Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_teitur_portret-2.jpg

VR blaðið - 06.02.2018

Mikilvægt að allir nýti möguleika til starfsþróunar

Teitur Lárusson er formaður Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks og hefur gegnt þeirri stöðu í um þrjú ár. Teitur starfar einnig sem sérfræðingur á kjaramálasviði VR og er þar öllum hnútum kunnugur, hafandi starfað sjálfur að starfsmannamálum í um 50 ár, bæði sem starfsmannastjóri fyrirtækja og atvinnumiðlari. Hann segir mikinn ávinning felast í því að starfsfólki sé gert kleift að sækja sér menntun. Fjóla Helgadóttir settist niður með Teiti og spurði hann út í starfsmenntamál, helstu viðfangsefni kjaramálasviðs og málefni eldri félagsmanna VR.

HVERS VEGNA ER ENDURMENNTUN MIKILVÆG?

„Þróun starfsmenntamála seinustu ár hefur verið mjög hröð í takt við þarfir atvinnulífsins og samkeppni milli einstaklinga um að geta sinnt þeim kröfum sem nútímahæfni og þekking gera kröfu um. Í hörðum heimi mikillar samkeppni og hraðri þróun stafrænna möguleika þarf einstaklingurinn sífellt að læra og tileinka sér það nýjasta hverju sinni. Sá sem ekki sinnir endurmenntun á þekkingu sinni mun á endanum eiga minni möguleika á starfsframa og nýjum áskorunum. Þess vegna eiga allir að nýta sér þá möguleika sem bjóðast á markaðnum til að auka hæfni sína til þess að geta sinnt starfi sínu betur og þeim möguleikum sem bjóðast í framtíðinni.“ Teitur segir starfsfólk Starfsmenntasjóðsins óþreytandi við að hvetja sína sjóðsfélaga til að nýta sér alla þá möguleika til endurmenntunar sem völ er á. „Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks og Starfsmenntasjóður verslunarinnar hafa undanfarin ár miðlað töluvert miklum fjármunum til sjóðsfélaganna sinna og hvatt þá til að nýta sér alla möguleika til endurmenntunar. Stjórnir sjóðanna og frábærir starfsmenn þeirra leggja sig alla fram um að hvetja sjóðfélaga til að hafa frumkvæði að þróun endurmenntunar sinnar.“

HVERJU ÞARF FÓLK AÐ HUGA AÐ Í SINNI STARFSÞRÓUN?

„Til þess að sérhver einstaklingur geti eða eigi möguleika á því að þróast í starfi þarf sá hinn sami að vera tilbúinn til þess að taka að sér ný viðfangsefni hvort sem það er að axla aukna ábyrgð eða standa frammi fyrir nýjum ógnunum og áskorunum í mikilli samkeppni á markaðnum. Þess vegna verður sá einstaklingur sem hefur metnað til þess að ná árangri í starfi og eiga möguleika á starfsframa að vera móttækilegur fyrir breytingum á viðhorfum sínum á hinum ýmsu málum. Sá aðili sem hefur metnað til að þróast í starfi þarf að leggja töluvert á sig til að ná þeim markmiðum. Það má líkja þessu við íþróttamann sem skarar fram úr, hann æfir meira en hinir.“

STARFSMENNTASJÓÐUR VERSLUNAR- OG SKRIFSTOFUFÓLKS HÉLT NÝVERIÐ STÓRA RÁÐSTEFNU UM HVAÐ ÞAÐ ER SEM SKILGREINIR GÓÐA ÞJÓNUSTU. HVERS VEGNA SKIPTIR GÓÐ ÞJÓNUSTA MÁLI?

„Þjónusta er drifkraftur allra góðra samskipta og möguleika til þess að ná árangri og góðum tengslum við næsta mann. Skiptir þar engu hvort við erum að tala um viðskiptavininn, samstarfsmenn eða yfirhöfuð alla þá sem maður umgengst. Þess vegna verða allir að gera sér grein fyrir því að við verðum að tileinka okkur hugsunina um að veita góða og fagmannlega þjónustu í samskiptum við aðra. Það gerist ekki að sjálfu sér, maður þarf að tileinka sér þannig samskipti við aðra að sá sem við hittum í starfi okkar og leik finni að góð þjónusta byggist á virðingu og áhuga okkar á viðkomandi hverju sinni, þannig að upplifunin fari jafnvel fram úr væntingum hans.

STARFSMENNTASJÓÐURINN HEFUR ÞRÓAÐ NÁM Á HÁSKÓLASTIGI ÆTLAÐ VERSLUNARFÓLKI, HVERNIG VERÐUR NÁMINU HÁTTAÐ?

