera með því að bæta rekstur ríkisins og straumlínulaga, minnka kostnað við innkaup ríkisins, fækka ráðuneytum og stofnunum ásamt því að losa um ríkiseignir s.s. Íslandsbanka, ýmsar fasteignir og lönd.

    Með þessari aðferðafræði viljum koma í veg fyrir skattahækkanir á launafólk og einnig að skerða þurfi starfsemi og þjónustu á sviði velferðarmála.

    xD - Sjálfstæðisflokkurinn

    Heildarútgjöld ríkissjóðs verða um 1.500 milljarðar króna á næsta ári og eru með því allra mesta sem gerist meðal þróaðra ríkja. Vinna þarf sífellt í því að nýta þá fjármuni skattgreiðenda betur, eins og á við í öllum rekstri, án þess að það dragi úr þjónustu eða fjárfestingu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur til að mynda lagt til að fækka stofnunum úr 160 í 100 til að minnka yfirbyggingu. Þá má losa um fjármuni með því að ríkið dragi sig til hlés í samkeppnisrekstri eins og bankarekstri og hætti smásölu áfengis, sem einkaaðilar eru fullfærir um að sinna.

    xF - Flokkur fólksins

    Við teljum ekki þörf á að ráðast í flatan niðurskurð. Við teljum hins vegar rétt að draga úr óþarfa útgjöldum ríkisins, svo sem kaupum á dýru skrifstofuhúsnæði og starfshópavæðingu hins opinbera.

    xJ - Sósíalistaflokkurinn

    Nei, almennt þarf að auka útgjöld til að bregðast við uppsöfnuðum vanda og aðgerðaleysis fráfarandi ríkisstjórnar. Auka þarf útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu í skrefum með sérstakri áherslu á heilsugæslu, forvarnir og öldrunarþjónustu. Heilstæð stefnumótun í málaflokknum þarf að fara fram og uppbyggingun hjúkrunarheimila hraðað. Í samgöngumálum þarf átak. Sósíalistar hafna því að hagnaðardrifin félög komi að almannaþjónustu og uppbyggingu vegakerfisins sem greitt væri fyrir með vegatollum. Slíkt er alltaf dýrara til lengdar heldur en að hið opinbera sjái um það sjálft.

    xL - Lýðræðisflokkurinn

    Já. Við viljum skera niður um tæpa 300 milljarða en hlífa heilbrigðiskerfinu, almannatryggingum, grunn- og framhaldsskólum og löggæslu. Sem dæmi má nefna niðurskurð til fjölmiðla þ.á.m. RÚV, afnám styrkja til stjórnmálaflokka, breytt fyrirkomulag í styrkjum til menninga, lista, íþrótta og æskulýðsmála, breytingar á háskólastiginu, loftslags- og orkusjóður, o.fl.

    xM - Miðflokkurinn

    Útgjöld ríkissjóðs á tímabilinu 1980 til 2023 hafa vaxið mun hraðar en verg landsframleiðsla á mann og er nú nánast annarri hverri krónu endurúthlutað í gegnum hið opinbera. Á árunum 2015 til 2023 jukust heildarútgjöld ríkissjóðs um 52 prósent að raunvirði sem líklega er Evrópumet. Útgjöld hafa vaxið vel umfram verðlagsþróun á nánast öllum málefnasviðum ríkissjóðs á síðasta áratug sem kann að skýrast að hluta af miklum fólksflutningum til landsins. Rífleg hækkun á framlagi ríkissjóðs til aðalskrifstofa ráðuneyta og einstakra stofnana, sem í sumum tilfellum hefur verið 40 til 80 prósent að raunvirði á tímabilinu 2015 til 2025 bendir einnig til allverulegrar gullhúðunar stjórnsýslunnar.

