Reglugerð og starfsreglur Sjúkrasjóðs VR

Atvinnurekendur greiða 1% af launum starfsmanna í sjúkrasjóð stéttarfélags viðkomandi. Þessir fjármunir mynda Sjúkrasjóð VR en hlutverk hans er að veita félagsmönnum fjárhagsaðstoð í veikinda-, slysa og dánartilvikum, svo og í elli- og örorkutilvikum. Ennfremur er það meðal verkefna sjóðsins, að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum, sem snerta öryggi og heilsufar félagsmanna. Félagar í Arkitektafélagi Íslands eiga samsvarandi réttindi í sjóðnum og aðrir sjóðfélagar.

Reglugerð Sjúkrasjóðs VR

1. gr. Nafn sjóðsins og heimili

1.1 Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður VR.

1.2 Sjúkrasjóður VR er stofnaður með tilvísun til laga nr. 19, 1. maí 1979.

1.3 Sjúkrasjóður VR er eign VR. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Verkefni sjóðsins

2.1 Verkefni sjóðsins er að veita félagsfólki VR fjárhagsaðstoð í veikinda-, slysa- og dánartilvikum.

2.2 Verkefni sjóðsins er ennfremur að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum er snerta starfsöryggi og heilsufar.

2.3 Sjóðurinn getur einnig varið fé til aðila sem vinna að bættu heilsufari.

2.4 VR er heimilt að taka að sér aðstoð við félagasamtök, sem um það semja, varðandi ofangreint verkefni.

2.5 Aðalfundi hverju sinni er heimilt að ákveða að hlutfall af iðgjaldi félagsfólks í Sjúkrasjóð VR renni inn í VR varasjóð og greiðist út samkvæmt reglugerð um VR varasjóð.

3.gr.

3.1 Heimilt er að stofna til samstarfs við önnur félög um rekstur sjúkrasjóða.

4. gr. Tekjur

4.1 Tekjur sjóðsins eru samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins skv. kjarasamningum VR á hverjum tíma sbr. 7. gr. laga nr. 19, 1. maí 1979.

4.2 Vaxtatekjur og annar arður.

4.3 Gjafir, framlög og styrkir.

4.4. Aðrar tekjur sem aðalfundur félagsins/sjóðsins kann að ákveða hverju sinni.

5. gr. Stjórn og rekstur

5.1 Stjórn VR er jafnframt stjórn sjóðsins og ber ábyrgð á úthlutunum og öðrum fjárreiðum sjóðsins.

5.2 Stjórn VR er heimilt að fela fimm aðilum framkvæmdastjórn sem fer með stjórn og eftirlit með afgreiðslu sjóðsins. Framkvæmdastjórn kýs sér formann.

5.3 Stjórnun sjóðsins skal vera í samræmi við almennar stjórnsýslureglur.

5.4 Fjárreiður og umsjón með sjóðnum annast skrifstofa VR.

5.5 Sjúkrasjóður VR greiðir allan kostnað, sem af rekstri hans leiðir.

5.6 Ávallt skulu liggja fyrir upplýsingar um rétt félagsmanns til greiðslu úr sjóðnum.

5.7 Stjórn sjóðsins setur nánari starfsreglur um greiðslur bóta og aðra starfstilhögun.

6. gr. Reikningar og endurskoðun

6.1 Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af löggiltum endurskoðanda og félagslegum skoðunarmönnum félagsins fyrir aðalfund félagsins til afgreiðslu. Reikningsár sjóðsins er það sama og félagsins.

6.2 Endurskoðun ber að framkvæma af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi í samræmi við góða endurskoðunarvenju sem í gildi er á hverjum tíma.

6.3 Í ársreikningi eða skýringum með honum skal sundurliða sérstaklega kostnað vegna hvers og eins bótaflokks.

7. gr. Úttekt óháðra eftirlitsaðila

7.1 Annað hvert ár skal framkvæmdastjórn sjóðsins fá óháðan tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

7.2 Stjórn sjóðsins skal ávallt gæta þess að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

8. gr. Ávöxtun sjóðsins

8.1. Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti:

a) í ríkisskuldabréfum, í skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs,

b) með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum,

c) í bönkum eða sparisjóðum,

d) í fasteignum tengdum starfsemi og markmiðum sjóðsins,

e) á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan.

9. gr. Réttur til styrkveitinga úr Sjúkrasjóði VR

9.1 Rétt til styrkveitinga úr sjóðnum eiga einungis þau sem verið er að greiða fyrir til sjóðsins þegar réttur til aðstoðar myndast og fullnægja eftirtöldum skilyrðum, samanber þó gr. 9.4, 9.6, 9.7 og 9.8.