„Stjórn starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks vinnur hörðum höndum þessa dagana að því að þróa og undirbúa nám á háskólastigi í samráði við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Um er að ræða diplómanám í viðskiptafræði með áherslu á verslunarstjórnun og er stefnt að því að námið hefjist strax í byrjun næsta árs. Námið, sem er 60 ECTS einingar, er kennt með vinnu og mun taka tvö ár í dreifnámi. Námið byggir að hluta til á áföngum sem þegar eru kenndir til BS gráðu í viðskiptafræðum við Háskólann á Bifröst og í Háskólanum í Reykjavík. Einnig er að hluta til um nýja áfanga að ræða, sérstaklega þróaða með sérþarfir verslunarinnar í huga og með þátttöku lykilfyrirtækja í greininni. Á næsta ári mun sjóðurinn einnig halda áfram þróun starfsnáms fyrir starfsfólk í verslunum. Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks hefur mikinn metnað og frumkvæði að þróun náms fyrir félagsmenn sem starfa í verslunum þannig að á endanum sækist fólk eftir því að vinna í verslun.

HVER ERU HELSTU VIÐGANGSEFNIN HJÁ KJARAMÁLASVIÐI VR Í DAG? HAFA MÁLIN SEM KOMA INN Á BORÐ TIL YKKAR BREYST Í GEGNUM TÍÐINA?

„Viðfangsefnin hafa breyst mikið nú í seinni tíð m.a. vegna mikillar þenslu á vinnumarkaði. Má þar fyrst nefna hina miklu aukningu á erlendu vinnuafli og öllum þeim vandamálum sem að þeim snúa, margir þeirra þekkja ekki rétt sinn og oftar en ekki nýta sumir vinnuveitendur sér þessa vankunnáttu þeirra. Þau eru til dæmis látin vinna á svokölluðum jafnaðarlaunum sem eru ekki til í kjarasamningum VR og SA, þau vinna alla daga vikunnar, fá aldrei vikulegan frídag og svo mætti lengi telja. Nýjasta váin á vinnumarkaðnum er fjölgun svokallaðra starfsmannaleiga sem erfitt er að ná böndum yfir. Í sumum tilfellum er ekki um annað en mansal að ræða, greidd eru laun sem eru stundum undir lágmarkslaunum, vinnuveitandi leggur þeim til óviðunandi híbýli að búa í og ef einhver starfsmanna er með eitthvað múður hann er rekinn fyrirvaralaust og missir um leið það húsnæðið sem viðkomandi bjó í. Samskipti starfsmanna kjaramálasviðs við erlenda félagsmenn hafa stóraukist og eru í raun orðin mun meiri en áður þannig að starfsmenn sviðsins þurfa að tala erlend mál við nærri tvo af hverjum 10 sem leita eftir aðstoð og þjónustu á hverjum degi. Þá hefur vinnuumhverfið breyst nokkuð með tilkomu erlendra fyrirtækja sem hér hafa haslað sér völl hér undanfarin ár, þau eiga stundum erfitt með að skilja íslenska vinnulöggjöf og hver séu réttindi starfsmanna miðað við heimaland viðkomandi fyrirtækis.“

MÁLEFNI ELDRI FÉLAGSMANNA VR HAFA LENGI VERIÐ ÞÉR HUGLEIKIN, HVERNIG SÉRÐ ÞÚ FYRIR ÞÉR AÐ BÆTA MEGI HAG EFTIRLAUNAFÓLKS?

„Þegar rætt er um málefni eldri VR félaga er að mörgu að hyggja. Standa þarf vörð um lágmarkslaun eftirlaunafólks, tryggja rétt þeirra á lífeyri sínum hjá Lífeyrisjóðunum þannig að viðurkennt verði að Almannatryggingar hins opinbera séu fyrsta stoð lífeyris. Eign sérhvers félaga í lífeyrissjóði viðkomandi þarf síðan að vera önnur stoð hans. Með þeirri útfærslu munu kjör þeirra sem komnir eru á eftirlaun verða til þess að fólk getur með reisn staðið í báða fæturna og notið þess að hafa lokið ævistarfi sínu og lifað mannsæmandi lífi. Annað sem þarf að afnema eru skerðingar á eftirlaunum þeirra sem vilja auka tekjur sínar á efri árum. Af öllum þeim tekjum sem þetta fólk aflar er greiddur fullur skattur til hins opinbera. Það þriðja sem þarf að breyta eru takmarkanir á því hvenær fólk velur að hætta vinna, margir vilja og geta unnið allt fram til 75 ára aldurs í stað þess að þurfa að leggja árar í bát 67 ára. Þegar fólk á vinnumarkaði verður 70 ára hættir vinnuveitandi að greiða mótframlag í lífeyrissjóð. Það á að tryggja þessu fólki möguleika á að fá þessar greiðslur allar saman greiddar inn á séreignareikning viðkomandi ellegar að viðkomandi hækki í launum sem því nemur. Hvern munar ekki um 10 -11% kauphækkun?“ Til þess að sérhver einstaklingur geti eða eigi möguleika á því að þróast í starfi þarf sá hinn sami að vera tilbúinn til þess að taka að sér ný viðfangsefni hvort sem það er að axla aukna ábyrgð eða standa frammi fyrir nýjum ógnunum og áskorunum í mikilli samkeppni á markaðnum.

Viðtal birtist í 4. tölublaði VR blaðsins 2017