Framboðsfrestur 2025

Um hvað verður kosið?

20. grein laga VR fjallar um kosningu formanns, stjórnar, varastjórnar og trúnaðarráðs. Í allsherjarkosningu árið 2025 verður kosið um formann og sjö sæti í stjórn til fjögurra ára og þrjú sæti í varastjórn til tveggja ára í einstaklingskosningu.

Í lögunum segir að stjórn og trúnaðarráð skuli stilla upp 41 manns lista til trúnaðarráðs til fjögurra ára og hefur uppstillingarnefnd stjórnar og trúnaðarráðs auglýst eftir einstaklingsframboðum á listann. Berist önnur listaframboð til trúnaðarráðs verður kosið milli lista.

Hvernig á að bjóða sig fram?

Skv. 5. gr. laga VR nýtur allt fullgilt félagsfólk kjörgengis til trúnaðarstarfa innan félagsins, með þeim undantekningum sem getið er um í 3. gr. laganna en samkvæmt þeirri grein njóta unglingar 15 ára og yngri, sjálfstætt starfandi á vinnumarkaði og þeir sem hættir eru störfum vegna aldurs eða örorku ekki kjörgengis.

Þá er vakin athygli á að skv. 11. gr. laga VR skulu stjórnarmenn vera fjár síns ráðandi, uppfylla almenn hæfisskilyrði og mega ekki á sl. 5 árum hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað. Stjórnarmenn mega ekki eiga meira en 5% hlut í hlutafélagi sem er í atvinnurekstri á starfssviði félagsins. Frambjóðendur til stjórnar þurfa á grundvelli þessa ákvæðis að láta fylgja framboðum sínum útfyllt eyðublað með upplýsingum um kjörgengi sem og tengda aðila, sjá neðar.

Skrifleg meðmæli 50 VR félaga þarf vegna einstaklingsframboðs til formanns og 15 vegna einstaklingsframboðs til stjórnar. Til að listi til trúnaðarráðs sem borinn er fram gegn lista uppstillingarnefndar sé löglega fram borinn þarf skrifleg meðmæli 300 VR félaga sem og skriflegt samþykki frambjóðenda á listanum.

Fyrirmyndir að meðmælendablöðum má nálgast hér að neðan sem og eyðublað um kjörgengi og tengda aðila. Hægt er að fylla eyðublöðin út á vefnum og prenta út en skila þarf þeim undirrituðum til kjörstjórnar.

Vakin er athygli á því að framboðum þurfa að fylgja upplýsingar um nafn og kennitölu frambjóðenda. Enn fremur óskar kjörstjórn eftir því að framboðum fylgi upplýsingar um símanúmer og netfang frambjóðenda til stjórnar og forsvarsmanna lista.

Framboðsfrestur er til kl. 12:00 á hádegi, mánudaginn 3. febrúar 2025.

Framboðum ásamt fullnægjandi fjölda meðmælenda og öðrum gögnum skal skila á skrifstofu VR, Húsi verslunarinnar, Kringlunni 7, 103 Reykjavík, merkt Kjörstjórn VR.

23. janúar 2025
Kjörstjórn VR