Harpa Sævarsdóttir

Fæðingardagur og -ár
8. maí 1971

Félagssvæði
Reykjavík og nágrenni

Vinnustaður, starf og menntun
Ég er að vinna hjá Tæki.is og sinni þar bókhaldsstörfum ásamt reikningagerð og leigu á tækjum. Þar á undan vann ég hjá AD Travel, einnig sem bókari, ásamt öðrum tilfallandi verkefnum. Einnig vann ég hjá Íshestum í nokkur ár og þar á undan hjá Flugfélaginu Atlanta í 15 ár.
Ég var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti en einnig var ég í námi hjá Promennt og svo í Endurmenntun Háskóla Íslands.

Netfang
harpasaev@gmail.com 


Reynsla af félagsstörfum

Árin 2014 - 2016 sat ég í stjórn VR, þar á eftir sem varamaður í eitt ár og svo aftur í stjórn frá árinu 2017-2023. Ég er búin að vera varaformaður og ritari stjórnar. Ég tók mér frí í 1 ár frá stjórnarstörfum en er tilbúin að koma aftur. Ég var kosin í Miðstjórn ASÍ í október 2018 og var formaður jafnréttis- og vinnumarkaðsnefndar innan ASÍ. Á þessum árum hef ég öðlast töluverða reynslu og góða innsýn í heildar starfsemi VR og um hvað félagið snýst. Ég hef setið í hinum ýmsu nefndum á vegum VR þann tíma sem ég hef verið hjá félaginu. Þar á meðal orlofsnefnd, en orlofsmál eru eitthvað sem ég hef mikinn áhuga á. Einnig hef ég setið í launanefnd, vinnudeilusjóði, laganefnd, kjaramálanefnd auk uppstillingarnefndar vegna stjórnarsetu í Lífeyrissjóði verzlunarmanna.


Helstu áherslur

Nái ég kjöri til setu í stjórn VR, þá mun ég áfram standa vörð um grunnréttindi félagsmanna s.s. kjarasamninga, orlofsréttindi, efla sjúkra- og starfsmenntasjóð. Einnig vil ég leggja áherslu á orlofssvæði félagsmanna ásamt því að kynna betur fyrir félagsmönnum þau réttindi sem fylgja jafn sterku og öflugu félagi sem VR er. Uppbygging orlofssvæða félagsmanna hefur verið mjög góð en lengi má gott bæta. Annað sem ég hef barist fyrir síðan ég var kosin og tók sæti í orlofsnefnd er leyfi til að hafa gæludýr með sér í sumarbústaðina okkar og hefur verið bætt við fjölda húsa sem leyfa gæludýr.


Grein frá frambjóðanda

Ég heiti Harpa Sævarsdóttir og býð mig fram til stjórnar VR aftur eftir 1 ár s hlé . Ég sat í stjórn VR árin 2014 - 2016 og síðan varamaður í eitt ár ég var aftur kosin í stjórn VR árið 2017-2023. Í október 2018 var ég kosin i Miðstjórn ASÍ og var ég formaður Jafnréttis- og vinnmarkaðsnefndar innan ASÍ. Á þessum árum hef ég lært mjög mikið og náð að öðlast mikinn og góðan skilning á ýmsum málefnum er varða kjarabaráttu og réttindi launafólks.

Ég hef allan tímann setið í orlofsstjórn og hef ég mikinn áhuga á öllu sem snýr að orlofsmálum. Uppbygging hefur verið mikil og orlofshúsin, sem og svæðin sjálf, glæsileg en lengi má gott bæta. Frá því að ég bauð mig fyrst fram þá hefur orlofshúsum sem gera fólki kleift að taka með sér gæludýr fjölgað umtalsvert, þannig að nú er auðveldara fyrir fólk að taka með sér ferfætta fjölskyldumeðlimi í fríið. Þetta var upphaflega gert tímabundið en þar sem reynslan hefur verið góð þá verður þetta fyrirkomulag áfram.

Auk þess að vera í orlofsstjórn hef ég setið í laganefnd, launanefnd, vinnudeilusjóði, kjaramálanefnd og formaður uppstillingarnefndar sem snýr að stjórnasetu í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Einnig var ég trúnaðarmaður á mínum fyrrum vinnustað í tæp 4 ár. Allt þetta hefur gefið mér mikla innsýn í hin ýmsu mál er varða félagið okkar VR, sem er að gera mjög flotta og góða hluti fyrir sína félagsmenn. Mig langar að halda áfram að standa vörð um hag VR félaga er snýr að orlofsmálum og það er gaman að segja frá því að við höfum tekið í gegn orlofshúsin okkar í Miðhúsaskógi og tókst það vægast sagt mjög vel og ég hvet ykkur til að panta ykkur hús og sjá hversu vel tókst til.


 


Ójafnrétti af ýmsu tagi þrífst því miður víða í atvinnulífinu. Enn hallar á konur í baráttunni um sömu laun fyrir sömu vinnu og er það með ólíkindum að enn þurfi að berjast fyrir jafn sjálfsögðum mannréttindum árið 2024. Það hallar líka í sumum tilfellum á ungt fólk sem er að byrja að fóta sig á vinnumarkaði og starfsfólk af erlendum uppruna sem oft þekkja ekki sín réttindi nægilega vel og eru viðkvæm fyrir misnotkun. Þess vegna vill ég leggja sérstaka áherslu á að félagsmönnum verði kynnt réttindi sín sem fylgja því að vera félagi í jafn öflugu félagi og VR er.

Mér finnst mikilvægt að standa vörð um grunnréttindi félagsmanna, s.s. kjarasamninga og orlofsréttindi, en að auki vil ég efla sjúkra- og starfsmenntasjóð. Ég hef mikinn áhuga á að kynna fyrir félagsmönnum þau réttindi sem þeir eiga kost á hjá okkar góða og öfluga félagi eins og t.d. starfsmenntasjóð og varasjóð. Fólk virðist ekki almennt vita hvernig hægt er að nýta þessa sjóði og er það miður þar sem fólk borgar jú í þessa sjóði. Ég hvet alla til að skoða hver staðan er hjá þeim inná mínum síðum á heimasíðu VR. Fyrir þá sem ekki eru vissir um hvernig komast eigi inn á þessa síðu skal ég glöð aðstoða og útskýra hvernig farið er að.

Ég vonast til að sem flestir sjái sér fært að kjósa í þessum kosningum og vona að ég fái stuðning ykkar flestra.