Kulnun
Kulnun (e. burnout) er sálfræðileg lýsing á afleiðingum langvinnrar streitu. Kulnun er ekki bara tengd starfinu því oft er einnig um að ræða álagsþætti heima fyrir. Helstu einkenni kulnunar eru þreyta, pirringur, spenna og skortur á slökun. Oft fylgir líka gleði- og áhugaleysi fyrir starfi og því sem áður var ánægjulegt. Erfiðleikar í samskiptum aukast og tilhneiging verður til einangrunar.
Gleymska
Gleymska er algengt einkenni þegar langvinn streita eða kulnun er til staðar. Algengt er að nöfn gleymist eða tímasetning funda og stundum verður gleymskan mjög áberandi og getur jafnvel farið að líkjast heilabilun. Frægt var þegar þekktur prófessor á besta aldri fann ekki bílinn sinn eftir að hafa lokið fyrirlestri.
Þreyta
Þreyta er almennt einkenni sem getur komið fram við áhyggjur, andlega og líkamlega áreynslu eða ofreynslu í starfi sem leik. Ein algengasta ástæða þreytu er langvinnt álag eða kulnun. Vítahringur myndast vegna álags og um leið skorti á hvíld og svefni. Margir átta sig ekki á mikilvægi hvíldar og eiga það til að þjálfa of mikið í ræktinni þegar álag er mikið og hvíld ætti betur við.
Pirringur
Skapbreytingar eins og pirringur eru algengar við langvinnt álag.
Margir verða pirraðir ef þeir hafa mikið að gera og fyllast óþolinmæði út í aðra og ná ekki að hafa stjórn á skapi sínu.
Áhugaleysi
Áhugaleysi er algengt ef kulnun hefur gert vart við sig. Þá finnur maður ekki tilhlökkun og sumir glata gleðinni og ánægju till að gera hluti sem þeim hefur áður þótt gaman að gera. Kulnun í starfi er lýst þannig af sálfræðingum að þegar álagið hefur staðið lengi finnist manni eins og maður komist aldrei yfir það sem gera þarf í vinnunni. Áhuginn fyrir verkefnum dagsins dvínar og maður missir áhugann.
Svefnleysi
Algengar ástæður svefnleysis er aukin spenna, skortur á slökun, álag og streita.
Þetta er sérlega slæmt ef kulnun er að myndast því þá er hætta á vítahring með hvíldarleysi.
Veikindi
Langvinn og alvarleg streita getur valdið margs konar sjúkdómum, bæði andlegum og líkamlegum. Kvíði og þunglyndi eru algengir fylgifiskar streitu. Líkamleg sjúkdómseinkenni sem talin eru streitutengd eru fjölmörg. Þau algengustu eru frá brjósti, s.s. bakflæði, kyngingarörðuleikar, þyngsl fyrir brjósti og hjartsláttaróregla.
Einkenni frá kvið eru líka algeng, helst verkir og meltingartruflanir og hægðabreytingar. Margir fá órólegan ristil. Önnur almenn einkenni eru svimi, sjóntruflanir, viðkvæmni fyrir hljóðum og áreiti og ýmis konar verkir.
Margir vísindamenn líta á kulnun og sjúklega streitu sem heilasjúkdóm þar sem heilastarfsemin er orðin mjög trufluð af völdum streitu og álags. Þá virðist sem þetta sjúklega ástand heilans valdi öllum andlegu og líkamlegu einkennum streitu og kulnunar.
Streita
Öll upplifum við af og til streitu. Það er eðlilegt þegar álag dagsins nær til okkar. Í okkur öllum býr mikill andlegur og líkamlegur kraftur sem nýtist okkur ómeðvitað til að takast á við verkefni í leik og starfi við álag, mótlæti og áföll. Margs konar flókin starfsemi í taugakerfi og hormónakerfum okkar gerir okkur kleift að takast á við mikið álag og sálrænar varnir verja andlegu heilsuna.
Mikilvægt er að við gerum okkur grein fyrir hvernig við getum eflt þennan kraft og varnir. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á hversu mikilvæg hvíld og hreyfing eru. Það er ekki nægilegt að hvílast um helgar eða á kvöldin eftir gott dagsverk heldur er einnig mikilvægt að róa hugann og hvíla líkamann á milli verka yfir daginn með stuttum hléum og umhugsun.
Sjúkleg streita
Sjúkleg streita (e. exhaustion disorders) er sjúkdómsgreining þar sem við langvinna streitu hefur myndast sjúklegt ástand með miklu orkuleysi, spenntum huga, einbeitingarskorti, gleymsku og oft kvíða eða depurð. Í kjölfarið geta myndast streitutengdir líkamlegir sjúkdómar s.s. hjartsláttaróregla eða hjartaáfall, meltingarfæratruflanir, verkir og jafnvel krabbamein.
Svefn er oft raskaður og hefur þá myndast vítahringur með skorti á hvíld og getur þetta leitt til andlegrar og líkamlegrar örmögnunar.
Þunglyndi
Flestir upplifa einhvern tímann tímabil depurðar í kjölfar erfiðleika, áfalla eða sorgar. Þá er til staðar vanlíðan með depurð og kvíða og stundum svefnröskun. Þetta líður hjá með stuðningi eða bara með tímanum. Þetta mætti kalla eðlilegt þunglyndi.
Ef þunglyndið er djúpstæðara og stendur lengur er talað um óeðlilegt þunglyndi. Það getur t.d. myndast eftir sambandsrof eða áföll sem eru þess eðlis að skiljanlegt er að tilfinningaleg viðbrögð verði með söknuði, sorg eða vonbrigðum. Við slíku þunglyndi er gott að fá stuðning og ráð.
Ef þunglyndi er til staðar dag hvern og stendur lengur en tvær vikur með truflandi einkennum eins og einbeitingartruflun, sterkum kvíða eða miklu vonleysi þá getur verið um að ræða sjúklegt þunglyndi. Því geta fylgt óljós líkamleg einkenni og alvarleg svefntruflun. Við slíku þunglyndi er best að leita sér meðferðar hjá lækni eða sálfræðingi því árangursrík meðferðarúrræði eru til.
Hljómar þetta kunnuglega?
VR hefur tekið saman nokkur ráð gegn streitu ásamt tenglum á fagaðila sem við hvetjum þig til að skoða.