9.2 Þau sem greitt hafa iðgjald til Sjúkrasjóðs VR fyrir einn mánuð skulu eiga rétt til greiðslna sjúkra- og slysadagpeninga en til þess að eiga rétt til annarra styrkja úr sjúkrasjóði, s.s. dánarbóta o.s.frv., þarf að hafa greitt iðgjald til Sjúkrasjóðs VR samfellt í a.m.k. 6 mánuði fyrir dagsetningu umsóknar. Heimilt er að dagpeningagreiðslur, styrkir og dánarbætur séu greidd m.v. starfshlutfall.

9.3 Sá aðili sem öðlast hefur rétt til greiðslu úr sjúkrasjóði eins verkalýðsfélags innan ASÍ öðlast rétt hjá Sjúkrasjóði VR, skv. 2. gr., eftir að greitt hefur verið vegna hans til sjóðsins í einn mánuð, enda hafði hann fram að því átt rétt hjá fyrra félaginu.

9.4
a) Almennt skapast ekki réttindi í Sjúkrasjóði VR með iðgjaldagreiðslum af atvinnuleysisbótum eða fæðingarorlofsgreiðslum, nema hjá þeim sem voru félagar í VR þegar þeir misstu vinnu og sóttu um atvinnuleysisbætur eða hófu töku fæðingarorlofs. Heimilt er þó að veita slík réttindi í Sjúkrasjóði VR þeim atvinnuleitendum sem greitt hafa félagsgjald til VR í a.m.k. 36 mánuði af síðustu 60 mánuðum fyrir skráningu á atvinnuleysisskrá.

b) Fæðingarorlof telst til vinnutíma og skerðir ekki rétt til bóta svo framarlega að greitt sé félagsgjald af fæðingarorlofsgreiðslum.

9.5 Ef breytingar verða á greiddum iðgjöldum skömmu fyrir umsókn um styrkveitingu úr sjóðnum frá sjálfstætt starfandi eða fjölskyldumeðlimi rekstraraðila smærri fyrirtækja, er heimilt að stöðva greiðslu, ákveða annað viðmiðunartímabil til ákvörðunar bótafjárhæðar og að krefjast frekari gagna frá opinberum aðilum. Sama gildir um iðgjaldagreiðslur aftur í tímann og ef aðilar með stöðu sjálfstætt starfandi hafa nýlega gengið í félagið.

9.6 Heimilt er að veita rétt til dánarbóta og styrkja vegna þeirra sem láta af störfum eftir 67 ára aldur.

9.7 Framkvæmdastjórn sjóðsins er heimilt að veita styrki til sjóðsfélaga í formi forvarna- og endurhæfingarstyrkja og styrkja vegna sjúkra- og slysakostnaðar.

9.8 Styrkir og fjárframlög til stofnana og félagasamtaka skulu ákveðnir af stjórn sjóðsins hverju sinni skv. 2. gr.

9.9 Stjórn sjóðsins er heimilt að stofna til annarra bótaflokka vegna fæðingarorlofs, slysatrygginga og annarra heilsufarstrygginga.

10. gr. Sjúkra- og slysadagpeningar

Sjúkrasjóðurinn skal að greiða sjúkra- og slysadagpeninga ef launatekjur falla niður sökum veikinda eða slysa og skulu þeir vera 80% af meðallaunum. Við útreikning upphæðar dagpeninga skal miða við greiðslur til félags- og Sjúkrasjóðs VR síðustu 6 mánuði áður en launagreiðslur féllu niður. Hafi orðið verulegar breytingar á launum síðustu 6 mánuði er heimilt að meta tekjur sérstaklega og yfir lengra tímabil en þó aldrei lengra tímabil en 12 mánuði. Í þeim tilvikum þar sem félagi fær greiðslur fyrir sama slysa- og/eða veikindatímabil frá öðrum aðilum, svo sem greiðslur úr slysatryggingu launafólks, er heimilt að greiða mismun þeirrar bótafjárhæðar og 80% meðallauna ef sú upphæð er lægri en útreiknuð upphæð dagpeninga frá Sjúkrasjóði VR. Slysadagpeningar skv. grein þessari greiðast ekki vegna skaðabótaskyldra slysa og atvinnusjúkdóma, þ.m.t. slysa af völdum vélknúinna ökutækja.

Í upphafi félagsaðildar skal ekki greiða sjúkra- og slysadagpeninga í fleiri daga en greitt hefur verið fyrir viðkomandi félaga í sjúkrasjóðinn og er þá miðað við þann dag sem greiðslan hefst. Undanþegnir frá þessu eru þó umsækjendur sem verið hafa fullgildir félagar annars félags í ASÍ, sbr. gr. 9.3.

Einnig er heimilt að greiða dagpeninga ef launatekjur falla niður vegna veikinda barna sjóðsfélaga, yngri en 18 ára, og vegna langvarandi veikinda maka. Um það gildi að öðru leyti sömu reglur og að ofan greinir.

