Kosið til formanns og stjórnar VR
Allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsfólks VR vegna kjörs formanns og stjórnar VR kjörtímabilið 2025 - 2029 hefst kl. 10:00 fimmtudaginn 6. mars 2025 og lýkur kl.12:00 á hádegi fimmtudaginn 13. mars 2025. Atkvæðagreiðslan er rafræn.
Hverjir hafa atkvæðisrétt?
Atkvæðisrétt í kosningunum hafa allir fullgildir VR félagar. Á kjörskrá er einnig eldra félagsfólk sem fær greiddan ellilífeyri og hefur verið í félaginu í a.m.k. 5 ár samfellt fyrir töku eftirlauna.
Upplýsingar til atkvæðisbærra VR félaga
Allt atkvæðisbært félagsfólk fær sendar upplýsingar í tölvupósti um hvernig atkvæðagreiðslan fer fram. Upplýsingarnar verða einnig aðgengilegar á vef VR og auglýsingar verða birtar á vefmiðlum og samfélagsmiðlum VR.
Aðgangur að rafrænum atkvæðaseðli er á vefsíðu félagsins. Þau sem ekki hafa aðgang að atkvæðaseðli en telja sig eiga rétt á þátttöku í atkvæðagreiðslunni geta sent erindi til kjörstjórnar VR á netfangið kjorstjorn@vr.is eða í pósti til Kjörstjórnar VR, Húsi verslunarinnar, Kringlunni 7, 103 Reykjavík, fyrir lok kjörfundar. Kærufrestur er til loka kjörfundar.
Hvernig á að kjósa?
Til að kjósa ferðu á forsíðu VR, smellir á Kosningar í VR 2025 og skráir þig inn með rafrænum skilríkjum. Þá opnast atkvæðaseðill í nýjum vafra og upplýsingar um hvernig þú átt að bera þig að við að greiða atkvæði. Ef þú ert ekki með rafræn skilríki getur þú sótt um á audkenni.is eða í viðskiptabankanum þínum.
Rétt er að benda á að úthlutun sæta í stjórn á grundvelli niðurstöðu kosninganna fer fram með svokallaðri fléttuaðferð, þ.e. karlar og konur raðast til skiptis í sætin. Sjá nánar 20. grein laga VR.
Frambjóðendur
Kosið er á milli fjögurra frambjóðenda til formanns og 16 frambjóðenda til sjö sæta í aðalstjórn til fjögurra ára og þriggja sæta í varastjórn til tveggja ára. Alls buðu sig 17 fram til stjórnar, en einn frambjóðandi dró framboð sitt til baka.