Bjarni Þór Sigurðsson

Fæðingardagur og -ár
4. september 1958

Félagssvæði
Reykjavík og nágrenni

Vinnustaður, starf og menntun
Ég starfa hjá Birtíngi útgáfufélagi sem sölu- og markaðsstjóri og hef jafnframt starfað sem leiðsögumaður á sumrin.
Ég er menntaður í kvikmyndagerð frá CLCF í París og er með BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Netfang: bjarnithor@me.com
Facebook: Bjarni Þór Sigurðsson
Instagram: bjarni_thor


Félagsstörf og starfsreynsla

Ég hef víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hef starfað við fjölbreytt störf, allt frá sjómennsku og verslunarstörfum til fjölmiðla, markaðssetningar og húsnæðismála. Meðal starfa sem ég hef sinnt eru:

  • Fjölmiðlar og markaðsmál: Sölu- og verkefnastjóri hjá Vísi, deildarstjóri vöruþróunar hjá Sýn og Vodafone.
  • Húsnæðismál: Sérfræðingur hjá ASÍ, formaður húsnæðisnefndar VR, stjórnarmaður í Bjargi og Blæ.
  • Félagsstörf: Setið í stjórn VR frá 2012, varaformaður 2013-2017, fulltrúi í miðstjórn ASÍ, stjórnarmaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna.

Ég hef verið félagi í VR í yfir 20 ár og hef gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum. Ég var kjörinn í trúnaðarráð VR árið 2009, trúnaðarmaður hjá 365 miðlum og varamaður í stjórn VR 2010-2012.

Ég hef verið virkur í gerð kjarasamninga og tekið þátt í stefnumótun félagsins.

Auk þess hef ég starfað að málefnum Reykjavíkurborgar, setið í stjórn ÍTR og hverfaráði Vesturbæjar.

Mín reynsla og störf sýna að ég hef bæði djúpa þekkingu á hagsmunamálum VR-félaga og sterka reynslu af því að koma málum í framkvæmd.


Helstu áherslur

Með framboði mínu til formanns VR legg ég áherslu á:

  • Að VR haldi áfram að vera leiðandi afl í baráttu fyrir betri kjörum og réttindum félagsfólks.
  • Skýrari deildaskiptingu VR til að tryggja að fjölbreyttir hópar félagsins njóti sanngjarnra hagsmuna.
  • Öfluga sí- og endurmenntun fyrir félagsfólk í takt við hraðar tæknibreytingar á vinnumarkaði.
  • Húsnæðismál með áherslu á aukið öryggi og fjölbreyttar lausnir fyrir bæði leigjendur og kaupendur.
  • Jöfn tækifæri fyrir eldra starfsfólk og markvissar aðgerðir gegn aldursfordómum.
  • Sveigjanlegra og aðgengilegra orlofskerfi fyrir alla.
  • Innri úttekt á starfsemi VR til að tryggja að félagið þjóni félagsfólki sínu sem best.

Markmið framboðsins

Markmið mitt með framboði er að tryggja hagsmuni allra félaga í VR og styrkja félagið sem öflugan talsmann launafólks. Ég vil efla VR sem kraftmikið afl í hagsmunabaráttu og tryggja að raddir félaga heyrist og skili árangri.

  • Ég vil stuðla að öruggum, vel launuðum störfum þar sem vinnuumhverfi og réttindi félagsfólks eru tryggð.
  • Öryggi verslunarfólks í daglegum störfum verður að vera í forgangi, þar með talið vernd gegn ofbeldi og áreiti.
  • Trúnaðarmenn VR eiga að vera betur studdir og grasrót félagsins virkjuð til að tryggja breiða þátttöku og áhrif félagsfólks á starfsemi VR.
  • VR þarf að hafa sterka rödd í mótun vinnumarkaðs og tryggja að launafólk hafi aukin áhrif á að bæta störf sín og starfsumhverfi.
  • Áherslur VR eiga að snúast um það sem skiptir félaga mestu máli, og ég mun beita mér af krafti fyrir því.

Deildarskipting: VR er stórt og fjölbreytt stéttarfélag. Til að tryggja að allt félagsfólk njóti sanngjarnra kjara og réttinda vil ég hefja vinnu við að deildarskipta VR. Þetta ferli þarf að byggja á víðtæku samtali við félagsmenn og vinna að því með lýðræðislegum hætti. Ég vil hlusta á félagsfólk og þróa útfærslu sem þjónar félaginu sem best og í góðri sátt.

