VR blaðið - 12.12.2017
Mikil pólitík í verkalýðshreyfingunni
Í byrjun árs tók nýr formaður við stjórnartaumunum hjá VR. Fjóla Helgadóttir settist niður með Ragnari Þór og ræddi fyrsta ár hans í formannssæti og um hvað er framundan.
Hvað hefur komið þér mest á óvart varðandi starf formanns?
„Það sem kom mér skemmtilega á óvart voru móttökur frá starfsfólki VR. Öll samskipti við starfsfólk hafa verið frábær og sú fagmennska sem hér ríkir; ég gæti ekki hrósað starfsfólki VR nógu mikið. Varðandi starfið sjálft hafa þessi átta ár sem ég sat í stjórn VR verið algert lykilatriði og mikilvægt að hafa þennan bakgrunn enda mikilvægt að læra inn á félagspólitíkina. Ég er búinn að sjá ótrúlega hluti gerast á þessum átta árum í stjórninni. Það er miklu meiri pólitík í verkalýðshreyfingunni en fólk gerir sér grein fyrir. Ég hef fengið mjög góðan hljómgrunn úti í samfélaginu en það eina sem mun ekki koma mér á óvart, og ég er alveg viss um að muni gerast,
er að það verður farið á móti mér í næstu kosningum. Það eru öfl innan verkalýðshreyfingarinnar sem vilja mig ekki en ég missi engan svefn yfir því, ég er alveg sáttur við það. Ég er hérna í umboði félagsmanna og var kosinn hingað inn. Ef það er ekki eftirspurn eftir mínum áherslum og því sem ég er að gera eftir eitt og hálft ár þá finn ég mér bara eitthvað annað að gera. Að sama skapi finnst mér þetta ótrúlega skemmtilegt og þetta starf á alveg svakalega vel við mig. Við höfum náð að koma flottum málum að eins og herferðinni um „þekktu þinn rétt“, kaupmáttarreiknivélinni og við í stjórninni höfum einnig verið að skoða byltingarkenndar hugmyndir í húsnæðismálum og þá hvort við eigum að koma að stofnun leigufélags en þetta er allt enn á hugmyndastigi.“
Upp hefur komið túlkunarágreiningur varðandi tilgreindu séreignina hjá lífeyrissjóðunum. Fjármálaeftirlitið hefur gefið út að tilgreindri séreign megi sjóðfélagar ráðstafa í þá sjóði sem þeir vilja en ASÍ vill fresta þeirri ákvörðun um ár og færa séreignina aftur yfir í samtryggingarhlutann. Hver er þín skoðun á þessu og hvernig muntu beita þér í þessum málum?
„Þetta er auðvitað frekar flókið mál og furðulegt af ASÍ að vilja flækja málin enn frekar fyrir fólki. Þetta gengur í raun út á það að fólk átti að hafa val hvort það setti þetta í samtryggingarhlutann eða væri með séreign. ASÍ vill fresta því að fólk hafi val hvernig það ráðstafar þessari viðbót og af því það er ekki búið að breyta lögunum þá vilja þeir færa þessa viðbót aftur yfir í samtryggingarhlutann til þess að pressa á ríkið að setja lögin. ASÍ ætti frekar að vinna í því að fá lögin í gegn í staðinn fyrir að taka þennan rétt af fólki. Það sem þeir vilja gera með þessu er að reyna að halda iðgjaldinu hjá almennu sjóðunum. Þeir eru hræddir um að sjóðfélagar fari með þetta aukaiðgjald til annarra lífeyrissjóða utan þess kerfis sem aðilar vinnumarkaðarins, SA og ASÍ, sjá um. Fjármálaeftirlitið er búið að gefa út hálfgerða tilskipun um að það megi ráðstafa þessu í hvaða sjóð sem er og er líka búið að gefa út að ASÍ geti ekki breytt þessu nema með því að breyta samþykktum lífeyrissjóðanna. Það þýðir einfaldlega að lífeyrissjóðirnir verða að starfa eftir reglum og leiðsögn FME og þurfa því að fara eftir þessu.
