Tilgangur sjóðsins er að veita félagsmönnum VR sem hafa misst atvinnutekjur sínar vegna vinnustöðvunar eða verkbanna fjárhagsaðstoð. Þeir sem eru fullgildir félagsmenn áður en viðkomandi vinnudeila hófst eiga rétt á framlögum úr sjóðnum. Þeir sem halda launum í vinnudeilu og þeir sem hefja störf annars staðar á meðan á vinnustöðvun stendur eiga ekki rétt á greiðslu úr sjóðnum.
1. gr. Nafn sjóðsins og heimili
1.1 Sjóðurinn heitir Vinnudeilusjóður VR.
1.2 Vinnudeilusjóður VR er eign VR. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr. Tilgangur sjóðsins
2.1 Tilgangur sjóðsins er að veita félagsfólki VR sem missir atvinnutekjur vegna vinnustöðvunar eða verkbanna fjárhagsaðstoð, eftir því sem hagur sjóðsins leyfir hverju sinni.
3. gr. Tekjur sjóðsins
3.1 Framlag úr félagasjóði VR, ákveðið á aðalfundi félagsins hverju sinni.
3.2 Vaxtatekjur.
3.3 Gjafir, framlög og styrkir.
4. gr. Stjórn og rekstur
4.1 Stjórn VR er jafnframt stjórn sjóðsins og ber ábyrgð á úthlutunum og öðrum fjárreiðum sjóðsins.
4.2 Stjórn VR er heimilt að fela þremur aðilum framkvæmdastjórn sem fer með daglega afgreiðslu sjóðsins. Í þeirri stjórn skulu eiga sæti þrír aðalmenn og einn varamaður skipaðir úr hópi aðalmanna og varamanna stjórnar VR til tveggja ára í senn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
4.3 Stjórnun sjóðsins skal vera í samræmi við almennar stjórnsýslureglur.
4.4 Fjárreiður og umsjón með sjóðnum annast skrifstofa VR.
4.5 Vinnudeilusjóður VR greiðir allan kostnað sem af rekstri hans leiðir.
4.6 Framkvæmdastjórn sjóðsins setur nánari starfsreglur um greiðslur og aðra starfstilhögun sjóðsins, þ.á m. hvenær í vinnudeilu skuli hefja úthlutun úr sjóðnum, upphæð styrkja og greiðslutímabil. Starfsreglur sjóðsins skulu taka mið af stærð og eðli viðkomandi vinnudeilu og einnig skal taka mið af stöðu sjóðsins hverju sinni.
4.7 Framkvæmdastjórn sjóðsins skal leggja tillögur að starfsreglum sjóðsins fyrir stjórn VR. Stjórn VR þarf að samþykkja starfsreglurnar til þess að þær öðlist gildi.
4.8 Stjórn sjóðsins skal halda gerðabók um fundi sína, styrkbeiðnir og styrkveitingar.
5. gr. Greiðslur úr sjóðnum
5.1 Félagi í VR, sem var fullgildur félagi áður en viðkomandi vinnudeila hófst og er skuldlaus við félagið, á rétt á fjárhagsaðstoð úr sjóðnum vegna vinnustöðvunar.
5.2 Félagsfólk sem heldur launum í vinnudeilu á ekki rétt á fjárhagsaðstoð úr sjóðnum.
5.3 Félagsfólk sem hefur störf annars staðar meðan á vinnustöðvun stendur missir rétt til greiðslu úr sjóðnum.
6. gr. Ávöxtun sjóðsins
6.1 Vinnudeilusjóð skal ávaxta skv. 26. gr. laga VR.
7. gr. Ársreikningur og endurskoðun
7.1 Ársreikning sjóðsins skal birta með reikningum VR og skal hann endurskoðaður með sama hætti og aðrir sjóðir VR.
7. 2 Ársreikning sjóðsins skal leggja fram áritaðan af félagslegum skoðunarmönnum félagsins og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfund félagsins. Reikningsár sjóðsins er það sama og félagsins.
8. gr. Sjóðurinn lagður niður
Hætti sjóðurinn störfum eða ákvörðun er tekin um að honum verði slitið færast eignir hans í félagasjóð VR.
9. gr. Breytingar á reglum sjóðsins
Reglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi VR og fer með slíkar breytingar eins og um breytingar á lögum VR væri að ræða sbr. 28. gr. laga VR.
Samþykkt á aðalfundi VR 25. mars 2015.