Kynning frambjóðenda til Öldungaráðs 2025

Kosning þriggja fulltrúa í Öldungaráð VR stendur frá 31. mars - 3. apríl 2025.

Kynningartexta frá frambjóðendum má sjá hér fyrir neðan. Athugið að frambjóðendum er raðað í stafrófsröð.

Kosningabært félagsfólk með skráð netfang hjá VR fær kjörgögn send með tölvupósti. Hafir þú ekki fengið atkvæðaseðil en telur þig eiga rétt á að kjósa, sendu okkur póst á oldungarad@vr.is. Allt félagsfólk VR, 65 ára og eldra, hefur kosningarétt.

Athugið að þessi undirsíða er í vinnslu. 

  • Ég hef gengt ýmsum félagsstörfum undanfarin ár, var t.d. trúnaðarmaður á vinnustað, fulltrúi í trúnaðarráði VR um árabil, varamaður í stjórn Rauða krossins í Hafnarfirði og Garðabæ, auk þess að vera í stjórnmálahreyfingu, bæði í stjórn svæðisfélags og formaður kjördæmisráðs Suðvesturlands þarsíðustu alþingiskosningar.

    Í félagsstússi undanfarinna ára hef ég komið að málefnavinnu sem tengist félagslegum réttindum vinnandi fólks en einnig annarra sem og almennum mannréttindum, sem ekki er vanþörf á að vinna með áfram.

    Eldra fólk er hópur sem samanstendur af allskonar og ekkert eitt sem á við en orðræðan oft eins og um einsleitan hóp fólks að ræða sem sé byrði á hinum vinnandi.

    Við þurfum að vera sýnileg, halda áfram að taka þátt, standa vörð um okkar réttindi, það er allra hagur.

  • Undirrituð sat í stjórn Öldungaráðs 2023-2025 og hef ákveðið að sækjast eftir kjöri aftur. Það var ánægjulegt að verða kosin og kann ég þeim sem kusu mig bestu þakkir. Ég vissi nú ekki mikið út í hvað ég var að fara, en hef haft áhuga á félagsmálum svo ákvað að taka slaginn, og þetta starf var ánægjulegt, og það gaman að ég vil gjarna halda áfram. Málefnin voru mörg, og ég tel að margt megi betur fara og að það séu mörg áhersluefni sem fólk á okkar aldri glímir við. Margir kvíða starfslokum, fjárhags- og húsnæðisáhyggjur virðast vera þar efst á baugi. Þetta virðst vera endalaus umræða og er í raun ótrúlegt að enn skuli fólk á efri árum, ekki geta gengið að áhyggjulasu ævikvöldi!

    Mér finnst fólk á okkar aldri upp til hópa ekkert gamalt, en margt auðvitað farið að bila og við þurfum annars konar þjónustu.

    Áherslur Öldungaráðs eru að vinna að hag félagsmanna sem komin eru á 60+ aldurinn, og það er hægt með samtali við félagsmenn, hvað er efst á baugi, hvað viljið þið setja í forgang?

  • Fædd: 3. júní 1958
    Vinnustaður: Icelandair
    Starf: Dansskóli Sigvalda (Danskennari 4 ár), Bifreiðaeftirlit ríkisins (skráning ökutækja 6 ár) og Icelandair (viðhalds og tæknimál á skrifstofu og þjálfunarstjóri 40 ár)
    Menntun: Mannauðstjórnun (HR), Diplóma í rekstrafræði (Bifröst).
    Félagsstörf: Trúnaðarmaður, Trúnaðarráð hjá VR.

    Mínar áherslur eru: Nú verð ég 67 ára í sumar og langar vera í félagsstörfum VR. Þess vegna gef ég kost á mér sem fulltrúi í Öldungaráð.

    Eins og formaður okkar segir VR-félagar eru verðmætir og það á líka við eldra fólkið okkar líka sem eru starfandi, jafnvel hætt störfum og eru virkir með alla sína þekkingu.
    Rödd eldri VR – inga skiptir máli .

