Halla Gunnarsdóttir

Fæðingardagur og -ár
8. janúar 1981

Félagssvæði:
Reykjavík og nágrenni

Vinnustaður, starf og menntun
Formaður VR, afgreiðslukona í Kokku.
MA í alþjóðasamskiptum og B.Ed. í kennslu.

Netfang: halla@halla.is
Vefsíða: halla.is
Facebook: Halla Gunnarsdóttir
Instagram: hallagunnars
Tiktok: @hallagunnars


Félagsstörf og starfsreynsla

Ég hef átt sæti í stjórn VR frá árinu 2023 og starfaði áður sem framkvæmdastjóri ASÍ. Ég bý yfir fjölbreyttri starfsreynslu af sérfræðings-, skrifstofu- og afgreiðslustörfum og hef starfað á Íslandi, í Bandaríkjunum og Bretlandi. Ég var blaðamaður í sex ár, lengst af á Morgunblaðinu, og ég hef unnið fyrir tvær ríkisstjórnir, sem hefur veitt mér dýrmæta innsýn í leiðir til að hafa áhrif á opinbera ákvarðanatöku í þágu launafólks.

Ég hef alla tíð verið virk í félagsstörfum, á sæti í stjórn bresku hugveitunnar New Economics Foundation og um tíma var ég varaformaður Neytendasamtakanna.

Ef ég fæ senda vísu svara ég í bundnu máli og þá sjaldan það er kyrrð á heimilinu á ég það til að yrkja ljóð. Eftir mig liggja þrjár útgefnar ljóðabækur, ein fræðibók og ævisaga Guðrúnar Ögmundsdóttur.


Helstu áherslur 

Mikilvægasta hlutverk formanns VR er að bæta kjör VR-félaga í gegnum kjarasamninga. Hvort sem félagar starfa eftir töxtum eða á markaðslaunum þá mynda kjarasamningar grunninn að bæði réttindum og kjörum. Verkefnið núna er í fyrsta lagi að fylgja eftir núgildandi kjarasamningum og tryggja uppbyggingu húsnæðis fyrir fólk og sambærileg vaxtakjör hér á landi og á Norðurlöndunum.

Í öðru lagi þarf þegar í stað að hefja undirbúning næstu kjarasamninga og tryggja að VR mæti öflugt og samhent til leiks og reiðubúið til að berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum alls félagsfólks. VR er stórt, öflugt og framsækið félag og það er mikilvægt að halda áfram að efla þjónustu við félagsfólk. Ég hef lagt áherslu á fjölskyldumál og að félagið taki upp fæðingarstyrk, samhliða því að eiga opna og lýðræðislega umræðu um styrkjakerfi félagsins.

VR-ingar eru verðmætir og við eigum félagið okkar saman.


VR-ingar eru verðmætir

Eins og fjölmargir VR-félagar fékk ég bréf frá bankanum mínum nú í upphafi árs þar sem mér var tilkynnt að tímabili fastra vaxta væri lokið. Ég hefði val um að endurfjármagna lánin mín eða taka á mig tæpar 200 þúsund krónur í aukna greiðslubyrði á mánuði. Fjórðungur húsnæðislántakenda er í nákvæmlega sömu stöðu þennan veturinn, þótt greiðslubyrðin geti verið mismunandi eftir aðstæðum. Fjöldi lántakenda hefur farið yfir í verðtryggð lán og Seðlabankinn og bankarnir þreytast ekki á að halda því fram að staða heimilanna sé í góðu lagi, því eignir þeirra hafi aukist. En hækkun fasteignaverðs breytir engu fyrir mánaðamótin hjá venjulegu fólki, nema þá að því leytinu til að fasteignagjöldin hækka. Við stöndum því frammi fyrir veruleika þar sem millitekjufólk í ágætum störfum getur lent í vandræðum um mánaðamót ef þvottavélin bilar, því allar krónurnar eru löngu farnar í hina botnlausu hít vaxta og verðbóta.

