Orlofssjóður VR

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að raunhæfu gildi orlofsins með því að auðvelda félagsfólki að njóta orlofs og hvíldar.

Sjóðnum er meðal annars varið í að reisa og reka orlofshús og orlofsíbúðir auk niðurgreiðslu orlofstengdrar þjónustu svo sem vegna flugs, gistingar, leigu ferðavagna og útilegu- og veiðikorta.

Reglur Orlofssjóðs VR

1. gr. Nafn sjóðsins og heimili

Sjóðurinn heitir: Orlofssjóður VR. Orlofssjóður VR er eign VR. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík. 

2. gr. Sjóðfélagar

Sjóðfélagar í Orlofssjóði VR eru félagar VR eins og þeir eru skilgreindir í 3. gr. laga VR.

3. gr. Tilgangur sjóðsins

Tilgangur sjóðsins er að bjóða félagsfólki VR fjölbreytta möguleika í orlofsmálum allan ársins hring á sanngjörnu verði. 

Til að ná þessu markmiði er sjóðnum heimilt að:

a) eiga eða leigja orlofshús/orlofsaðstöðu víðsvegar um landið og einnig erlendis ef það er hagstætt.
b) bjóða til sölu orlofstengdar vörur og þjónustu

Á aðalfundi VR er heimilt að ákveða að hluti af orlofssjóðsiðgjaldi félagsfólks renni í VR varasjóð og greiðist úr honum samkvæmt reglugerð VR varasjóðs.

4. gr. Tekjur sjóðsins

Tekjur sjóðsins eru:
a) iðgjöld atvinnurekenda samkvæmt gildandi kjarasamningi hverju sinni.
b) leigutekjur
c) sölutekjur
d) vaxtatekjur
e) aðrar tekjur er til falla

5. gr. Stjórn og rekstur

Stjórn VR er jafnframt stjórn sjóðsins og ber ábyrgð á afgreiðslum, útleigu og kaupum orlofshúsa ásamt öðrum fjárreiðum sjóðsins. Eftir aðalfund VR ár hvert skal stjórn VR fela fimm aðilum framkvæmdastjórn og tvo til vara til setu í framkvæmdastjórn Orlofssjóðs VR. Framkvæmdastjórn sjóðsins kýs sér sjálf formann og varaformann á fyrsta fundi hvers starfsárs.Framkvæmdastjórn sjóðsins heldur fundi svo oft sem þurfa þykir og skal það, er á fundunum gerist, skráð í sérstaka gerðarbók. Framkvæmdastjórn sjóðsins skal í störfum sínum hverju sinni taka mið af gildandi orlofsstefnu VR og starfsreglum Orlofssjóðs VR og leita sífellt nýrra leiða í orlofsþjónustu við félagsfólk VR til að koma sem best til móts við mismunandi þarfir þess.

Stjórn VR markar og samþykkir orlofsstefnu VR en framkvæmdastjórn sjóðsins setur sjóðnum starfsreglur og breytir þeim eftir því sem þurfa þykir.

Framkvæmdastjórn sjóðsins tekur ákvarðanir um daglegan rekstur og eignaumsjón sjóðsins í samráði við framkvæmdastjóra VR og starfsfólk. Allar meiriháttar ákvarðanir um fjármál og eignir sjóðsins verður framkvæmdastjórn sjóðsins að leggja fyrir stjórn VR til samþykktar.

Framkvæmdastjórn sjóðsins gerir tillögu um leigugjald fyrir gistingu sem sjóðurinn býður uppá til stjórnar VR sem tekur endanlega ákvörðun hverju sinni.

Skrifstofa VR sér um daglegan rekstur sjóðsins í umboði framkvæmdastjórnar sjóðsins.
Afgreiðsla sjóðsins er á öllum skrifstofum VR um landið.

6. gr. Ávöxtun sjóðsins og kostnaður við rekstur hans

Fjármuni sjóðsins skal ávaxta skv. 26. gr. laga VR. Allan beinan kostnað við rekstur sjóðsins ber sjóðurinn sjálfur

7. gr. Reikningar sjóðsins og endurskoðun

Ársreikning sjóðsins skal birta með reikningum VR og skal hann endurskoðaður með sama hætti og aðrir sjóðir VR.

Ársreikning sjóðsins skal leggja fram áritaðan af félagslegum skoðunarmönnum félagsins og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfund félagsins. Reikningsár sjóðsins er það sama og félagsins.

8. gr. Sjóðurinn lagður niður

Hætti sjóðurinn störfum eða ákvörðun tekin um að honum verði slitið færast eignir hans í félagasjóð VR.

9. gr. Gildistaka og breytingar á reglugerð

Reglugerð Orlofssjóðs VR tekur gildi frá og með 27. mars 2019. Reglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi VR og fer með slíkar breytingar eins og um breytingar á lögum VR væri að ræða sbr. 28. gr. laga VR.

 

(Samþykkt í stjórn VR 25. ágúst 1972. Breytingar á gr. 2 samþykktar á aðalfundi 24. apríl 2006. Breytingar á öllum greinum á aðalfundi 27. mars 2019).