Hvað ættu félagsmenn VR að gera í stöðunni?
„Ég vil hvetja alla félagsmenn VR til að sniðganga þetta minnisblað ASÍ og fara í sinn lífeyrissjóð og færa bara þennan sparnað yfir í séreign eða til annarra sjóða og sniðganga álit ASÍ um að fresta þessu. Ég fór sjálfur daginn eftir að þetta bréf var birt og færði séreignina mína. Margir félagsmenn kusu með kjarasamningnum síðast af því að þeir gátu ráðið því hvað þeir gerðu við iðgjöldin. Þetta er klárt brot á þeim forsendum sem fólk taldi sig vera að kjósa með kjarasamningnum. Allir sem ég hef talað við af okkar félögum eru mjög óánægðir með þetta og hefðu mjög líklega ekki samþykkt samninginn ef þetta hefði ekki verið inn í honum. Það eru mjög margir eldri félagsmenn okkar mjög reiðir yfir þessu. Þetta er með öllu óskiljanlegt.“
Nú eru kjarasamningar lausir í febrúar, hvert verður framhaldið?
„Það er komin upp gríðarlega flókin staða því samningar eru að losna hjá hinu opinbera en Kennarasambandið er nú komið með sinn eigin Ragnar Þór (!) og verður áhugavert að fylgjast með þar. Ég held að ríkisstjórnin komi til með að gegna lykilhlutverki í komandi kjarasamningum en þau verða að koma með eitthvað að borðinu enda með ákvörðun Kjararáðs á herðunum og það er rosalega mikið reiði í samfélaginu vegna þess. Ríkið gerði stöðugleikasáttmála í síðustu kjarasamningum sem fól í sér að ákveðinnar hófsemi í launahækkunum yrði gætt en á sama tíma taka þau miklar hækkanir sjálf og fara engan veginn eftir því sem þau predika yfir öðrum. Það er því mikilvægt að koma á jafnvægi á vinnumarkaðnum og óvíst hvort það verður í formi vaxtalækkana, hækkunar persónuafsláttar eða hvort það komi með einhverju móti í gegnum skattkerfið, barnabæturnar eða húsnæðisbótakerfið. Nú er að fylgjast með og sjá hvaða áherslur ríkisstjórnin verður með í efnahagsmálunum og út frá því þurfum við að setjast niður.“
Hverjar myndu verða áherslur stjórnar VR í kjaraviðræðunum?
Við í stjórn VR viljum stefna að skattleysi lægstu launa, við viljum bæta kjör eldri félagsmanna og við viljum fara í að stytta vinnuvikuna. Að stytta vinnuvikuna gerir líf okkar fjölskylduvænna og betra. Við erum einnig að skoða hvort möguleiki væri á að veikindaréttur gæti teygt sig til veikinda foreldra enda oft sem fólk þarf að vera frá ef foreldrar þeirra veikjast. Svo er líka réttarvernd skammarlega lítil á Íslandi, til dæmis hjá þeim sem skulda. Ef fólk veikist þá er því bara ráðlagt að ráða sér lögfræðing gagnvart tryggingarfélögunum eða fjármálafyrirtækjum. Tíminn hjá lögfræðingi kostar nú bara 40 þúsund krónur. Það sér það hver maður að það er gersamlega galið að vísa fólki sem á í lánavanda til lögfræðinga. Þetta fólk á kannski ekki einu sinni fyrir mat. Neytendaréttur er gjörsamlega fótum troðinn hér á landi. Hvert sem maður lítur, hvort sem það er hjá fjármálafyrirtækjum, leigufélögum eða tryggingafélögum. Þetta er veruleikinn sem blasir við í dag og þetta er það sem ég tel að stéttarfélögin þurfi að berjast fyrir fyrir sína félagsmenn.“
Viðtal birtist í 4. tölublaði VR blaðsins 2017