1. gr. Virðing
Við sinnum störfum okkar með hagsmuni félagsmanna VR að leiðarljósi og stöndum vörð um heiður félagsins.
2. gr. Fordæmi
Við heitum því að stuðla að framgangi þessara reglna og styðja við þær með því að ganga á undan með góðu fordæmi
3. gr. Heiðarleiki
Við gegnum störfum okkar af trúmennsku og heiðarleika. Við greinum frá öllum persónulegum hagsmunum sem geta haft óeðlileg áhrif á störf okkar í þágu félagsins.
4. gr. Ábyrgð
Við vinnum störf okkar af samviskusemi og erum ávallt reiðubúin að axla ábyrgð á verkum okkar. Ef við sætum opinberri rannsókn sem skaðað geta hagsmuni félagsins munum við víkja þar til málið er til lykta leitt.
5. gr. Gagnsæi
Við höldum í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum okkar. Við eigum ætíð að geta rökstutt ákvarðanir okkar og látið lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráða för.
6. gr. Hlutlægni
Við gætum þess að sýna hlutlægni og tökum ákvarðanir á grundvelli verðleika, þ.m.t. þegar við komum opinberlega fram, gerum samninga eða tökum afstöðu til einstakra mála. Við látum skyldleika, vensl, vinskap eða eigin hagsmuni aldrei ráða ákvörðun okkar í störfum fyrir VR.
7. gr. Réttlæti
Við höfum jafnrétti að leiðarljósi og vinnum gegn fordómum og mismunun, t.d. vegna kyns, þjóðernis, trúarbragða, aldurs, kynferðis, skoðana, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.
Samþykkt í stjórn 14. apríl 2010.