    Veita þarf eldri VR-ingum tækifæri til að efla sig í fræðslu og símenntun. Veita þeim ráðgjöf og hlusta á skoðun þeirra. Veita þann stuðning sem helstu í baráttumálum og auka lífsgæðin þeirra, Styðja eldra fólkið okkar við starfslok.

  • Ég er menntaður húsasmiður og iðnrekstrarfræðingur. Sem stendur starfa ég sem innkaupafulltrúi hjá BYKO. Verkalýðsbarátta hefur mér alltaf verið hugleikin og starfaði ég til dæmis í stjórn Trésmíðafélags Akureyrar fyrir margt löngu. Ég hef starfað sem trúnaðarmaður á vinnustað og alla tíð borið hagsmuni launþega fyrir brjósti. Ég hef verið félagi í VR í tugi ára og ávallt fylgst með baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum kjörum.  

    Nú þegar efri árin færast yfir læt ég mig varða kjör þeirra félaga sem nálgast eða eru komnir á eftirlaunaaldurinn. Oft virðist þessi hópur gleymast þegar rætt er um réttindi launafólks og því hef ég áhuga á að leggja mitt af mörkum til að bæta það sem fulltrúi í Öldungaráði VR.  

  • Nú er ég hættur á vinnumarkaði og hef bæði tíma og nóg þrek til að takast á við aðra hluti en hingað til. Ég er og hef verið félagi í VR árum saman.

    Í stystu máli þá hef ég mikla reynslu af stjórnun, sölumennsku, skipstjórn, ferðamennsku og mörgu öðru. Hef framhaldsmenntun og mikið sótt endurmenntun í mörgum greinum og er nú í myndlistaskólanum í Kópavogi. Tala ensku og bjarga mér á þýsku og skandinavísku.

    Ég hef áhuga á því að geta orðið að liði sem einn af öldungaráðsmönnum VR. Mig þekkja örugglega mjög margt fólk úr ýmsum geirum atvinnulífsins.

  • Er formaður Félags eldri borgara í Fossvogi Sléttuúlfanna.

    Hef reynslu af félagsmálum og mikinn áhuga á málefnum eldra fólks.

  • Fæddur: 16.08.1950
    Félagsstörf:

    • Junior Chamber Akureyri – meðlimur í 4 ár
    • Lionsklúbbur Hængur Akureyri – P/P – Past President í 12 ár
    • Formaður F.Í.K. á Norðurlandi í 10 ár
    • Formaður KKD Þórs Akureyri í 9 ár – Aðalstjórn – 2ár
    • Í stjórn MFK Ísland í 12 ár – formaður í 5 ár
    • Er virkur þátttakandi í Frímúrararegla Íslands

    Störf:

    • Kjötiðnaðarstöð KEA – 28 ár
    • Eigin rekstur í yfir 20 ár
    • Hóf vinnu hjá Saltkaup / Saltkaup Nordic / Bewi Iceland 2015

    Hjúskap: Giftur – 3 börn - uppkominn
    Heilsa: Í topp standi

  • Ég sat í trúnaðarráði VR um áratuga skeið og var einn af þeim sem tók þátt í að undirbúa Öldungaráð VR í þeirri mynd sem það er í dag.

    Mér finnst að VR eigi að taka vel á móti félagsmönnum sínum sem eru að koma á eftirlaunaaldur, vera með námskeið fyrir þá og aðstoða á allan mögulegan hátt. Ég mun leggja mig fram við að koma þessum markmiðum á framfæri. Er fæddur 30.03. 1952 og hef starfað sem verslunarmaður alla mína tíð og jafnframt starfað sem tónlistarmaður samhliða.

  • Ég er fædd 1957 í Vestmannaeyjum. Ég er á eftirlaunum. Ég er búsett í Garðabæ og er gift, ég á þrjú uppkomin börn.