Eigi félagi rétt til endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að synja umsókn um sjúkra- eða slysadagpeninga. Nemi endurhæfingarlífeyrir lægri fjárhæð en sjúkra- eða slysadagpeningar er heimilt að greiða honum það sem upp á vantar í samræmi við sjúkradagpeningarétt hans.

Almennt skal það vera skilyrði greiðslu sjúkra- og slysadagpeninga að umsækjandi komi fyrst til viðtals hjá ráðgjafa sjóðsins og að gögn hans séu skoðuð af trúnaðarlækni sjóðsins til að leggja mat á möguleg endurhæfingarúrræði. Sjúkra- og slysadagpeningar þeirra sem hafna að taka þátt í boðnum úrræðum ráðgjafa sjóðsins skulu vera 72% af meðallaunum. Þó skal ekki koma til slíkrar skerðingar fyrr en að greiddir hafa verið a.m.k. 120 dagar á viðkomandi greiðslutímabili. Komi til slíkrar skerðingar er viðkomandi félagsmanni heimilt að krefjast þess að málið verði lagt fyrir framkvæmdastjórn sjóðsins til endanlegrar ákvörðunar.

Fjöldi daga á greiðslutímabili er ákvarðaður af framkvæmdastjórn sjóðsins og staðfestur af stjórn VR og skal hann tilgreindur í starfsreglum sjóðsins hverju sinni. Greiðslutímabil getur aldrei verið styttra en sem nemur því lágmarki sem tilgreint er í gildandi viðmiðunarreglugerð fyrir sjúkrasjóði aðildarfélaga ASÍ.

Sá sem hefur fullnýtt rétt öðlast hann að nýju þegar greitt hefur verið fyrir hann til sjóðsins í 12 mánuði.

11. gr. Dánarbætur

VR greiðir dánarbætur við dauðsfall fullgildra félaga. Bótafjárhæðir fara eftir fjölskyldustærð og hvort viðkomandi var ennþá á vinnumarkaði og úthlutað samkvæmt gildandi starfsreglum Sjúkrasjóðs VR.

Heimilt er auk þess að greiða dánarbætur vegna barna félaga, yngri en 18 ára, eins og kveðið er á um í starfsreglum sjóðsins hverju sinni.

12. gr. Slysabætur {Felld út á aðalfundi VR 2022} Sjá eldri reglugerð hér

13. gr. Lausn frá greiðsluskyldu

Ef farsóttir, náttúruhamfarir eða önnur stór áföll geisa getur sjóðsstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur stjórn sjóðsins ákveðið að lækka um stundarsakir upphæð bóta, ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin. Sé nauðsynlegt að skerða bætur vegna fjárhags sjóðsins skulu sjúkra- og slysadagpeningar skerðast minnst og njóta forgangs umfram aðra bótaflokka eða útgreiðslur.

14. gr. Fyrning bótaréttar

Réttur til bóta eða styrkja úr sjóðnum fyrnist sem hér segir:

Dagpeningar, slysa- og dánarbætur fyrnast á 24 mánuðum frá því að réttur til bóta myndast. Aðrar greiðslur og styrkir fyrnast á 12 mánuðum frá því að réttur til greiðslu skapaðist.

15. gr. Endurgreiðsla iðgjalda

Iðgjöld til sjóðsins endurgreiðast ekki.

16. gr. Upplýsingaskylda

16.1 Stjórn sjóðsins ber að upplýsa sjóðsfélaga um rétt þeirra samkvæmt reglugerð sjóðsins með kynningu á vefsíðu félagsins.

16.2 Stjórn sjóðsins ber að senda skrifstofu ASÍ árlega; ársreikning sjóðsins auk mats á framtíðarstöðu á 5 ára fresti.

16.3 Stjórn sjóðsins ber að senda skrifstofu ASÍ allar breytingar sem gerðar kunna að vera á þessari reglugerð.

17. gr. Bóta aflað með sviksamlegum hætti

Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar, leynir eða lætur hjá líða að tilkynna um breytingar á högum sínum eða heilsu sem áhrif hefur á réttindi að fullu eða hluta samkvæmt þessari reglugerð skal missa rétt til bóta úr sjóðnum. Heimilt er að endurkrefja bótaþega um þegar greiddar bætur/dagpeninga sem aflað er með sviksamlegum hætti auk dráttarvaxta. Við fyrsta brot skal endurkrefja um ofgreiddar bætur auk þess sem viðkomandi skal ekki eiga rétt til greiðslu bóta úr Sjúkrasjóði VR fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar á sama bótatímabili, eða næst þegar sótt er um bætur. Við annað brot skulu það vera þrír mánuðir en við þriðja brot sex mánuðir. Réttur til bóta samkvæmt framansögðu er háður því að endurgreiðsla ranglega greiddra bóta hafi farið fram.