Endurmenntun og símenntun fyrir framtíðarstörf: Sí- og endurmenntun er lykillinn að því að mæta hraðri þróun tæknibreytinga og breyttu starfsumhverfi. Með aukinni sjálfvirknivæðingu og notkun gervigreindar verða nýjar kröfur gerðar til starfsfólks. Til að VR félagar haldi samkeppnisforskoti á vinnumarkaði vil ég:

  • Tryggja fjölbreytt námsúrræði sem gera félagsfólki kleift að þróa sig áfram í sínum störfum.
  • Efla samstarf við atvinnurekendur um sveigjanlegt nám í samræmi við ákvæði kjarasamninga um allt að 16 klst. náms í vinnutíma.
  • Stuðla að markvissri íslenskukennslu fyrir starfsfólk af erlendum uppruna, sem er forsenda þess að þeir geti tekið fullan þátt í samfélaginu.
  • Bjóða námskeið og fræðslu sem undirbýr félagsmenn fyrir störf framtíðarinnar og styður við endurmenntun þeirra sem vilja skipta um starfsvettvang.


Húsnæðismál

Öruggt húsnæði er grunnþörf og mannréttindi. Fjölskyldur eiga að geta treyst á að hafa þak yfir höfuðið, hvort sem þær velja að leigja eða kaupa. Til þess að tryggja stöðugleika og réttlæti á húsnæðismarkaði þarf bæði að fjölga íbúðum og skapa raunveruleg úrræði fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Ég mun beita mér fyrir því að stjórnvöld standi við gefin loforð frá síðustu kjarasamningum og hrindi í framkvæmd nauðsynlegri uppbyggingu án tafar. Jafnframt vil ég stuðla að hagkvæmu séreignakerfi fyrir fyrstu kaupendur, þar sem fólk getur eignast frá 50% af íbúð og tengt það við hlutdeildarlánakerfið. Slík lausn gæti gjörbreytt stöðu ungs fólks og fyrstu kaupenda á húsnæðismarkaði.

Staðreyndir sýna að verkalýðshreyfingin getur haft afgerandi áhrif á húsnæðismarkaðinn. Að frumkvæði VR og annarra félaga hefur Bjarg íbúðafélag þegar byggt yfir 1.100 leiguíbúðir og sett af stað nýjan kafla í sögu óhagnaðardrifinna leigufélaga á Íslandi – í anda norrænna fyrirmynda.

Haustið 2023 var stigið enn eitt skrefið þegar VR og Blær leigufélag hófu framkvæmdir við 36 leiguíbúðir í Úlfarsárdal, sem þegar hafa verið afhentar VR-félögum. Þetta markar upphaf nýrrar stefnu í húsnæðismálum, þar sem félagið sjálft tekur virkan þátt í að skapa betri valkosti fyrir félagsfólk.

Ég hef verið í forystu í húsnæðismálum innan VR sem formaður húsnæðisnefndar félagsins og ASÍ, auk þess að hafa setið í stjórnum Bjargs og Blævar. Reynslan hefur kennt mér að fjölbreytt húsnæðiskerfi – þar sem séreign, leiguíbúðir og félagslegt húsnæði spila saman – er lykillinn að heilbrigðum markaði.

Markmið mín eru skýr:

  • Tryggja raunhæfar leiðir fyrir fyrstu kaupendur.
  • Halda áfram uppbyggingu hagkvæmra leiguíbúða í samstarfi við Bjarg og Blæ.
  • Vinna að því að minnka vaxtakostnað þeirra sem byggja og fjármagna húsnæði.
  • Auka jafnvægi milli leigu- og eignamarkaðar, með sérstakri áherslu á ungt fólk og eldra fólk sem vill minnka við sig.

Með skýrri stefnu og beinum aðgerðum getum við byggt upp betri húsnæðismarkað fyrir alla félagsmenn VR.


 

Aldursfordómar og málefni eldra félagsfólks

Þegar ævilíkur aukast og fólk heldur góðri heilsu lengur, þarf vinnumarkaðurinn að fylgja eftir og tryggja að einstaklingar 50 ára og eldri njóti sömu tækifæra og aðrir. Aldursfordómar eru raunveruleg áskorun sem útilokar dýrmæta reynslu og þekkingu af vinnumarkaði.

Tæknibreytingar og hröð þróun hafa í sumum tilfellum ýtt undir þá hugmynd að eldra fólk eigi erfiðara með að tileinka sér nýja færni. Þessi hugmynd er bæði úrelt og skaðleg. VR þarf að taka af skarið og tryggja að allt félagsfólk, óháð aldri, hafi jöfn tækifæri til sí- og endurmenntunar, starfsþróunar og atvinnuöryggis.