    Þá má benda á að eftirlitsstofnanir ríkisins eru nú á þriðja tug talsins og útgjöld þeirra jukust um meira en helming á árunum 2010 til 2018. Ekkert lát virðist á þessari þróun og eftirlitsiðnaður ríkisins blómstrar mörgum til undrunar.

    xP - Píratar

    Píratar vilja hagræða í rekstri ríkisins með því að ráðast í stafræna umbyltingu á opinberri stjórnsýslu og í öllum stærstu stofnunum landsins og spara þar með mikla fjármuni og margar vinnustundir opinberra starfsmanna. Þá vilja Píratar taka hina ýmsu skattaafslætti, sem telja allt að 100 milljarða á ári, til gagngerrar endurskoðunar og kanna hvar er hægt að spara í þeim efnum.

    xS - Samfylkingin

    Samfylkingin vill breyta lögum um opinber fjármál og taka upp stöðugleikareglu um jafnvægi tekna og rekstrarútgjalda með tilliti til hagsveiflunnar. Eins og Gylfi Zoega og Sigurður Jóhannesson benda á í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hefur núverandi afkomuregla hvorki hvatt stjórnvöld til þess að reka ríkissjóð með afgangi í góðæri né til að leyfa miklum halla að myndast í kreppu. Reglan hefur líka haft för með sér að viðhald á innviðum er vanrækt. Stöðugleikareglan sem Samfylkingin vill taka upp mun ekki taka til fjárfestinga, hvorki nýrra framkvæmda né viðhalds, og þannig ekki bitna á innviðafjárfestingum.

    Samfylkingin telur að það hvíli sú skylda á stjórnmálamönnum að fara vel með opinbert fé og leita allra leiða til að tryggja hagkvæma og skilvirka ráðstöfun fjármuna. Þess vegna viljum við setja reglur um innri endurskoðun hjá öllum stærri ríkisstofnunum, fela erlendum sérfræðingum að vinna hvítbók um hagræðingu og skilvirkni í ríkisrekstri, skerpa á ábyrgðarskiptingu og gæðakröfum með nýjum heildarlögum um opinberar framkvæmdir, og fjárfesta markvisst í stafrænum innviðum hins opinbera til að draga úr rekstrarkostnaði til langs tíma.

    xV - Vinstri græn

    Nei. VG hafnar niðurskurðarstefnu í baráttu við verðbólgu. Nauðsynlegt er að uppræta kerfisbundna verðbólguhvata með samstilltu átaki ríkis, Seðlabanka og sveitarfélaga.

    xY - Ábyrg framtíð

    Mikil tækifæri eru til að spara í ríkisútgjöldum án þess að slíkt bitni á þjónustu við almenning. Tökum samgöngusáttmálann sem dæmi. Aðeins 6% af umferðarfénu á að fara í hefðbundin skynsamleg umferðarmannvirki eins og byggð voru áður fyrr, göngubrýr, stofnvegi og mislæg gatnamót. Restin á að fara í bruðl, borgarlínu, gríðarflóknar stokkaframkvæmdir eða göng rétt unnir húsgrunnum og álíka ævintýraverkefni sem hægt væri að leysa fyrir fimmtung af framkvæmdafénu.

    Í opinberum framkvæmdum er einnig orðin regla að framkvæmdir fari af stað mjög vanundirbúnar. Þetta eykur gríðarlega á kostnað og sóun, þ.a. skattgreiðendur fá mun minna fyrir peninginn. Við myndum fara fram á að allar nýjar opinberar framkvæmdir yfir 100 milljónum þyrftu að fara í óháð undirbúningsmat, þ.a. tryggt sé að menn í senn viti hvað þeir ætla að gera og hvernig. Á hinum norðurlöndunum hafa menn tekið upp slíkt mat og sjálfsagt mál er að íslendingar geri slíkt hið sama. Með þessu má spara tugi milljarða.

    Í opinber stjórnslýslu eru alltaf tilhneyging að stofnanir fái eilíft líf, og með tímanum fer þjónusta kerfisins við sig sjálft að skipta meira máli en þjónustan við almenning. Kerfið ver sig nefnilega alltaf sjálft. Mikilvægt er að sýna þessari viðleitni raunverulegt aðhald og sjá til þess að stofnanir hagi stakk eftir vexti og umfangið þeirra þjónustu sem er að skapa virði fyrir þegnana. Það má þannig lengi hagræða í opinberum rekstri.