Reikningurinn sendur til launafólks

Einhvern veginn hefur það fyrirkomulag orðið ofan á að þegar vel árar eigi fjármálastofnanir og peningafólk að græða og þegar illa árar eigi þau að græða áfram. Reikningurinn er hins vegar sendur til launafólks sem skal gjöra og svo vel að greiða hærri vexti, hærri leigu, hærri opinber gjöld og meira fyrir þjónustu og nauðsynjar. Á meðan þessi pólitíska skekkja fær að lifa óáreitt er hætt við að kauphækkanir kjarasamninga dugi launafólki skammt. Núgildandi kjarasamningar fólu til að mynda í sér talsverða áhættu fyrir launafólk þegar samið var um lágar launahækkanir á tímum mikillar verðbólgu. Væntingar stóðu til að stýrivextir yrðu lækkaðir nánast þegar í stað en biðin var löng og enn eru stýrivextir á Íslandi tvö- til þrefalt hærri en vextir á hinum Norðurlöndunum. Ungt fólk á í miklum vandræðum með að koma sér upp þaki yfir höfuðið og leigjendur sem vonast til að komast af leigumarkaði eru að hlaupa maraþon þar sem rásmarkið færist sífellt lengra í burtu.

Undirbúningur kjaraviðræðna hefst þegar í stað

Mikilvægasta verkefni forystu VR er að vinna að kjarabótum félagsfólks. VR-ingar eru verðmætir og það á að endurspeglast í kjarasamningum. En til að slíkar kjarabætur skili sér þarf VR að beita afli sínu gegn pólitískum ákvörðunum sem eru teknar gagngert til að færa byrðar yfir á herðar launafólks. Á þetta hef ég lagt mikla áherslu frá því að ég tók sæti í stjórn VR. Stundum þarf nefnilega ekki nema eitt lítið pennastrik til að setja afkomu fólks í uppnám, til dæmis með ofsahækkunum á leikskólagjöldum eða vanhugsaðri skattlagningu á ökutæki.


 


Hljóti ég kjör til að sinna áfram formennsku í VR mun undirbúningur næstu kjaraviðræðna hefjast strax að loknum aðalfundi félagsins í mars. Markmiðið er að við í VR mætum samhent og skipulögð til leiks með það að markmiði að gera góða kjarasamninga sem þjóna þorra okkar félagsfólks. Slík vinna krefst góðs undirbúnings, þekkingar og útsjónarsemi. Samhliða er hlutverk formanns að fylgja eftir núgildandi kjarasamningum og tryggja að forsendur þeirra haldi. Þar skiptir miklu að stjórnvöld standi við gefin loforð, ekki síst um húsnæðisuppbyggingu og að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla sé brúað í eitt skipti fyrir öll.

Sækjum fram fyrir VR

Við lifum á sérstökum tímum. Í fjölmörgum löndum hefur skipulögð barátta launafólks verið brotin á bak aftur og hér á landi má sjá tilraunir til hins sama. Sem dæmi má nefna stofnun gervistéttarfélaga, beitingu verkbanns og órökstuddar hugmyndir um að auka valdheimildir ríkissáttasemjara. Sporin hræða og í löndum þar sem verkalýðshreyfingin hefur verið brotin á bak aftur býr vinnandi fólk við mun lakari kjör, afkomuóöryggi og jafnvel fátækt þrátt fyrir fulla vinnu.

Það krefst vinnusemi og pólitískrar reynslu að berjast gegn tilraunum til að veikja stéttarfélög og um leið að sækja fram fyrir VR inn í nýja tíma. Fjöldi starfa á eftir að taka miklum breytingum með sjálfvirknivæðingu og nýrri tækni. Markmiðið á að vera að tryggja að breytt tækni leiði til betri og skemmtilegri starfa og þægilegri vinnutíma á kjörum sem bjóða upp á öryggi og lífsgæði. Þetta er langtímaverkefni sem þarfnast stöðugrar athygli.

VR er stærsta stéttarfélag landsins og innan okkar raða er fólk úr mismunandi tekjuhópum, af 128 þjóðernum og ólíkum kynjum. Við vinnum verðmæt störf og eigum ríka sameiginlega hagsmuni af kröftugri kjarabaráttu og framsækni fyrir hönd vinnandi fólks. Forysta félagsins þarf að endurspegla og vinna í þágu fjölbreyttra hópa félagsins og hlutverk formanns er að leiða saman ólík sjónarmið og berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum félagsfólks.

Ég óska eftir stuðningi VR félaga til að halda áfram að leiða félagið, enda er ég rétt að byrja!