Ég mun beita mér fyrir því að:

  • VR verði leiðandi í baráttunni gegn aldursfordómum á vinnumarkaði.
  • Sí- og endurmenntun fyrir 50+ verði raunhæfur valkostur fyrir VR félaga.
  • Staða eldra félagsfólks í atvinnuleit verði efld með sérhæfðri ráðgjöf og aðgerðum.
  • Eldra félagsfólk fái öflugri stuðning í húsnæðismálum, lífeyrismálum og réttindamálum.
  • Skerðingar á lífeyrisgreiðslum verði skoðaðar með hagsmuni félagsmsfólks að leiðarljósi.

Eldra starfsfólk er verðmætt fyrir vinnumarkaðinn og samfélagið í heild. VR þarf að standa vörð um rétt þeirra og tryggja að það fái sömu tækifæri til starfsþróunar, öruggs húsnæðis og lífeyrisréttinda.

Orlofskerfi VR

Orlofskerfið er mikilvægur hluti af félagslegum réttindum VR-félaga, en það þarf að þróast í takt við breyttar þarfir. Ég vil tryggja að fleiri njóti góðs af orlofskerfi VR með fjölbreyttari valkostum og auknu aðgengi.

Ég mun beita mér fyrir:

  • Fjölgun orlofshúsa í eigu VR á næstu fjórum árum til að mæta aukinni eftirspurn.
  • Fleiri valkostum í orlofsmálum, svo sem niðurgreiðslu á hótelgistingu og öðrum ferðakostnaði, með skýru hámarki til sanngirni fyrir alla félagsmenn.
  • Gjafabréfum og samstarfi við ferðaþjónustu, til að bjóða félagsfólki fjölbreyttari tækifæri til afslátta og niðurgreiddra ferða.

Með þessum aðgerðum mun VR tryggja að orlofskerfið sé sanngjarnt, sveigjanlegt og aðgengilegt öllu félagsfólki, óháð búsetu og fjölskylduaðstæðum. Fleiri eiga að geta notið orlofs á sanngjörnum kjörum.

Nýtum tímann fram að kjarasamningum sem allra best

Undirbúningur fyrir næstu kjarasamninga skiptir sköpum. Til að ná sem bestum samningum fyrir VR-félaga þarf markvissa stefnu og öflugan undirbúning. Ég mun tryggja að raddir félagsmanna heyrist og að kröfugerð VR endurspegli raunverulegar þarfir og vilja þeirra.

Ég mun beita mér fyrir:

  • Virkara samtali við VR félaga til að tryggja að kröfugerðin byggist á þeirra óskum og hagsmunum.
  • Faglegum greiningum á vinnumarkaði og þróun launakjara, svo VR komi undirbúið að samningaborðinu.
  • Öflugri kynningu og umræðu innan félagsins um væntanlegar kjaraviðræður, svo félagsmenn séu upplýstir og tilbúnir að styðja við mikilvægar kröfur.

Öflug forysta fyrir VR

Ég býð mig fram til formanns VR af því að ég vil sjá félagið verða enn sterkara afl í hagsmunabaráttu launafólks. Með reynslu í kjarasamningum, húsnæðismálum og félagastarfi get ég tryggt að VR sé í forystu þegar kemur að réttindum félagsmanna.

  • Húsnæðismál: Ég hef þegar komið að uppbyggingu hagkvæmra leiguíbúða og vil tryggja fleiri raunhæfar lausnir fyrir félagsfólk.
  • Sterk réttindabarátta: Ég hef áratuga reynslu af kjarasamningum og veit hvernig á að ná árangri fyrir félagsfólk.
  • Öflugri stuðningur fyrir trúnaðarmenn: Trúnaðarmenn VR eiga að vera betur studdir og félagsmenn að hafa skýrari rödd innan félagsins.
  • Jöfn tækifæri fyrir alla: Hvort sem það eru fyrstu kaupendur, eldri launfólk eða fólk af erlendum uppruna, á VR að tryggja réttindi allra.
  • Betra orlofskerfi: Ég vil fjölga orlofshúsum og bjóða upp á sveigjanlegri valkosti, svo fleiri félagsmenn geti notið orlofsréttar síns.

Ég hef ekki bara talað um lausnir – ég hef komið þeim í framkvæmd.
Ég mun beita mér fyrir félagsfólk VR af festu og krafti.

Nýtum kosningaréttinn og veljum forystu sem tryggir að VR verði öflugt afl fyrir félagsfólk – bæði í dag og til framtíðar.

Bestu kveðjur
Bjarni Þór Sigurðsson, stjórnarmaður í VR