Þorsteinn Skúli Sveinsson

Fæðingardagur og -ár
15. janúar 1987

Félagssvæði:
Reykjavík og nágrenni

Vinnustaður, starf og menntun
Ég útskrifaðist árið 2014 með meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík en árið 2019 sótti ég mér viðbótarnám í mannauðsstjórnun frá sama skóla.
Í dag starfa ég á mannauðs- og stefnusviði BYKO.

Netfang: frambod@thorsteinnskuli.is 
Vefsíða: thorsteinnskuli.is
Facebook: Þorsteinn Skúli - Framboð til formanns VR
Instagram: thorsteinnskuli_vr
LinkedIn: Þorsteinn Skúli Sveinsson
TikTok: @thorsteinnskuli


Félagsstörf og starfsreynsla

Ég starfaði hjá VR frá 2007 til 2021 og lengst af sem sérfræðingur á kjaramálasviði. Eftir rúmlega fjórtán skemmtileg ár hjá VR, þyrsti mig í frekari reynslu og áskoranir. Þannig varð úr að ég réði mig til starfa sem lögfræðingur hjá Sameyki stéttarfélagi. Þaðan lá leið mín til Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Í dag starfa ég á mannauðs- og stefnusviði BYKO.

Ég tók þátt í verkefninu „Ungir leiðtogar“ á vegum ASÍ – Ung árið 2019. Jafnframt hef ég komið að hinum ýmsum félagsstörfum á þeim vinnustöðum sem ég hef starfað hjá.


Helstu áherslur

Sem formaður VR mun ég leggja áherslu á jöfnuð og bætt kjör fyrir öll.

  • Að setja á stofn leikskóla fyrir börn félagsfólks VR á aldrinum 12-24 mánaða.
  • Að jafna rétt félagsfólks með því að varasjóður verði lagður niður í þeirri mynd sem hann er í dag og teknir upp fastir styrkir.
  • Að þungaðar félagskonur fái auka 4 vikur við hefðbundinn veikindarétt á launum.
  • Að félagsfólk geti ráðstafað launuðu leyfi vegna veikinda barna hvort heldur sé vegna veikinda barna/maka/foreldra.
  • Að unnið sé áfram í jöfnun réttinda milli hins almenna og opinbera vinnumarkaðs, til að mynda með 36 stunda vinnuviku og 30 daga orlofi fyrir allt félagsfólk.
  • Að eiga stöðugt samtal við stjórnvöld og samningsaðila vegna bættra kjara félagsfólks.

Ég mun fylgja eftir mikilvægum málum sem fyrrum formenn og öflugt starfsfólk félagsins hefur unnið að á síðustu árum.


Á kjaramáli - gefum félagsfólki VR rödd

Leikskóli fyrir börn félagsfólks VR

Leikskólamál eru stór áskorun fyrir foreldra. Skortur á plássum og óvissa um dagvistun eftir fæðingarorlof skapar mikið álag. Þessi staða hefur leitt til þess að margir neyðast til að lengja fæðingarorlof eða taka sér hlé frá vinnu með tilheyrandi tekjuskerðingu. Ég vil koma á fót ungbarnaleikskóla fyrir börn félagsfólks VR (12-24 mánaða).

Til að tryggja faglega og raunhæfa framkvæmd mun ég beita mér fyrir því að stofna verkefnahóp með sérfræðingum, sem munu vinna að því að útfæra allar hliðar verkefnisins. Ég er sannfærður um að þessi lausn myndi hafa jákvæð áhrif á félagsfólk VR – því hugsaðu þér, hvernig væri að geta verið í fæðingarorlofi án þess að óvissan um framhaldið væri stöðugt á bak við eyrað?

Margir spyrja sig hvernig slíkur leikskóli yrði fjármagnaður. Hér er einföld lausn:

  • Stofnkostnaður: Mun koma frá VR, á sama hátt og félagið hefur lagt til fjármagn í húsnæðisuppbyggingu eins og til Blævar.
  • Húsnæði: Með því að gera samning við leigufélag um leigu á húsnæði undir starfsemina sparast kostnaður við byggingu.
  • Rekstur: Greiðslur frá foreldrum (leikskólagjöld) ásamt niðurgreiðslum frá sveitarfélögum munu standa undir rekstri leikskólans.

