Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, VR, var stofnað 27. janúar árið 1891 af launafólki og atvinnurekendum í verslunarstétt en hefur verið hreint félag launafólks frá árinu 1955.
Th. Thorsteinsson var fyrsti formaður félagsins en núverandi formaður er Halla Gunnarsdóttir sem tók við í desember 2024.
Saga VR
VR hefur gefið út Áfanga í sögu VR frá árinu 1955 til ársins 2003 þar sem er að finna ítarlegt yfirlit yfir réttindabaráttu VR.
Á síðustu árum hefur VR sameinast nokkrum verslunarmannafélögum (sjá um félagasvæðið).
- Þann 1. janúar 2004 kom sameining VR og Verslunarmannafélags Akraness til framkvæmda eftir tveggja ára samstarf.
- Árið 2006 sameinaðist VR Verslunarmannafélagi Hafnarfjarðar eftir eins árs samstarf.
- Árið 2007 sameinuðust VR og Verslunarmannafélag Vestmannaeyja á grundvelli samstarfssamnings sem undirritaður var 2005.
- Um mitt ár 2007 gekk einnig í gildi sameining VR og Verslunarmannafélags Vestur-Húnvetninga eftir eins árs samstarf.
- Í maí árið 2008 var tillaga um sameiningu við VR samþykkt á aðalfundi Verslunarmannafélags Austurlands.
- Í mars 2017 var tillaga um sameiningu við VR samþykkt á aðalfundi Verslunarmannafélags Suðurlands.
- Í apríl 2018 var tillaga um sameiningu við VR samþykkt á aðalfundi Verslunarmannafélags Suðurnesja.
Fyrstu árin var félagið lokaður karlaklúbbur en aldamótaárið 1900 var lögum félagsins breytt og konum heimiluð aðild að félaginu. Fyrsta konan sem gekk í VR var Laura Hansen í nóvember 1900.
Á árunum 1914 til 1918 virðist félagsstarf hafa legið að mestu niðri en starfsemin hefur verið órofin frá upphafi árs 1919. Árið 1955, þann 28. febrúar, var gert samkomulag um að atvinnurekendur gengju úr félaginu og síðan hefur VR verið hreint launþegafélag. Á aðalfundi félagsins árið 2006 var samþykkt tillaga um að breyta nafni félagsins úr Verzlunarmannafélag Reykjavíkur í VR.
Helstu áfangar í sögu VR frá árinu 1955
LÍV stofnað
Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) var stofnað 1957. Tilgangur þess var að efla samtök skrifstofu- og verslunarmanna, vera málsvari þeirra og hafa á hendi forustu í hagsmunamálum þeirra. Fyrsti formaður sambandsins var Sverrir Hermannsson.
Aðild að ASÍ
VR varð hreint launþegafélag 1955 sem og önnur verslunarmannafélög á landinu. Þau hefðu því átt að eiga greiðan aðgang að ASÍ, ekki síst þar sem VR var þá þegar orðið eitt fjölmennasta stéttarfélag landsins. Það gekk þó ekki þrautalaust fyrir sig og stóð baráttan um aðild LÍV að ASÍ frá 1959-1962. Stjórn ASÍ var mótfallin aðild LÍV að ASÍ. Eftir mikla baráttu fyrir dómstólum dæmdi félagsdómur LÍV í hag og árið 1964 sátu fulltrúar LÍV loks ASÍ-þing með fullum réttindum.
Aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði
Í byrjun árs 1966 háði VR kjarabaráttu. Meðal krafna sem barist var fyrir var aðild verslunar- og skrifstofufólks að atvinnuleysistryggingasjóði með sama hætti og aðrir launþegar innan ASÍ. Eftir að boðað var til allsherjarverkfalls um miðjan marsmánuð tókust samningar við vinnuveitendur og félagsmálaráðherra staðfesti að ríkisstjórnin myndi beita sér fyrir því að verslunar- og skrifstofufólk öðlaðist aðild að atvinnuleysistryggingum frá og með 1. janúar 1967.
Orlofssjóður stofnaður
Við gerð kjarasamninga 19. maí 1969 undirrituðu vinnuveitendur yfirlýsingu þess efnis að þeir myndu beita sér fyrir að samið yrði 1. júlí 1969 um 0,25% tillag í Orlofssjóð VR og LÍV. Við gerð samninganna 2. júlí 1970 var samkomulagið um greiðslur um sjóðinn fellt inn í samningana.
Sjúkrasjóður stofnaður
Sjúkrasjóður VR var stofnaður með tilvísan til laga nr. 19 frá 1. maí 1979, en þar segir svo í 7. gr.: „...Vinnuveitendur skulu greiða 1% af útborguðum launum verkafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélags". Þessir fjármunir mynda sjúkrasjóðinn. Fyrsta árið voru greiddar úr sjúkrasjóði 8.8 milljónir í bætur. Í fyrstu greiddi sjóðurinn einkum dánarbætur og sjúkradagpeninga eftir að greiðslum vinnuveitanda lauk, þ.e.a.s. til þeirra sem bjuggu við langvarandi veikindi. Síðan hefur sjóðurinn jafnt og þétt aukið tryggingavernd félagsmanna sinna og byggt á grundvelli þeirrar reynslu, sem fengist hefur.
-
- Stytting vinnuvikunnar úr 48 stundum í 38-40 stundir og úr 6 dögum í 5.
- Greiðslur í veikindaforföllum hafa lengst úr 3 mánuðum í 6 mánuði.
- Ákvæði um slysa- og örorkutryggingu í vinnutíma í kjarasamning.
- Ákvæði um lágmarkshvíldartíma í kjarasamning.
- Ákvæði um aðbúnað á vinnustað í kjarasamning.
- Orlof hefur aukist úr 18 dögum í 27-8 daga.
- Aukning á fæðingarorlofi í sex mánuði.
- Sjúkrasjóður VR greiddi fæðingarorlofsdagpeninga, allt að 80% af launum í sex mánuði í fæðingarorlofi frá 1999 þar til ríkissjóður tók yfir greiðslur í fæðingarorlofi þann 1. janúar 2001.
- Einnig hefur VR gefið út Áfanga í sögu VR frá árinu 1955 til ársins 2003 þar sem er að finna ítarlegt yfirlit yfir réttindabaráttu VR á árunum 1955 - 2003.