  • xB - Framsókn

    Framsókn leggur áherslu á að tryggja tekjuöflun fyrir ríkissjóð með því að auka hagvöxt og verðmætasköpun fremur en að auka skatta á almennt launafólk. Þetta felur í sér að skapa skilyrði fyrir aukna nýsköpun, rannsóknir og þróun, sem getur leitt til aukinna tekna fyrir ríkið.
    Flokkurinn vill einnig nýta samvinnu milli einkaaðila og hins opinbera við uppbyggingu innviða, sem getur flýtt fyrir framkvæmdum og tryggt þjóðhagslegan ábata. Að auki er lögð áhersla á að endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkisins, til dæmis með því að skoða gjaldtöku á þeim svæðum þar sem ágangur er mikill og uppbygging kostnaðarsöm. Framsókn vill tryggja að fjárfestingar í innviðum, eins og vegum, heilbrigðisþjónustu og hjúkrunarheimilum, séu framkvæmdar á ábyrgari og árangursríkari hátt með tryggri fjármögnun. Við boðum engar byltingar en okkar fyrirheit eru að halda áfram uppbyggingu innviða íslensks samfélags með því að auka verðmætasköpun og þróa skattkerfið áfram í anda sanngirni og lausnamiðaðrar skynsemishyggju.

    xC - Viðreisn

    Viðreisn telur fullkomlega raunhæft að bæta til muna árangur í rekstri ríkissjóðs án þess að hækka skatta. Þess í stað vill Viðreisn lækka kostnað og skuldir. Viðreisn leggst alfarið gegn hækkun skatta á almennt launafólk.

    xD - Sjálfstæðisflokkurinn

    Sjálfstæðisflokkurinn hyggst ekki hækka skatta heldur lækka þá og hefur birt fjölbreyttar tillögur til þess, eins og að fella niður stimpilgjöld á fyrstu kaupendur. Til að efla þjónustu þarf líkt og fyrr greinir að nýta fjármuni skattgreiðenda sífellt betur. Leita þarf leiða til þess að hægt sé að ráðast í uppbyggingu í samvinnu við einkaaðila (PPP) eins og gert er víða á Norðurlöndunum. Enn fremur þarf að stuðla að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu til þess að auka svigrúm ríkissjóðs almennt séð.

    xF - Flokkur fólksins

    Flokkur fólksins hefur bent á hækkun bankaskatts og endurskoðun auðlindagjalda í þeim efnum. Einnig að endurskoða gjaldtöku í ferðaþjónustunni sem hefur aukið álag á innviði gríðarlega. Samanlagður ávinningur þessa þátta fyrir ríkissjóð ætti að laga hallarekstur og gefa aukið svigrúm til aukinnar uppbyggingar. Einnig kemur til greina að endurskoða hvenær iðgjöld í lífeyrissjóði eru skattlögð í samhengi við þann innviðareikning sem við erum nú þegar að senda framtíðar kynslóðum, reikning sem verður mun hærri en hann er í dag, haldi innviðir áfram að grotna niður.

    xJ - Sósíalistaflokkurinn

    Á timabili nýfrjálshyggjunnar sem hófst fyrir yfir þrjátíu árum hefur skattbyrðin færst frá fyrirtækjum og hátekjufólki til lág- og millitekjufólks. Sósíalistar vilja snúa ofan af þessari þróun. Við getum sótt tugi milljarða til hátekjufólks með því að greitt sé sama hlutfall í skatt af fjármagnstekjum og atvinnutekjum. Það er t.d. fjarstæða að fólk sem lifir engöngu af fjármagnstekjum greiði ekkert til nærsamfélagsins í gegnum útsvar. Svo ætlum við að sækja rentuna frá auðlindum almennings til baka frá kvótagreifunum og leggja á hóflegan auðlegðarskatt (eignaskatt). Á móti má hækka frítekjumarkið sem kemur til móts við lág- og millitekjufólk. Með þessu má sækja töluvert fjármagn til hátekju- og efnafólks sem nota má til að leggja vegi, treysta heilbrigðisþjónustu um allt land og byggja hjúkrunarheimili.

