Mateusz Gabríel Kowalczyk Róbertsson

Fæðingardagur og -ár
30. desember 1993

Félagssvæði
Reykjavík og nágrenni

Vinnustaður, starf og menntun
Ofar ehf., þjónustufulltrúi verkstæðis og lagermóttöku, stúdentspróf í hótel- og ferðaþjónustu.

Netfang: 19plmateusz93@gmail.com


Félagsstörf og starfsreynsla

Ég er fæddur í Łomża, Póllandi, en ég fluttist til Íslands árið 2013 og varð íslenskur ríkisborgari árið 2022. Ég hef fjölþætta starfsreynslu, meðal annars í þjónustu við viðskiptavini, sérhæfðum verkefnum og daglegum rekstri, auk víðtækrar reynslu af málefnum vinnumarkaðarins og réttindabaráttu launafólks.

Ég gegni einnig stöðu trúnaðarmanns hjá VR hjá Ofar ehf. (áður Origo Lausnir) og sit í trúnaðarráði VR. Þar að auki sit ég í stjórn nýstofnaðs Ungliðaráðs VR sem hefur það hlutverk að huga að hagsmunum yngra fólks innan félagsins. Þá hef ég áður gegnt hlutverki trúnaðarmanns hjá Linde Gas og Olís og sat í trúnaðarráði Eflingar, auk þess sem ég var í stjórn Orlofssjóðs félagsins.


Helstu áherslur

Umfram allt legg ég áherslu á mikilvægi þess að tryggja fyrirmyndarstarfsaðstæður fyrir alla. Það er von mín og trú að fyrri reynsla og einlægur áhugi minn á réttindum launafólks geri mig að öflugum frambjóðanda til stjórnar VR, þar sem ég mun leggja mig fram um að vinna í þágu félagsmanna með skilvirkum og samstilltum hætti.


Að styrkja raddir allra á síbreytilegum vinnumarkaði

Íslenskur vinnumarkaður er í mikilli þróun. Með tækniframförum og efnahagslegum sviptingum eru starfshættir sífellt að breytast og áskoranir starfsfólks að taka á sig nýjar myndir. Ég býð mig fram til stjórnar VR til að taka þátt í samtalinu um hvernig við tökumst á við þessar breytingar og hvernig við tryggjum að þær þjóni hagsmunum alls launafólks.

Ég flutti til Íslands árið 2013 frá Póllandi og hef sjálfur gengið í gegnum það ferli að fóta mig á nýjum vinnumarkaði – að kynna mér réttindi, skilja ráðningarsamninga og aðlagast nýju starfsumhverfi. Þá varð ég íslenskur ríkisborgari fyrir nokkrum árum en ég hef lengi lagt mig fram um að styðja félaga mína á vinnumarkaði, sérstaklega þá sem hafa jafnvel ekki alltaf átt sterka rödd í kjarabaráttunni. Ég hef sjálfur fjölbreytta reynslu af þjónustu við viðskiptavini, sérhæfðum störfum og daglegum rekstri en ég gegni núna stöðu trúnaðarmanns hjá VR fyrir Ofar ehf. (fyrrum Origo Lausnir), auk þess að sitja í trúnaðarráði VR. Ég er einnig í stjórn nýstofnaðs Ungliðaráðs VR, sem hefur það hlutverk að huga að hagsmunum yngra fólks innan félagsins.

Umræða um framtíð vinnumarkaðarins snýst oft um sjálfvirknivæðingu og tæknibreytingar en félagslegar og kerfislegar breytingar eru ekki síður mikilvægar. Erlent launafólk er stór hluti af íslenskum vinnumarkaði en oft heyrist rödd þeirra ekki nógu vel þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku á vinnustöðum eða í kjarabaráttu. En með því að ýta undir virka þátttöku allra þeirra sem eru á vinnumarkaði, bæði innlendra og erlendra, sköpum við réttlátara, jafnara og gagnsærra vinnuumhverfi.


 


Aukið lýðræði á vinnustöðum, jöfn tækifæri fyrir starfsfólk og virðing fyrir kjarasamningum skiptir okkur öll máli. Í samkomulagi ASÍ og SA um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði er lögð áhersla á að erlendir starfsmenn fái greidd laun og njóti starfskjara í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hér á landi. Þegar vinnulöggjöf og kjarasamningar eru virtir af öllum aðilum vinnumarkaðarins styrkir það stöðu allra launþega og kemur í veg fyrir mismunun og ósanngjarna meðferð fólks í viðkvæmri stöðu.

Stjórn VR vinnur saman að því að bæta starfsumhverfi félagsfólks, þar sem ólíkar raddir og sjónarmið skipta máli. Ég tel að það sé mikilvægt að ræða stöðu erlends launafólks á markvissan hátt og leita leiða til að bæta upplýsingagjöf og auka þátttöku innflytjenda í stéttarfélagsstarfi, til að tryggja að allir þekki réttindi sín. Því að fjölbreyttur vinnumarkaður er styrkleiki fyrir samfélagið og því fleiri sem fá að taka þátt í mótun hans, því betri verður hann fyrir okkur öll.

Það væri mér mikill heiður að fá tækifæri til að vinna að þessum málum í stjórn VR, í samstarfi við aðra stjórnarliða og félagsmenn sem vilja byggja upp sanngjarnan og öflugan vinnumarkað til framtíðar.

Mateusz Gabríel Kowalczyk Róbertsson,
frambjóðandi til stjórnar VR