Val á stjórnarmönnum VR í Lífeyrissjóð verzlunarmanna
Á fundi fulltrúaráðs VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna í desember árið 2018 voru samþykktar reglur um val félagsins á stjórnarmönnum í Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Nú auglýsir félagið, á grundvelli þessara reglna, eftir áhugasömum í stjórn sjóðsins fyrir kjörtímabilið 2024- 2028. Uppstillinganefnd fulltrúaráðs VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna auglýsir nú eftir tveimur stjórnarmönnum og einum varamanni.
Í gr. 5.1. í samþykktum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna segir að stjórn VR skipi fjóra stjórnarmenn í stjórn lífeyrissjóðsins og einn varamann. Samkvæmt gr. 5.2. er kjörtímabil stjórnar 4 ár og hefst það á ársfundi sjóðsins. Annað hvert ár skal kjósa tvo stjórnarmenn til fjögurra ára. Varamaður er kosinn til tveggja ára í senn. Skrifstofa VR tekur við umsóknum fyrir hönd uppstillinganefndar VR. Skipun stjórnarmanna í Lífeyrissjóð verzlunarmanna þarf að liggja fyrir eigi síðar en 1. mars í aðdraganda nýs kjörtímabils. Kynjaskipting stjórnarmanna skal vera jöfn og því er leitað að einum karli og einni konu í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Valið fer þannig fram að uppstillingarnefnd fer yfir umsóknir og gerir tillögu að stjórnarmönnum til fulltrúaráðs VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna sem kýs tvo stjórnarmenn og einn varamann. Stjórnarmenn eru skipaðir til fjögurra ára í senn og varamaður til tveggja ára.
Gerðar eru kröfur um að umsækjendur séu fjárhagslega sjálfstæðir sbr. 9. gr. reglna nr. 180/2013 um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna lífeyrissjóða en þeir þurfa einnig að búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu skv. 6. gr. sömu reglna. Auk þess þurfa þeir að gangast undir munnlegt hæfismat hjá Fjármálaeftirliti Seðlabankans sbr. 16. gr. reglna nr. 180/2013. Þá er nauðsynlegt að umsækjendur uppfylli skilyrði 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða en þar segir:
Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar lífeyrissjóða skulu vera lögráða, fjárhagslega sjálfstæðir, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Fjármálaeftirlitið setur reglur um fjárhagslegt sjálfstæði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.
Til viðbótar framangreindum skilyrðum skulu stjórnarmenn búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.
Umsækjendur skulu vera launamenn og mega ekki vera sjálfstætt starfandi á vinnumarkaði eins og þeir eru skilgreindir í 3. gr. laga VR. Gerð er krafa um að þeir greiði skyldubundið iðgjald til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og er æskilegt að umsækjendur séu félagsmenn í VR.
Eldri félagsmenn eins og þeir eru skilgreindir í 3. gr. laga VR sem fá greiddan lífeyri frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna geta einnig verið umsækjendur.
Nánari upplýsingar eru veittar á netfanginu umsokn@vr.is
Eyðublað og reglur
Kjör og kjörtímabil
Valið fer þannig fram að upptillinganefnd fer yfir umsóknir og gerir tillögu að stjórnarmönnum til fulltrúráðs VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna sem kýs tvo stjórnarmenn og einn varamann.
Við mat á hæfi umsækjenda skal líta til reynslu og þekkingar, m.a. á lífeyrismálum, kjarasamningum, stjórnun, áætlanagerð, reikningshaldi, lögfræði og fjármálamörkuðum. Uppstillinganefnd skal hafa það að markmiði að stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á hverjum tíma sé þannig samsett að hún búi yfir fjölbreyttri þekkingu og reynslu sem nýtist sjóðnum við stefnumótun og eftirlit í því umhverfi sem hann starfar.
Stjórnarlaun
Stjórnarlaun í Lífeyrissjóði verzlunarmanna eru ákveðin á ársfundi sjóðsins. Í dag eru laun stjórnarmanns 193.678 kr. á mánuði, stjórnarformaður fær tvöföld stjórnarlaun og varaformaður fær ein og hálfföld stjórnarlaun.
Umsóknir
Með því að auglýsa eftir umsóknum, eins og hér er gert, er jafnræðis gætt þannig að allir sem telja sig hafa hæfi til að sitja sem stjórnarmenn eiga kost á að lýsa yfir áhuga sínum með því að skila inn umsókn. Með umsókn þarf að fylgja starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem umsækjandi rökstyður umsóknina. Einnig þarf að fylla út sérstakt eyðublað trúnaðaryfirlýsingar og láta fylgja með umsókn en þar kemur fram að umsækjandi þurfi að uppfylla kröfur um hæfi skv. lögum og reglum Fjármálaeftirlits Seðlabankans.