Styrkir í stað varasjóðs

Í dag eru greiðslur úr varasjóðnum ójafnar og ráðast af tekjum félagsfólks VR. En hvað er sanngjarnt við það að stéttarfélag, sem á að berjast fyrir jafnræði og bættum kjörum félagsfólks, mismuni félagsfólki eftir tekjum þegar kemur að úthlutun styrkja?

Ég vil leggja niður varasjóðinn og innleiða sanngjarnara styrkjakerfi. Greiðslur verði veittar í ákveðnum flokkum sem félagsfólk getur nýtt að eigin vali. Flokkarnir munu innihalda:

  • Fæðingarstyrk (nýtt)
  • Líkamsrækt
  • Gleraugnakaup
  • Heyrnartæki
  • Sálfræðiþjónustu
  • Tannlæknakostnað
  • Sjúkraþjálfun

Þetta tryggir jafnræði, meira gagnsæi og betri nýtingu fjármuna félagsins.

Aukinn veikindaréttur fyrir félagsfólk

Meðganga er ekki alltaf áhyggjulaus og margar konur þurfa að minnka við sig vinnu eða hætta nokkrum vikum fyrir fæðingu. Engin kona ætti að þurfa að ganga á hefðbundinn veikindarétt vegna meðgöngu.

Ég vil tryggja að félagskonur VR fái auka 4 vikur af launuðum veikindarétti, sem veitir öryggi og sveigjanleika á meðgöngu. Þetta er nauðsynlegt skref í átt að jafnrétti á vinnumarkaði.

Einnig vil ég útvíkka launað leyfi vegna veikinda barna þannig að það nái einnig til maka og foreldra. Félagsfólk VR á að hafa sveigjanleika til að sinna fjölskyldu þegar þess gerist þörf, án þess að það bitni á tekjum þeirra.


 

Jöfnun réttinda á vinnumarkaði

Jöfnun réttinda á milli almenns og opinbers vinnumarkaðar eru lykilatriði í baráttunni fyrir réttlæti. Ég vil berjast fyrir:

  • 30 daga orlofi fyrir allt félagsfólk
  • 36 stunda vinnuviku

Með þessu tryggjum við:

  • Betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs
  • Jafnræði á vinnumarkaði
  • Aukna starfsánægju

Við verðum að halda áfram að berjast fyrir sömu réttindum fyrir allt félagsfólk VR.

Samtalið – lykillinn að árangri

Reglubundin og uppbyggileg samskipti við samningsaðila, stjórnvöld og félagsfólk eru lykillinn að því að tryggja betri kjör og hagsmuni félagsfólks VR. Kjarasamningar eru ekki aðeins tæki til að bæta kjör, heldur líka vettvangur til að ræða og leysa úr þeim málefnum sem brenna á félagsfólki hverju sinni. Ég vil:

  • Stofna öflugan samskiptavettvang milli samningsaðila og stjórnvalda
  • Hefja undirbúning kjarasamninga mun fyrr en áður
  • Tryggja sýnilegan og aðgengilegan formann sem hlustar á félagsfólk

Góð samskipti skila betri samningum, bættum kjörum og sterkara VR.

Fyrir sterkara VR

VR þarf forystu sem talar skýrt, stendur fast á sínu og vinnur af krafti fyrir allt félagsfólk.

Ég mun fylgja eftir mikilvægum málum sem fyrrum formenn og öflugt starfsfólk félagsins hefur unnið að á síðustu árum. Má þar m.a. nefna uppbyggingu húsnæðis fyrir félagsfólk VR (Blær), kjör hinna lægst launuðu, starfsmenntamál og mikilvægi þess að jafnrétti sé gætt í hvívetna hjá hinu almenna félagsfólki.

Ég tel það grundvallaratriði að formaður VR sé óháður pólitík og einbeiti sér alfarið að málefnum félagsfólks. Þannig tryggjum við opið og gagnsætt samtal við stjórnvöld, óháð því hvaða flokkar eru við völd og megum við aldrei láta pólitískar skoðanir skyggja á hagsmuni félagsfólks.

Kæra félagsfólk, framtíð VR er í okkar höndum. Ég sækist eftir ykkar trausti og stuðningi til að taka við embætti formanns VR. Það er mér hjartans mál að skapa sanngjarna og sterka framtíð fyrir félagsfólk og mun ég leggja mig allan fram í þetta mikilvæga hlutverk.

Sameinum krafta okkar – fyrir sterkara VR og bjartari framtíð.