18. gr. Úrskurðarnefnd VR

Heimilt er að kæra ágreining sem rís um túlkun reglna, grundvöll, skilyrði og fjárhæð dagpeninga, styrkja og annarra greiðslna úr sjóðnum til úrskurðarnefndar VR sem skipuð er af stjórn félagsins. Hlutverk úrskurðarnefndar VR er að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga og reglna VR.

Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að viðkomandi félaga eða aðila er tilkynnt um ákvörðun Sjúkrasjóðs VR og nánar eftir gildandi reglum um úrskurðarnefnd VR hverju sinni.

19. gr. Breytingar á reglugerðinni

Breytingar á reglugerðinni verða aðeins gerðar á aðalfundi VR.
(Samþykkt af stjórn VR 14. ágúst 1979, á aðalfundi VR 23. mars 1980 með áorðnum breytingum 25. mars 1985, 16. mars 1998, 8. mars 1999, 26. mars 2001, 14. mars 2005, 24. apríl 2006, 26. mars 2007, 2. apríl 2009, 11. janúar 2011, 10. apríl 2012, 25. mars 2015, 27. mars 2019, 9. júní 2020 og 24. mars 2021).

Ákvæði til bráðabirgða
Gr. 9.4, 10 gr. 3,4,5. mgr, 12. gr; Þessar greinar taka gildi frá og með 1. júlí 2015 en þangað til gilda eldri reglur.

Starfsreglur Sjúkrasjóðs VR

1. gr. Umboð framkvæmdastjórnar Sjúkrasjóðs VR

1.1 Stjórn VR felur 5 manna framkvæmdastjórn Sjúkrasjóðs VR stjórn og eftirlit afgreiðslu fyrir Sjúkrasjóð VR, skv. 5. gr. reglugerðar Sjúkrasjóðsins.

1.2 Framkvæmdastjórn Sjúkrasjóðs VR skal móta starfsreglur skv. gr. 5.7 reglugerðar Sjúkrasjóðsins, eftir því sem reynsla, starfsemi og fjárhagur sjóðsins gefa tilefni til. Starfsreglur sjóðsins skulu staðfestar af stjórn VR.

1.3 Framkvæmdastjórn skal fela skrifstofu VR almenna umsjón og daglega afgreiðslu mála.

2. gr. Sjúkra- og slysadagpeningar

2.1 Sjúkrasjóður VR greiðir sjúkra- eða slysadagpeninga ef félagsmaður verður, sökum veikinda eða slysa, óvinnufær og launatekjur hafa fallið niður. Veikindaréttur hjá atvinnurekanda, samkvæmt kjarasamningi, þarf að vera fullnýttur. Þó er heimilt að greiða sjúkradagpeninga þeim sem fara í áfengis- eða vímuefnameðferð, án þess að þeir hafi klárað veikindarétt hjá atvinnurekanda. Sjálfstætt starfandi í VR njóta sama réttar í veikindum og almennir launamenn og þurfa einnig að klára veikindarétt hjá eigin rekstri áður en þeir fá greiðslur úr Sjúkrasjóði VR. Framvísa þarf læknisvottorði þess efnis að óvinnufærni hafi varað á þeim tíma sem veikindaréttur hjá eigin rekstri var nýttur. Heimilt er að tekjutengja sjúkradagpeninga við meðallaun. Ekki er heimilt að greiða sjúkradagpeninga samhliða námi sem hefst eftir að bótatímabil er hafið.

Sjúkradagpeningar skv. grein þessari greiðast ekki vegna skaðabótaskyldra slysa og atvinnusjúkdóma, þ.m.t. slysa af völdum vélknúinna ökutækja. Gildir það einnig um slys af völdum þeirra vélknúnu ökutækja sem undanþegin eru vátryggingarskyldu
samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 30/2019. Ef sjóðsfélagi vanrækir að kaupa lögbundna tryggingu greiðir Sjúkrasjóður VR ekki slysadagpeninga sem annars hefðu verið greiddir af tryggingafélagi.

2.2 Gögn sem skila skal inn með umsókn um sjúkradagpeninga eru sjúkradagpeningavottorð sem gefið er út á Íslandi, staðfestingu á hvenær veikindarétti hjá atvinnurekanda lýkur. Heimilt er að óska eftir launaseðlum síðustu 6 mánuði fyrir greiðslu sjúkradagpeninga.

2.3 Hvert samfellt greiðslutímabil er 210 dagar á hverju 12 mánaða tímabili. Sá sem hefur fullnýtt þann rétt öðlast hann að nýju þegar greitt hefur verið fyrir hann til sjóðsins í 12 mánuði.