    xL - Lýðræðisflokkurinn

    Með framangreindum niðurskurði ásamt sölu ríkisjarða, sölu á bönkunum o.fl. Lýðræðisflokkurinn mun lækka alla skatta, afnema tolla sem ekki eru verndartollar og lækka ýmis gjöld enda eru Íslendingar nú skattpínd þjóð.

    xM - Miðflokkurinn

    Miðflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi fjölbreyttrar atvinnustarfsemi um land allt. Miðflokkurinn styður hvers konar framþróun og nýsköpun til að efla fjölbreytta atvinnustarfsemi byggða á gæðum landsins og þekkingu landsmanna. Það ásamt öflugu menntakerfi mun tryggja áframhaldandi útflutning hátæknivara en þar hafa Íslendingar nú þegar náð eftirtektarverðum árangri. Það ásamt skynsömum hagræðingaraðgerðum mun fjármagna þau verkefni sem bíða.

    xP - Píratar

    Píratar telja ekki þörf á að auka skatta eða gjaldtöku á almennt launafólk heldur vilja þeir færa skattbyrðina í auknum mæli yfir á tekjuhæsta fólkið í landinu. Það gerum við til dæmis með því að hækka fjármagnstekjuskatt, hækka auðlindagjöld og leggja frekari skatta og gjöld á mengandi iðnað í landinu. Við ætlum okkur líka að stórefla skattaeftirlit sem við teljum að muni skila ríkissjóði umtalsverðum tekjum ásamt því að gera atlögu að aflandssvæðaeignum sem ekki hafa verið taldar fram.

    xS - Samfylkingin

    Skattbyrði almenns launafólks hefur þyngst verulega á síðustu tíu árum. Þetta sýna gögn Skattsins og Hagstofunnar. Ofan á þetta bætist nú mikill vaxtakostnaður heimila vegna þeirrar óstjórnar sem hefur ríkt í efnahagsmálum. Samfylkingin telur ekki boðlegt að hækka frekar skatta á almennt launafólk. Þess vegna leggjum við áherslu á að tekjustofnar ríkisins verði styrktir með sanngjörnum auðlindagjöldum og auknu jafnræði við skattlagningu launa og fjármagns. Við erum ósammála þeim stjórnmálaflokkum sem vilja að ríkasta 1 prósentið á Íslandi greiði miklu lægra skatthlutfall en millistéttin. Þá teljum við mikil sóknarfæri fyrir hendi þegar kemur að bættum skattskilum og aukinni stafvæðingu skattframkvæmdar.

    xV - Vinstri græn

    Við viljum ekki auka skatta eða gjaldtöku á almennt launafólk. Efnahagsstefnan á að draga úr ójöfnuði, tekjuöflun hins opinbera á að vera sanngjörn og stuðla að samfélagssátt, þannig að hin efna- og eignameiri leggi meira af mörkum. Fjármagnstekjuskattur á að vera þrepaskiptur þannig að stóreignafólk greiði hærra hlutfall heldur en venjulegt fólk af hóflegum sparnaði. Stórauka þarf skatteftirlit en skattaundanskot hafa verið metin um 100 milljarðar á hverju ári. Þau sem fá heimildir til að nýta auðlindir landsins verða að greiða stærri hluta af ágóðanum í sameiginlega sjóði. Gagnsæi um eignatengsl í sjávarútvegi verði eflt samhliða því að veiðigjöld á stórútgerðina séu hækkuð.

    xY - Ábyrg framtíð

    Við munum tala fyrir að áhersla verði lögð á þær innviðaframkvæmdir sem skila mestum ánvinningi fyrir sem minnstu fjármuni. Við munum tala fyrir að leyft verði að skoða aðrar lausnir en sundabraut til að mæta samgönguvanda og höfum t.d. lagt til Laugarnesgöng, sem gefa tvöfallt meiri styttingu út á land og kosta ekki nema fimmtung af því sem sundabrautarverkefnis stefnir í dag í að kosta. Slík göng er auðvelt að fjármagna með hóflegum veggjöldum af notendum einum saman (sbr. Vaðlaheiðagöng).

