Flosi Eiríksson

Fæðingardagur og -ár
20. desember 1969

Félagssvæði:
Reykjavík og nágrenni

Vinnustaður, starf og menntun
Aton, ráðgjafi – Viðskiptafræðingur.
Ég lauk stúdentsprófi frá MK 1989, sveinsbréfi í húsasmíði 1993 og BS í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík 2006.

Netfang: feiriksson@gmail.com
Vefsíða: flosieiriks.is
Facebook: Flosi Eiríksson
Twitter: @Feiriksson


Félagsstörf og starfsreynsla

Ég starfaði sem húsasmiður hjá ýmsum fyrirtækjum og sjálfstætt um nokkura ára skeið, vann hjá KPMG 2006 til 2016, Íslandsstofu 2016 til 2018, sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands 2018 til 2022. En síðan þá hef ég starfað sem ráðgjafi hjá Aton.

Ég hef verið virkur í félagsstarfi. Meðal annars sem bæjarfulltrúi í Kópavogi 1998 til 2010, í bæjarráði 1998 til 2006 og ýmsum öðrum nefndum á vegum Kópavogsbæjar.

  • Varaformaður stjórnar Almenningsvagna bs. 1998 til 2002 og í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogs 2006 til 2009.
  • Var formaður skólanefndar MK frá 2010 til 2021.
  • Í stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks frá 2017 og hef verið formaður hennar síðan 2021.

Helstu áherslur

Það er gott að fá þetta tækifæri til að tala svona beint til VR félaga um hvernig mér finnst að félagið okkar eigi að starfa og á hvað við eigum að leggja áherslu á næstunni.

Við þurfum öfluga og samhenta forystu sem sameinar félagið að baki sér og laðar fólk til starfa. Það sést af því sem ég hef áður gert að mér er alvara í því að ná samstöðu og mér hefur gengið vel að leiða með þeim hætti, sem formaður í samhentum hópi.

VR er geysilega sterkt félag sem sameinar fólk í fjölbreyttum störfum og atvinnugreinum. Með afli sínu á félagið að vera leiðandi í að tryggja kjarabætur og réttindi með hagsmuni allra félagsmanna að leiðarljósi. VR á að hafa sterka rödd í samstarfi innan verkalýðshreyfingarinnar og veita stjórnvöldum þétt aðhald í efnahags- og velferðarmálum. Það þarf að tryggja fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir öll og gæta þess að tæknibreytingar af margvíslegu tagi verði til að bæta lífsgæði en ógni ekki afkomu og atvinnutækifærum fólks.

Í félaginu okkar á alltaf að vera virkt samráð við félagsmenn og öflugt grasrótarstarf. Þannig tryggjum við að sjónarmið félagsmanna liggi til grundvallar í öllu starfi og áherslum félagsins og að félagið vinni að okkar sameiginlegu hagsmunum.


Öflugt félag fyrir okkur öll

VR í krafti styrks og stöðu á að vera leiðandi í kjarasamningagerð á almennum markaði og standa fremst í því að tryggja fólki betri kjör og réttindi. Það gerum við með því að horfa alltaf á stóru myndina, muna afhverju við erum í VR og að við saman getum tryggt að félagið okkar sé í fararbroddi á svo til öllum sviðum.
Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé með lausnir á öllum þeim viðfangsefnum sem mæta VR eða patent lausnir um útfærslur á einstökum reglum eða sjóðum í starfsemi félagsins. En ég er búinn að vera félagi hér lengi, hef starfað á almennum vinnumarkaði við nokkuð fjölbreytt störf auk þess að hafa starfað hjá verkalýðshreyfingunni um nokkura ára skeið. Þessi bakgrunnur og reynsla mun nýtast afar vel í störfum fyrir VR – bæði það að vera úti í atvinnulífinu og hafa tekið þátt í alls konar félagstarfi og starfað innan um og með skemmtilegu fólki er góður undirbúningur. Ég þekki vel til mála og er góður í að hlusta á fólk, þó mér finnist líka smá gaman að tala (!) , fá fólk til samstarfs og búa til öfluga samstöðu.