2.4 Heimilt er að greiða sjúkradagpeninga vegna veikinda á meðgöngu, enda komi ekki dagpeningagreiðsla fyrir sama tímabil frá öðrum aðilum. Eigi félagsmaður rétt á framlengdu fæðingarorlofi hjá Fæðingarorlofssjóði á hann ekki rétt á sjúkradagpeningum úr sjúkrasjóðnum á sama tíma.

2.5 Foreldrar sem verða fyrir að missa barn yngra en 18 ára eiga rétt á sorgarleyfi skv. lögum nr. 77/2022. Ef sótt er um sjúkradagpeninga á grundvelli þess að óvinnufærni stafi af missi barns undir 18 ára aldri er nauðsynlegt að hafa nýtt rétt til sorgarleyfis áður en til greiðslu sjúkradagpeninga kemur. 

2.6 Dagpeningar eru ekki greiddir eigi félagsmaður rétt á örorkulífeyri

2.7 Heimilt er að greiða hluta dagpeninga ef sjóðfélagi getur ekki, vegna sjúkdóms eða slyss, stundað fulla vinnu. Dregið er hlutfallslega af rétti félaga til sjúkradagpeninga hjá þeim sem eru í hlutastarfi samhliða sjúkradagpeningum. Hámarkslengd sjúkradagatímabils getur þó aldri orðið lengra en 12 mánuðir samfellt.
Tekur gildi 1 janúar 2025.

2.8 Greiðslur sjúkradagpeninga skulu miðast við meðallaun bótaþega, miðað við greiðslur til félags- og Sjúkrasjóðs VR, síðustu 6 mánuði áður en launagreiðslur féllu niður sbr. 10. gr. í reglugerð Sjúkrasjóðs VR. Í reglugerð kemur fram að ef verulegar breytingar hafa orðið á launum síðustu 6 mánuði er heimilt að meta tekjurnar sérstaklega og þá yfir lengra tímabil en þó aldrei lengra en 12 mánuði. Er þar aðallega átt við þegar félagsmaður lækkar verulega í launum vegna veikinda sinna, getur t.d. ekki unnið reglubundna yfirvinnu sem áður var hluti af launakjörum eða að vinnuhlutfall hefur lækkað vegna heilsubrests.

Meðallaun þeirra sem greitt hafa skemur en 6 mánuði til Sjúkrasjóðs VR reiknast skv. eftirfarandi:
Meðallaun þeirra, sem öðlast hafa rétt til greiðslu sjúkra- og slysadagpeninga úr sjúkrasjóði annars verkalýðsfélags, skal finna með því að deila í laun á viðmiðunartímabili með fjölda mánaða sem greitt hefur verið í Sjúkrasjóð VR.
Meðallaun þeirra sem ekki hafa átt rétt hjá sjúkrasjóði annars stéttarfélags og ekki hafa greitt til félags- og Sjúkrasjóðs VR, skal finna með því að deila í laun á viðmiðunartímabili með 6 mánuðum, þó svo að greitt hafi verið skemur en 6 mánuði.
Sjúkra- og slysadagpeningar skulu vera 80% af meðallaunum enda komi ekki jafnhá eða hærri greiðsla vegna tímabundinnar örorku samkvæmt ábyrgðartryggingu fyrir sama tímabil. Í þeim tilvikum þar sem félagsmaður fær greiðslur fyrir sama slysa/veikindatímabil frá öðrum aðilum, svo sem greiðslur úr slysatryggingu launafólks, er heimilt að greiða mismun þeirrar bótafjárhæðar og 80% meðallauna ef sú upphæð er lægri en útreiknuð upphæð dagpeninga frá Sjúkrasjóði VR. Slysadagpeningar skv. grein þessari greiðast ekki vegna skaðabótaskyldra slysa og atvinnusjúkdóma, þ.m.t. slysa af völdum vélknúinna ökutækja.

Sjúkra- og slysadagpeningar þeirra sem hafna að taka þátt í boðnum úrræðum ráðgjafa sjóðsins skulu vera 72% af meðallaunum. Þó skal ekki koma til slíkrar skerðingar fyrr en að greiddir hafa verið a.m.k. 120 dagar á viðkomandi greiðslutímabili. Komi til slíkrar skerðingar er greiðsluþega heimilt að kæra þá ákvörðun til framkvæmdastjórnar sjóðsins til endanlegrar ákvörðunar.

2.9 Sjúkradagpeningar greiðast til foreldra í allt að 210 daga vegna veikinda barna, yngri en 18 ára, enda missi félagsmaður launatekjur vegna þeirra. Greiða skal dagpeninga eftir að veikindarétti lýkur skv. kjarasamningi.