    Ég hef unnið ýmiss verslunarstörf og skrifstofustörf frá 1976. Fyrstu árin vann ég helst í matvöruverslunum. Árið 1994 hóf ég störf hjá Raftækjaverslun HG Guðjónsson í Suðurveri og vann þar til eigendur seldu verslunina. Nokkur ár þar á eftir vann ég sem stuðningsfulltrúi í skóla.

    Eftir skrifstofunám í Nýja Tölvu- og Viðskiptaskólanum fékk ég vinnu hjá Tölvumyndum og svo Anza. Frá 2003 starfaði ég við sölu heimilistækja, fyrst hjá Johan Rönning í um það bil átta ár. Þaðan lá leiðin til Eirvíkur þar sem ég starfaði í um það bil tvö ár.

    Frá apríl 2013 og þar til ég fór á eftirlaun 1 desember 2022 starfaði ég hjá Smith og Norland við sölustörf.

    Ég er félagslega virk, er í félagasamtökum sem sinna mannúðarmálum. Var mjög virk innan íþróttafélagsins sem börnin mín stunduðu í sínum uppvexti. Tók að mér mörg krefjandi verkefni þar.

    Ég er heilsuhraust, stunda reglulega líkamsrækt og göngur.

  • Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í stjórn Öldungaráðs VR. Tel að reynsla mín geti komið þar að gagni. Að styðja við hagsmunabaráttu eldra fólks, bæta lífskjör þeirra og vinna að fjölbreyttari búsetuúrræðum eru mínar helstu áherslur.

    Starfaði yfir þrjátíu ár í alþjóðafluginu, aðallega á flugrekstrar- og tæknisviðum. Meðfram störfum mínum í fluginu hef ég sinnt hinum ýmsu trúnaðarstörfum. Má þar nefna: Stjórnarformaður Ábyrgðarsjóðs launa í 7 ár, sæti í menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar, umsjónarmaður ferðaþjónustu og leiðsagnar í Skálholti, varamaður í stjórn RÚV. sæti í stjórn Neytendasamtakanna ásamt fjölda ábyrgðarstarfa. Undanfarin 9 ár hef ég starfað í ferðaþjónustu og þjónustað börn með sérþarfir.

    Ég á þrjú uppkomin börn og fimm barnabörn. Hef tekið virkan þátt í skólastarfi (bekkjafulltrúi) og í foreldrastarfi í íþróttahreyfingum gegnum uppvöxt barna minna.

    Þakklát öllum þeim er vilja veita mér brautargengi til stjórnar Öldungaráðs VR.

  • Starfaði lengst af sem framhaldsskólakennari, bæði utan höfuðborgarsvæðis og innan þess. Ég bý yfir reynslu til áratuga af ýmsum félagsstörfum. Þá var ég einnig lengi trúnaðarmaður á fjölmennum vinnustað í Reykjavík. Hef setið í ýmsum stjórnun félagasamtaka og einnig í stjórn og í samninganefnd stéttarfélags, komið að skipulagningu ýmiss konar ráðstefna og námskeiða (styttri og lengri).

    Háskólamenntun /-gráður frá Íslandi, Þýskalandi og Ástralíu – í efnafræði, þýsku, menntunarfræðum og opinberri stjórnsýslu. Starfa sem sérfræðingur á sviði menntamála í dag.

    Hlutverk Öldungaráðs er mikilvægt m.t.t. stöðu eldri borgara í samfélaginu í dag. VR gerir vel að fá þann vaxandi hóp fólks á Íslandi, 65 ára og eldri, til að ljá rödd inn í kröfugerð mála sem þeim hópi eru sem mikilvægust. Ég hef áhuga á að taka þátt í því starfi og tel mig hafa nokkuð til að leggja af mörkum við að gera gott starf öldungaráðs og VR enn betra.