Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
ragnar_frettamynd3.jpg

VR blaðið - 11.10.2017

Staðan í kjaramálum

Vinna er hafin við að móta helstu kröfur okkar fyrir komandi kjarasamninga. Stjórn VR tók samtal um helstu hugmyndir að áherslumálum sem kjaramálanefnd VR mun svo vinna með ásamt því að kanna hug félagsmanna. Stjórn VR reið á vaðið og ályktaði um að ein af lykilkröfum félagsins fyrir komandi kjaraviðræður yrði að hækka persónuafslátt með það að markmiði að lágmarkslaun verði skattfrjáls. Þannig væri hægt að tryggja stöðugleika í bland við aukinn kaupmátt og vinna þannig til baka þær kaupmáttarkrónur sem ríkið hefur tekið í gegnum tekjutengingu vaxta, húsnæðis og barnabóta. Sigríður Lovísa Jónsdóttir stjórnarmaður í VR mun leiða vinnu nefndarinnar.

Önnur mál sem standa upp úr eftir samtal okkar í stjórninni og samtali mínu við félagsmenn er rík krafa um að við berum ekki ein þær stöðugleikabyrðar sem lagðar hafa verið á kjör hins almenna launamanns á meðan kjör annara stétta hafa rokið upp. Sérstaklega með tilliti til ákvörðunar kjararáðs um ríflega 45% hækkun launa embættismanna með afturvirkum milljóna eingreiðslum. Þegar ráðamenn þjóðarinnar láta slíkt óréttlæti viðgangast er ekki hægt að búast við öðru en hörðum viðbrögðum frá verkalýðshreyfingunni. Eftir höfðinu dansa jú limirnir. Einnig er rík krafa um leiðréttingu launa unga fólksins sem vinnur á skertum töxtum til 20 ára aldurs. Stytting vinnuvikunnar gæti einnig orðið að stóru máli í okkar kröfugerð sem og starfsmenntamál og slysakaflinn.

VR hefur á að skipa gríðarlega öflugu starfsfólki á öllum sviðum kjaramála sem hjálpar okkur að greina betur raunverulega stöðu félagsmanna okkar. Viðar Ingason hagfræðingur er einn þeirra og er hann búinn að reikna út mjög misjafna skiptingu kaupmáttar á meðaltekjuhópa og þeirra sem eru á leigumarkaði svo dæmi sé tekið. Viðar hefur unnið að gerð kaupmáttarreiknivélar sem tekur meðal annars tillit til skerðinga húsnæðis og barnabóta vegna tekjutenginga svo eitthvað sé nefnt ásamt húsnæðiskostnaði. Þessi vinna mun gefa okkur mun nákvæmari upplýsingar um þróun kaupmáttar en áður hefur þekkst og mun nýtast okkur vel gagnvart viðsemjendum okkar.

Þá höfum við rætt fjölmargar leiðir til að ná auknum kaupmætti í gegnum skattkerfið með áherslu á að persónuafsláttur fylgi vísitölu og verði stórefldur í átt að skattleysi lægstu tekna sem mun koma lág- og millitekjuhópum afar vel án þess að þrýsta upp verðbólgu. Einnig hafa komið fram hugmyndir um að barnabætur verði greiddar til barna en ekki tekjutengdar eins og húsnæðisbætur sem hafa gert það að verkum að ríkið étur upp flestar þær kaupmáttarkrónur sem aðilar vinnumarkaðarins hafa búið til í gegnum kjarasamninga síðustu ára. Það er skýlaus krafa um að þetta verði leiðrétt með einhverjum hætti.

Þótt kjarasamningar verði ekki lausir fyrr en 31. desember 2018 er endurskoðunarákvæði í febrúar 2017 þar sem viðsemjendur geta sagt kjarasamningum lausum ef tilteknar forsendur hafa ekki staðist. Þar með getur VR ekki sagt upp samningum einhliða þó töluverðar líkur séu á að þeim verði sagt upp.

Fall ríkisstjórnarinnar og komandi kosningar munu hafa mikil áhrif á framvindu komandi kjaraviðræðna. Mikil óvissa hefur skapast vegna þessa en vissulega eru mikil tækifæri líka sem felast í því að stéttarfélögin hafi áhrif á kosningabaráttuna og setja fram raunhæfar hugmyndir að lausnum sem flokkarnir geta tekið upp sem kosningamál.

Enn á margt eftir að gerast á vinnumarkaði og á sviði stjórnmála áður en hægt verður að fullmóta kröfur félagsins. Mörg stéttarfélög og opinberi geirinn eru með lausa samninga á næstu misserum og mun VR fylgjast náið með framvindu þeirra. Allar líkur eru á því að niðurstöður þeirra samninga munu hafa áhrif á kröfugerð okkar.

Ljóst er að mikil vinna er framundan hjá stjórn og starfsfólki VR.

Ragnar Þór Ingólfsson
Formaður VR

Grein birtist í 3. tölublaði VR 2017