3. gr. Dánarbætur

3.1 VR greiðir dánarbætur við dauðsfall fullgilds félagsfólks og barna þeirra. Bótafjárhæðir fara eftir fjölskyldustærð og hvort viðkomandi var ennþá á vinnumarkaði. Dánarbætur vegna þeirra sem verið er að greiða fyrir til Sjúkrasjóðs VR við dauðsfall eru:

1. Ef hinn látni var giftur greiðast bætur til maka kr. 712.000. Ef hinn látni var ógiftur greiðist kr. 712.000 til þess aðila sem staðfest er að greiðir fyrir útför.

2. Ef hinn látni lætur eftir sig barn (kjör- eða fósturbarn) yngra en 18 ára greiðast vegna hvers barns kr. 800.000 til þess sem sannarlega hefur barnið á sínu framfæri.

3. Að auki greiðist upphæð sem svarar til inneignar viðkomandi í VR varasjóði.

3.2 Heimilt er að greiða dánarbætur vegna þeirra sem látið hafa af störfum við 60 ára aldur eða síðar hafi það verið fullgilt félagsfólk í samfellt 5 ár áður en það lét af störfum:

Dánarbætur eldra félagsfólks eins og það er skilgreint í 3. gr. laga VR eru sem hér segir

Mánuðir frá því að félagsfólk varð eldri félagar:

1-12 mánuðir kr. 712.000
13-24 mánuðir kr. 569.600
25-36 mánuðir kr. 498.400
37-48 mánuðir kr. 427.200
49-60 mánuðir kr. 356.000
60 mánuðir eða meira 350.000 kr.

3.3 Dánarbætur vegna barna félagsfólks yngri en 18 ára eru 712.000 kr.

3.4 Rétthafar dánarbóta:

1. Eftirlifandi maki.
2. Börn hins látna eða sá sem annast framfærslu barna að fullu.
3. Aðrir ef þeir bera kostnað af útför.
4. Dánarbætur barna félagsfólks. Rétthafi dánarbóta er félagsmaður sem missir barn sitt.

Greinin tekur gildi 14. desember 2023. Miðað er við að dánardagur sé eftir þann dag. Ef dánardagur er fyrir þann þá gildir fyrri reglan. Sjá fyrri reglu hér.

4. gr. Slysabætur {Felld út á aðalfundi VR 2022} Sjá eldri starfsreglur hér.

5. gr. Styrkir

5.1 Framkvæmdastjórn er heimilt að meta þörf og aðstæður félagsmanna og fyrrverandi félagsmanna í sjúkra-, elli- og örorkutilvikum og getur í slíkum tilvikum samþykkt styrkveitingar.

5.2 Heimilt er að greiða styrk vegna langvarandi veikinda maka eða barna sjóðfélaga, enda missi sjóðfélagi launatekjur vegna þeirra, skv. verklagsreglum.

5.3 Heimilt er að greiða styrk, sem svarar sjúkradagpeningum samtals í allt að 120 daga, vegna sjúkdóms sem stafar af ofneyslu áfengis eða vímuefna.

5.4 Sjúkrasjóður VR greiðir styrk til félagsmanna vegna líf-, slysa- og sjúkdómatrygginga, tannlækninga, sálfræðihjálpar, líkamsræktar, endurhæfingar og kostnað vegna hjálpartækja s.s. gleraugna- og heyrnartækja, í gegnum VR varasjóð.

5.5 Sjúkrasjóður VR greiðir styrki vegna glasafrjóvgana/tæknifrjóvgana og ættleiðingar, að hámarki 250. þús. kr. fyrir hvern félagsmann, eftir 6 mánaða samfellda greiðslu iðgjalda fyrir upphafsdag meðferðar sem sótt er um.

Greinin tekur gildi 14. febrúar 2024. Miðað er við að dagsetning meðferðar sé eftir þann dag. Ef meðferðardagsetning er fyrir þann dag þá gildir fyrri reglan, það er að segja upphæð 200.000 kr. 

5.6 Skrifstofa VR getur afgreitt eftirfarandi til þeirra sem ekki eiga rétt samkvæmt gildandi reglum:

a1. Ferðastyrkir félagsmanns vegna eigin veikinda, foreldra, maka eða barna yngri en 18 ára, að hámarki kr. 150.000,-
a2. Ferðastyrkir félagsmanns vegna maka eða náskylds ættingja að hámarki kr. 150.000,-
a3. Styrkir vegna veikinda maka. Heimilt er að greiða styrk sem samsvarar heildarupphæð sjúkradagpeninga í 3 mánuðir.

5.7 Allir styrkir sem þannig eru afgreiddir hjá starfsmönnum Sjúkrasjóðs á skrifstofu VR skulu háðir samþykki sviðsstjóra og vera í samræmi við skráðar verklagsreglur.