    Í heilbrigðisþjónustu tölum við fyrir því að fé fylgi sjúklingi, og munum tala fyrir aukinni samkeppni. Með samkeppni kemur hagræðing og betur verður farið með fé. Eins tölum við fyrir því að útlagður heilbrigðiskostnaður fólks verði frádráttabær tekjuskattstofni. Slíkt er eðlilegt því fátt er fólki mikilvægara en heilsan. Enn fremur viljum við efla siðferði við heilbrigðisþjónustu og festa í lög að sannanlegt upplýst samþykki sjúklings eða nánasta ættingja þurfi að fylgja öllum meðferðum. Við viljum efla sjálfstæði lækna þ.a. þeir fái að fyrirskrifa allar þær lækningar sem þeir telja að muni gagnast sjúklingum sýnum án þess að eiga á hættu að missa starf, starfssleyfi eða vera refsað að annan hátt. Eins tölum við fyrir að lyfjaverðlagning verði rýnd, þ.a. gagnsöm lyf gegn covid, longcovid og bóluefnaskaða verði seld á eðlilegu verði í stað núverandi ástands þar sem þau eru seld á 300 földu verði miðað við Indland.

    Undir engum kringumstæðum myndum við vilja auka skatta, því sóun hjá hinu opinbera er svo yfirgengileg að auðvelt er að finna leiðir til að lækka útgjöld. Það er að nógu að taka.

    Alls konar niðurgreiðsla á lúxus, eins og rafbílum, hafa síðasta ríflega áratug kostað ríkisjóð um 150 milljarða í töpuðum skatttekjum. Við styðjum þannig almennt ekki skattalega mismunum milli bílaeigenda eftir því hvernig bíl þeir eiga. Þessi mismunun hefur nýlga minnkað, en hún þyrfti að hverfa.

    Værum opnir fyrir endurskoðun á öllum neytendastýringasköttum, því þeir eru að jafnaði nefskattar og bitna því verst á láglaunafólki.

  • xB - Framsókn

    Framsókn hefur ekki lagt fram sérstakar tillögur um að auka valdheimildir ríkissáttasemjara eða draga úr styrk stéttarfélaga. Flokkurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að viðhalda góðu samstarfi milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins til að tryggja stöðugleika og sanngjarna kjarasamninga.

    Samráð og samvinna milli allra aðila á vinnumarkaði eru talin lykilatriði til að ná fram lausnum sem gagnast bæði launafólki og atvinnurekendum. Það er þýðingarmikið að allir sem koma að kjarasamningum nálgist verkefnið á jákvæðan hátt og séu tilbúin til að setja sig inn í skilja sjónarmið hvers annars. Skynsamlegar og sanngjarnar málamiðlanir eru heillavænlegastar til lengri tíma litið.

    xC - Viðreisn

    Viðreisn vill eiga ríkt samráð við aðila vinnumarkaðarins um hugsanlegar breytingar á skipulagi vinnumarkaðar og vinnumarkaðslöggjöfinni, þar með talið um valdheimildir ríkissáttasemjara. Meðal þess sem Viðreisn vill skoða nánar er að tryggja að greidd verði atkvæði um miðlunartillögur ríkissáttasemjara, til að mynda með því að setja í lög að ef ekki hefur átt sér stað atkvæðagreiðsla innan tiltekins frests þá teljist tillagan samþykkt. Í núgildandi lögum eru ákvæði um að miðlunartillaga verði aðeins felld ef meirihluti þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni er gegn henni og mótatkvæði eru fleir en nemur fjórðungi félagsmanna. Færð hafa verið rök fyrir því að ákvæðið um lágmarksþátttöku sé mjög íþyngjandi fyrir fjölmenn félög á borð við VR og Eflingu. Til að taka þessi sjónarmið til greina má hugsa sér þetta hlutfall verði lækkað verulega þannig að atkvæði félagsmanna en ekki þátttaka ráði úrslitum um hvort miðlunartillaga er felld eða ekki.

