Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_katrin_portret-1.jpg

VR blaðið - 28.03.2018

Náms- og starfsráðgjafi VR

Kristjana Katrín Þorgrímsdóttir er nýr náms- og starfsráðgjafa hjá VR og er verkefnastjóri diplómanáms í viðskiptafræði og verslunarstjórnun.

Hvert er hlutverk þitt sem verkefnastjóri námsins?
Ég hef umsjón með náms- og starfsráðgjöf fyrir nemendur í náminu. Í því getur falist að vera með einstaklingsviðtöl þar sem m.a. er unnið með styrkleika hvers og eins, aðstoð við skipulag í námi, ráðgjöf við lestraraðferðir og annað sem upp kann að koma. Ég get líka leiðbeint nemendum varðandi lífsvenjur sem geta stuðlað að betri einbeitingu í námi. Þá aðstoða ég nemendur við að samræma nám og starf sem getur verið flókið og krefst góðs skipulags. Einnig kem ég að utanumhaldi námsins og samskiptum við þá sem komu að uppbyggingu námsins og við háskólana báða, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst. Ég held áfram góðu samstarfi þar.

Skiptir máli að þú sért náms- og starfsráðgjafi?
Ég myndi segja það. Það skiptir miklu máli að koma til móts við nemendur á þeim stað þar sem þeir eru staddir hverju sinni. Einstaklingar eru ólíkir og koma úr mismunandi umhverfi. En allir koma þeir inn í námið með það að markmiði að bæta við menntun sína sem nýtist þeim í starfi á síbreytilegum starfsvettvangi. Náms- og starfsráðgjafar eru menntaðir í virkri hlustun, að sinna einstaklings- og hópráðgjöf, aðstoða einstaklinga við að ná fram sínu besta hjá sjálfum sér og takast á við áskoranir og mótlæti í daglegu lífi.

Hvers vegna ákvað VR að ráða náms- og starfsráðgjafa?
Ég reikna með að þeir hafi góða reynslu og þekkingu af starfi okkar. Menntun náms- og starfsráðgjafa og reynsla byggir á þeim grunni að miðla upplýsingum og aðstoða einstaklinga við að ná fram því besta og efla leiðtogahæfileika hvers og eins. Samvinna og góð samskiptahæfni er lykilatriði í okkar starfi og eins að veita ráðgjöf.

Hver er helsta nýjungin við námið?
Diplómanámið byggir á ítarlegri greiningu á starfi verslunarstjóra og er samstarfsverkefni Háskólans á Bifröst, Háskólans í Reykjavík og starfsmenntasjóðanna SVS og SV. Þeir sem vinna við verslunarstjórn þekkja stóran hluta af námsefninu vegna starfa sinna og ættu að geta tengt eigin reynslu við námsefnið. Í náminu fá nemendur einnig tækifæri til þess að auka við þekkingu sína sem kemur til með að nýtast fyrirtækjum.

Hvernig hefur námið gengið að þínu mati?
Það hefur gengið mjög vel. Þegar ég hóf störf núna í byrjun janúar var búið að leggja góðan grunn að þessu samstarfi sem kemur til með að halda áfram.

Þú ert sjálf í diplómanámi hjá Endurmenntun HÍ, hvernig gengur að samræma það við starf?
Það hefur gengið vel. Það kemur sér vel hve ég er skipulögð og nýti vel þann tíma sem ég hef til afnota. Stundum vildi ég óska að ég hefði meiri tíma til lestrar og verkefnavinnu. En aðalatriðið er að sætta sig við þann tíma sem maður hefur og nýta hann til hins ýtrasta. Fjölskyldan þarf að vera með í ráðum og það verður að skipuleggja þann tíma líka. Ýmislegt óvænt getur komið upp á í daglegu lífi og þá skiptir miklu máli að halda áfram og ekki gefast upp. Það er alltaf hægt að finna leiðir, leita sér aðstoðar og forðast að sitja uppi með vandann.

Hverjar eru helstu áskoranirnar við að vera í námi samhliða vinnu að þínu mati?
Menntun er skemmtun! Það skiptir miklu máli að hafa gaman af því sem þú ert að gera. Það er líka góð tilfinning að tengja fræðin við vinnuna, að setja í samhengi við hluti sem þú þekkir vel og bætir þig í starfi. Störfin breytast og þróast og þá er eins gott að fylgja þeirri þróun eftir með sveigjanleika og tileinka sér þær nýjungar sem upp koma hverju sinni.

Hvaða ráð myndir þú veita þeim sem eru að íhuga nám eftir langa fjarveru frá skólabekknum?
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það tekur tíma að koma sér af stað í námi eftir hlé. Gott er að gefa sér tíma og andrými til að setja sig aftur í „námsgírinn“. Það er eðlileg tilfinning að vera utangátta og þú ert ekki einn um að finnast þú vera það. Fólk talar bara ekki um það. Þá er um að gera að láta vita ef eitthvað er óljóst
því allar spurningar eru mikilvægar. Ekki sitja uppi með spurningar eða vangaveltur, það er alltaf hægt að finna leið sem hentar hverjum og einum. Svo má alltaf senda tölvupóst, hringja eða panta viðtalstíma hjá náms- og starfsráðgjafa. Breytingar eru til góðs en það er gott að vera meðvitaður um að gefa sér tíma því það tekur tíma að breyta venjum.

Geta félagsmenn VR óskað eftir ráðgjöf hjá þér?
Já, þeir geta það. Allir þeir sem eru að velta fyrir sér námi en vita ekki hvar er best að byrja eða hvar er hægt að finna upplýsingar geta sent mér tölvupóst á katrinth@vr.is eða hringt í mig í síma 510 1713. Það er alltaf hægt að finna leið og aðlaga nám að vinnu og fjölskyldulífi.

Viðtal birtist í 1. tölublaði VR blaðsins 2018