5.8 Stjórn VR ákveður árlegt fjárframlag til styrkja komandi árs í lok hvers árs. Framkvæmdastjórn Sjúkrasjóðs VR hefur eftirlit með styrkveitingum úr sjóðnum.

6. gr. Samskipti sjúkrasjóða

6.1 Sá sem öðlast hefur rétt til greiðslu úr sjúkrasjóði eins aðildarfélags innan ASÍ öðlast rétt hjá Sjúkrasjóði VR, skv. 2. gr., eftir að greitt hefur verið vegna hans til sjóðsins í einn mánuð, enda hafði hann fram að því rétt hjá fyrra félaginu. Starfsmenn Sjúkrasjóðs VR skulu eftir fremsta megni leiðbeina umsækjendum um sjúkradagpeninga um þau mögulegu réttindi er þeir kunna að eiga hjá öðrum aðilum, stofnunum og félögum.

6.2. Vinni umsækjandi á fleirum en einum vinnustað og hafi verið greitt í fleiri en einn sjúkrasjóð þegar sótt er um greiðslu, skal hann greina frá í hvaða sjóði greitt hefur verið vegna hans. Heimilt er að fresta greiðslu bóta þar til staðfesting annarra sjóða liggur fyrir um að umsækjandi hafi ekki sótt um greiðslur þaðan. Sjúkrasjóðurinn skal leita slíkrar staðfestingar og gefa öðrum sjóðum yfirlit um bætur sem greiddar eru vegna umsækjandans, tegund og fjárhæð bóta.

7. gr. Önnur atriði

7.1 Framkvæmdastjórn Sjúkrasjóðs VR er heimilt, að fengnu samþykki stjórnar VR, að semja um tryggingar vegna félagsmanna VR, s.s. hóplíftryggingu, frítímaslysatryggingu, sjúkradagpeningatryggingu, slysatryggingu barna félagsmanna o.fl.

7.2 Innheimtu tekna Sjúkrasjóðs VR annast Lífeyrissjóður verzlunarmanna skv. samkomulagi þar um.

7.3 Bætur úr Sjúkrasjóði VR greiðast mánaðarlega og skulu umsóknir berast á eyðublöðum sem liggja frammi á skrifstofu og vef VR, ásamt nauðsynlegum vottorðum fyrir 20. hvers mánaðar til að greiðsla geti borist 1. dag mánaðarins á eftir. Berist ekki fullnægjandi gögn eða upplýsingar skal ákvörðun um samþykki eða höfnun frestað þar til umbeðin gögn berast.

7.4 Allar umsóknir skulu samþykktar af sviðsstjóra eða framkvæmdastjóra áður þær
eru greiddar. Halda skal vikulega fundi þar sem umsóknir um sjúkradagpeninga eru yfirfarnar og loks greiðslulisti undirritaður og samþykktur af sviðsstjóra.

7.5 Séu iðgjöld atvinnurekanda umsækjandans í Sjúkrasjóð VR í vanskilum og umsækjandi er forsvarsmaður atvinnurekenda, maki, skyldmenni eða nákominn að öðru leyti, er Sjúkrasjóði VR heimilt að hafna umsókninni.

7.6 Réttur til bóta miðast við greiðslu iðgjalds. Óheimilt er að skapa sér rétt til bóta með greiðslu iðgjalda aftur í tímann (sbr. 9.gr. reglugerðar Sjúkrasjóðs VR).

7.7 Almennt skal það vera skilyrði styrkja og sjúkradagpeningagreiðsla að umsækjandi komi fyrst til viðtals hjá ráðgjafa sjóðsins og að gögn hans séu skoðuð af trúnaðarlækni sjóðsins til þess að leggja mat á möguleg endurhæfingarúrræði.

7.8 Upplýsingar sem skráðar eru í kerfi Sjúkrasjóðs VR eru persónugreinanlegar upplýsingar og heyra undir lög um persónuvernd. Farið er með allar upplýsingar í kerfinu sem trúnaðarmál. Með undirskrift umsóknar um bætur veitir félagsmaður félaginu rétt til þess að afla frekari gagna sem afgreiðsla umsóknarinnar getur byggt á, s.s. upplýsingar um tekjur og tekjuskatt, og samþykkir að trúnaðarlæknar félagsins hafi aðgang að öllum læknisfræðilegum upplýsingum og geti kallað viðkomandi til viðtals.

