Efnahagsleg nauðsyn eða pólitísk hugmyndafræði?

Málþing VR um niðurskurðarstefnu

Þriðjudaginn 17. september 2024 kl. 14:00 – 16:00. Húsið opnar kl. 13:30.
Fundarsal VR á 9. hæð í Húsi verslunarinnar
Fyrirlesarar: Clara Mattei, prófessor í hagfræði frá Bandaríkjunum, og Ásgeir Brynjar Torfason, ritstjóri Vísbendingar.
Skráning á viðburðinn fer fram neðst á þessari síðu.

Í ár er öld síðan niðurskurðarstefna var innleidd skipulega á Íslandi í fyrsta sinn og af því tilefni efnir VR til málþings um uppruna, inntak og áhrif þessarar umdeildu stefnu. Lykilfyrirlesari er Clara Mattei, prófessor í hagfræði og tilvonandi forstöðumaður Miðstöðvar um framsækna hagfræði við háskólann í Tulsa í Oklahoma í Bandaríkjunum sem verður opnuð í janúar á næsta ári. Clara hefur fjallað ítarlega um uppruna og þróun niðurskurðarstefnu allt frá lokum fyrri heimsstyrjaldar. Ásgeir Brynjar Torfason, ritstjóri Vísbendingar, heldur erindi um niðurskurðarstefnuna í íslenskum veruleika og í pallborði verða áhrif hennar á íslenskt samfélag og vinnumarkað rædd. Málþingsstjóri er Halla Gunnarsdóttir, varaformaður VR. 

Niðurskurðarstefna (e. austerity) var algengt viðbragð ríkja við efnahagshruninu árið 2008 og hefur um langa hríð verið eitt af skilyrðum alþjóðastofnana fyrir lánveitingum til ríkja í vanda, líkt og átti við um Ísland í efnahagshruninu. Í COVID-faraldrinum mátti merkja vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að fallast á að niðurskurðarstefna hefði almennt ekki skilað tilætluðum árangri og ekki reynst tæki til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, grynnka á opinberum skuldum eða örva hagvöxt. Engu að síður lifir niðurskurðastefna góðu lífi og er enn eitt helsta tæki stjórnmálanna til að takast á við verðbólgu og erfitt efnahagsástand. 

Clara Mattei hefur fjallað um þrjár birtingarmyndir niðurskurðarstefnu. Í fyrsta lagi birtist niðurskurðarstefna sem harkalegur niðurskurður á ríkisútgjöldum, einkavæðing og vanræksla á uppbyggingu innviða. Í öðru lagi kemur niðurskurðastefna fram í hávaxtastefnu sem viðbragð við verðbólgu og í þriðja lagi birtist niðurskurðarstefna í launalækkunum og niðurbroti á skipulagðri verkalýðshreyfingu. Í hnotskurn gengur niðurskurðarstefna því út á að almennt launafólk beri kostnaðinn af þeim vandamálum sem blasa við á hverjum tíma í gegnum lækkun raunlauna, hærri vaxtabyrði og niðurskurð á opinberri þjónustu, á meðan fjármagnið er varið og ójöfnuður eykst.

Á málþinginu verður fjallað um þessa þætti, bæði í alþjóðlegu og innlendu samhengi, og leitast við að varpa upp öðrum valmöguleikum til að takast á við efnahagsmál og ríkisfjármál. 

Dagskrá málþingsins er sem hér segir:

  • Kl. 13:30 – 14:00 Húsið opnar
  • Kl. 14:00 – 14:10  Setning – Halla Gunnarsdóttir, málþingsstjóri og varaformaður VR
  • Kl. 14:10 – 14:50  Clara Mattei, prófessor í hagfræði
    The Capital order: How Economists Invented Austerity and Paved the Way to Fascism
  • Kl. 14:50 – 15:00  Umræður og fyrirspurnir
  • Kl. 15:00 – 15:20  Ásgeir Brynjar Torfason, ritstjóri Vísbendingar,
    Árangur niðurskurðarstefnunnar á Íslandi
  • Kl. 15:20 – 15:50  Pallborð:
    • Ásgeir Brynjar Torfason, ritstjóri Vísbendingar
    • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB
    • Stefán Ólafsson, prófessor emeritus og sérfræðingur hjá Eflingu
    • Steinunn Bragadóttir, hagfræðingur hjá ASÍ
    • Sveinn Máni Jóhannesson, sagnfræðingur


Erindi Clöru Mattei fer fram á ensku og verður skriftúlkað á íslensku. Önnur erindi og pallborðsumræður fara fram á íslensku. Málþingið er haldið í staðfundi eingöngu en upptaka af erindi Clöru verður birt á vef VR. 

Skráning á málþingið fer fram hér fyrir neðan.