    Á Norðurlöndunum hafa ríkissáttasemjarar heimild til að fresta verkföllum, enda verði það til þess að auka líkur á að samningar náist. Jafnframt geta þeir neitað að taka við deilumálum til sáttameðferðar ef ákveðin skilyrði eru ekki uppfyllt. Þetta eru einnig atriði sem þarf að skoða nánar í samtali við aðila vinnumarkaðarins.
    Íslenskt vinnumarkaðsmódel, eins og vinnumarkaðsmódel hinna Norðurlandanna, byggir á sterkum stéttarfélögum með almennri félagsaðild. Viðreisn sé enga ástæðu til að draga úr styrk stéttarfélaga.

    xD - Sjálfstæðisflokkurinn

    Tryggja þarf í lögum að ríkissáttasemjari geti lagt fram miðlunartillögu til atkvæðagreiðslu og styrkja þarf hlutverk hans við lausn kjaradeila. Stéttarfélög gegna mikilvægu hlutverki og Sjálfstæðisflokkurinn styður að borgararnir geti unnið að sýnum hagsmunum í gegnum slík félög. Á hinn bóginn er eðlilegt að einstaklingar hafi eitthvað raunverulegt val um hvort og í hvaða stéttarfélagi hagsmunum þeirra er best borgið.

    xF - Flokkur fólksins

    Ekki má með nokkru móti auka valdheimildir ríkissáttasemjara. Sérstaklega er snúa að því að þvinga fram miðlunartillögum gegn vilja samningsaðila. Núverandi óskrifaða regla er snýr að miðlunartillögum hefur reynst vel í áratugi þar sem slíkar tillögur eru alla jafna ekki lagðar fram séu þær í andstöðu við annan aðila eða báða. Reynsla annara landa á því að skerða verkfallsheimildir stéttarfélaga hafa undantekningarlaust skilað sér í verri lífskjörum almennings og aukins aðstöðumuns vinnandi fólks gagnvart fyrirtækjum. Þvert á móti ætti að auka heimildir stéttarfélaga til verkfalla. Enda eru verkföll ekki tíðari hér en í samanburðarríkjum.

    xJ - Sósíalistaflokkurinn

    Nei og nei!

    xL - Lýðræðisflokkurinn

    Meginreglan er samningsfrelsi á milli aðila vinnumarkaðarins. Ekki kemur því til greina að draga úr styrk stéttarfélaga.

    xM - Miðflokkurinn

    Rannsóknir fræðimanna sýna að íslenskur vinnumarkaður er átakasækinn og verkföll og skærur tíðari en í nágrannalöndunum. Það er því mikilvægt á öllum tímum að endurskoða löggjöf um vinnumarkað og þar hlýtur hlutverk ríkissáttasemjara að vera mikilvægt.

    xP - Píratar

    Nei.

    xS - Samfylkingin

    Samfylkingin er mótfallin aðgerðum sem „draga úr styrk stéttarfélaga“ og leggur áherslu á að hvers kyns breytingar á vinnumarkaðslöggjöfinni séu unnar í nánu samráði við verkalýðshreyfinguna.

    xV - Vinstri græn

    Nei.

    xY - Ábyrg framtíð

    Ábyrg framtíð er með það að meginstefnu að fram fari uppgjör á kóvidtímanum svo íslensk þjóð lendi ekki í svipuðum hremmingum aftur sem setji allt hagkerfið, lagagrunninn og heilsu fólks á hliðina. Í ljósi mikilvægi þessa uppgjörs viljum við helst ekki skipta okkur að samningsrétti og núverandi fyrikomulagi. Almenna reglan er þó sú að báðir aðilar þurfa að meðhöndlun samningsrétt sinn að ábyrgð.