Óhrædd og leiðandi

Stéttarfélög eru bæði merkileg og nokkuð sérstök fyrirbæri svona í grunninn. Þessi nokkuð einfalda hugmynd um að með því að bindast samtökum geti launafólk tryggt sér betri kjör, mikilvæg réttindi og gott samfélag. Það eru engin önnur félagasamtök byggð á þessum grunni um að samstaða og samtrygging hjálpi hverju og einu okkar að geta staðið á eigin fótum. En umhverfið er síbreytilegt, í upphafi voru félögin talsvert einsleitari, sem dæmi má nefna hafnarverkamenn, iðnaðarmenn og svo framvegis. Með fjölbreyttara atvinnulífi breytist ýmislegt en grunnhlutverkið hefur ekki breyst og eins og áður skiptir öllu máli að við tökum sem flest þátt í starfinu og tryggjum að okkar stóra félag tali fyrir allt félagsfólk.

Og við eigum að vera óhrædd og leiðandi í því að tala um þróun á íslenskum vinnumarkaði og samsetningu hans, hvernig við tryggjum kröftugt atvinnulíf með góðum störfum og að félagsmenn séu á dýnamískum markaði þar sem tækifæri gefast til að þróast eftir áhugasviði hvers og eins. Tölum ekki í frösum og festumst ekki í deilumálum gærdagsins heldur horfum fram á veginn með lausnir í huga.

Forganga til fyrirmyndir

Mér finnst forganga VR í húsnæðismálum hvort sem horft er til Bjargs eða Blævar hafa verið frábær og sýnt vel hverju samstaða og einbeittur vilji getur skilað. Ég sat um tíma í varastjórn Bjargs og kynntist aðferðafræðinni sem ég held að byggingarmarkaðurinn almennt geti lært mikið af. Við eigum að byggja áfram á þessari reynslu og leggja okkar af mörkum til þess að koma á heilbrigðum húsnæðismarkaði hér á landi.

 




Félagið gerir samninga um grunnlaunakjör og réttindi vegna veikinda, orlofs, og annarra þátta. En við þurfum líka að vera með það bak við eyrað að stór hluti félagsmanna semur persónulega um launin en réttindi og annað fylgir samningi VR. Þetta tvíþætta hlutverk getur verið vandmeðfarið en er um leið hluti af því sem við erum og þurfum að hafa í huga. Það getur leitt til þess að nauðsynlegt sé að fara í harðar aðgerðir en það á aldrei að tala um verkföll af léttúð eða beita slíku vopni með óábyrgum hætti.

Engum háð nema okkur sjálfum

Það felur líka í sér að í öllu starfi þarf félagið að vera óháð flokkspólitík og hafa hagsmuni okkar félagsfólks til grundvallar í allri framgöngu og málatilbúnaði. Við þurfum með öðrum orðum að hafa styrk og þor til að beita okkur þannig að stjórn efnahagsmála sé skynsamleg og raunverulegum kjarabótum eða kaupmætti sé ekki stefnt í hættu og þá þarf að vera ósmeykur, sem ég tel mig hafa sýnt, við að halda réttmætum sjónarmiðum okkar á lofti, alveg sama hver á í hlut.

Við þurfum að vera sterkari í því að tala við og tala fyrir allt okkar fólk, að vera stöðugt í samtali um grundvallaratriðin; um góða afkomu, öruggt húsnæði, réttindi við veikindi og sjúkdóma, fæðingarstyrki og margvíslega aðra sjóði. Við þurfum að ræða um styttingu vinnuvikunnar og líka um orlof og orlofshús og um öll viðfangsefni dagslegs lífs hjá félagsfólki á hverjum degi út um allt í atvinnulífinu.

Formann sem fylkir fólki saman

Félagið er byggt upp af okkur, almennum félögum, fólki sem lifir sínu lífi og tekst á við þær áskoranir sem hversdagurinn býður upp á. Hinn almenni félagsmaður þarf sinn málsvara; formann með reynslu úr ólíkum áttum, sem er ekki hluti af neinum fylkingum, laðar fólk með sér þegar kemur að því að taka ákvarðanir og vinnur að því að við höfum sameiginlega sýn. Formann sem er hluti af vef þar sem hver þráður skiptir máli og skilur og deilir lífsbaráttu félagsfólks VR. Formann sem fylkir fólki saman, því saman erum við sterkari.

Ég býð mig fram til að vera sá formaður fyrir VR næstu 4 árin. Vonandi eigum við samleið í að gera VR að enn öflugra félagi.