7.9. Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar, leynir eða lætur hjá líða að tilkynna um breytingar á högum sínum eða heilsu sem áhrif hefur á réttindi að fullu eða hluta samkvæmt þessum starfsreglum skal missa rétt til bóta úr sjóðnum. Heimilt er að endurkrefja bótaþega um þegar greiddar bætur/dagpeninga sem aflað er með sviksamlegum hætti auk dráttarvaxta. Við fyrsta brot skal endurkrefja um ofgreiddar bætur auk þess sem viðkomandi skal ekki eiga rétt til greiðslu bóta úr Sjúkrasjóði VR fyrr en að tveimur mánuðum liðnum sem ella hefðu verið greiddar á sama bótatímabili eða næst þegar sótt er um bætur. Við annað brot skulu það vera þrír mánuðir en við þriðja brot sex mánuðir. Réttur til bóta samkvæmt framansögðu er háður því að endurgreiðsla ranglega greiddra bóta hafi farið fram.
Áður en félagsmaður er sviptur bótarétti skal veita honum rétt til andmæla. Tilkynna skal félagsmanni með sannanlegum hætti ef hann er sviptur bótarétti.

(Samþykkt í stjórn VR 24.09.79, með áorðnum breytingum 01.04.85, 28.11.85, 01.12.88, 09.03.89, 22.11.89, 09.02.94, 30.08.94, 28.12.94, 23.05.95, 20.06.95, 13.06.97, br. á gr. 2.1 og 2.7, sem gildir frá 01.07.97 og 18.02.98, br. á gr. 2.9, sem gildir frá 01.01.98. 16.04.98 samþykkti stjórn VR breytingar á flestum greinum og nýjar bættust við, þessar breytingar gilda frá 01.05.98, með áorðnum breytingum 13.04.1999 á 3. og 5. gr., sem gilda frá 01.04.99 og 07.09.99, br. á gr. 5.1, sem gildir frá 01.09.99 og 06.06.2000, br. á gr. 5.5, 5.6 og 5.7, sem gilda frá 01.05.2000 og br. á gr. 6.4, sem gildir frá 01.06.2000 og br. á gr. 2.8, 3.2, 4.1, 6.4, 6.5 og 6.6, sem gildir frá 01.04.01. Þann 13. október samþykkti stjórn VR breytingar á gr. 3.1 og 3.3. sem gilda frá þeim tíma. Þann 9. febrúar 2005 samþykkti stjórn VR breytingar á gr. 2.2., 2.7 og 5.4. Þann 13. apríl 2005 samþykkti stjórn VR nýjar greinar, gr. 7.4 og gr. 7.5 sem gilda frá og með þeim tíma. Þann 24. apríl 2006 samþykkti aðalfundur breytingar á gr. 3.1 og 5.4. Þann 9. maí 2007 samþykkti stjórn breytingar á greinum 2.1, 2.6, 4.4, 4.5, 5.5, 6, 6.1, 6.2, 6.3, 6.4,8.3, 8.4, 8.5, 8.6, 8.7 og 8.8. Þann 10.09.2008 samþykkti stjórn breytingar á gr. 2.3, 5.3 og 8.7. Þann 8. október 2008 samþykkti stjórn breytingar á gr. 2.5 og 3.2. Stjórn samþykkti á fundi sínum þann 12. maí 2010 breytingar á 6. gr. Framkvæmdastjórn samþykkti breytingar á gr. 2.7 og 6.1 þann 4. janúar 2011. Stjórn VR samþykkti breytingar á gr. 2.5 þann 20. mars 2013, Framkvæmdastjórn samþykkti breytingar á gr. 2.1,2.2,2.3.,2.7 og 8.8 þann 13.08 2013 til framkvæmdar eftir aðalfund 26.03 2014.

Ákvæði til bráðabirgða Gr. 2.7, 3.1 1. og 2. tl., 4.1, 4.3, 5.5; Þessar greinar taka gildi frá og með 1. júlí 2015 en þangað til gilda eldri reglur.

Framkvæmdastjórn og stjórn VR samþykkti breytingar á gr. 3.1 þann 14.12 2016 til framkvæmdar frá 01.01 2017

Stjórn VR samþykkti breytingar á gr. 4.1 þann 7. júní, 2017

Stjórn VR samþykkti breytingar á gr. 3 og gr. 7.4 þann 13. september 2023).

Framkvæmdastjórn VR samþykkti breytingar á gr. 2.1 12. desember 2023.

Stjórn VR samþykkti breytingar á gr. 3 ásamt nýrri grein 2.4 þann 13. desember 2023.

Stjórn VR samþykkti breytingar á gr. 5.5 þann 14. febrúar 2024.

Framkvæmdastjórn VR samþykkti breytingar á gr. 2.7 þann 22. maí 2024

Sjúkrasjóður VR

Í Sjúkrasjóð VR geta félagsmenn sótt um sjúkradagpeninga, slysabætur, dánarbætur og aðra styrki.

Smellið hér að neðan til að fá frekari upplýsingar um Sjúkrasjóð VR.

Sjá nánar hér.