Fæðingardagur og -ár
8. október 1969
Félagssvæði
Reykjavík og nágrenni
Vinnustaður, starf og menntun
Ég starfa sem vörustjóri auglýsinga (Product Manager Advertising) hjá Icelandair.
Ég útskrifaðist með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999, lauk diplómanámi í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands árið 2009 og vorið 2016 útskrifaðist ég frá Promennt úr sölu- og markaðsfræðum.
Netfang: svansi1969@gmail.com
Facebook: Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir (Svansí)
Instagram: Svanhth

Félagsstörf og starfsreynsla
Ég hef unnið hjá Icelandair í rúm þrjú ár en starfaði áður í fjölmiðlageiranum, meðal annars við dagskrárgerð í útvarpi, auglýsingasölu og sem deildarstjóri auglýsingadeildar.
Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á félagsmálum og tekið virkan þátt í nefndarstarfi. Ég var forseti starfsmannafélags 365 miðla í rúman áratug og gegndi jafnframt starfi trúnaðarmanns á sama vinnustað til margra ára.
Frá árinu 2014 hef ég setið í stjórn VR, að einu undanskildu ári, og tekið þátt í fjölmörgum nefndum fyrir félagið. Á síðasta kjörtímabili hef ég setið í jafnréttisnefnd og launanefnd auk þess að vera formaður framkvæmdastjórnar Sjúkrasjóðs VR. Ég hef einnig gegnt embætti ritara stjórnar og verið varaformaður VR.
Auk þess sat ég í stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna á árunum 2017–2023 fyrir hönd VR.
Helstu áherslur
VR er stærsta stéttarfélag landsins og vinnur að bættum lífskjörum félagsfólks. Til að ná því markmiði þarf meðal annars að auka kaupmátt, lengja orlof og stytta vinnuvikuna í takt við opinbera markaðinn. Jafnframt er brýnt að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði og tryggja sveigjanleg starfslok.
Símenntun skiptir miklu máli og mikilvægt er að félagsfólk geti aðlagast tækniframförum.
Á síðustu árum hefur orðið bakslag í jafnréttismálum og réttindum hinsegin fólks, bæði hér á landi og á alþjóðavísu. VR ber að halda áfram að vinna gegn launamun kynjanna og fordómum tengdum kyni, kynhneigð, þjóðerni, aldri eða trú. Berjast þarf fyrir réttindum hinsegin fólks með skýrri stefnu, fræðslu og stuðningi á vinnumarkaði til að tryggja öruggt og fordómalaust starfsumhverfi.
Geðraskanir eru stór orsök fjarveru á vinnumarkaði og því þurfum við að stuðla að góðri geðheilsu og vinna gegn fordómum.
Mikilvægt er að efla fræðslu og þátttöku félagsfólks, hlusta á rödd þeirra og virða skoðanir þess og óskir.
VR getur með slagkrafti sínum haft mikil áhrif á lífskjör framtíðar. Þitt atkvæði skiptir máli.