VR blaðið - 19.03.2018
Leigufélag VR
Húsnæðiskostnaður og búsetuöryggi er eitt stærsta kjaramál okkar tíma og mikilvægt að VR sem stéttarfélag beini kröftum sínum til þessa málaflokks. Stjórn VR hefur um nokkurt skeið rætt möguleika þess að félagið stofni óhagnaðardrifið leigufélag með það að markmiði að bjóða lægri leigu en tíðkast á leigumarkaðnum eins og hann er í dag. Tillögur um slíkt leigufélag voru til umræðu á trúnaðarráðsfundi 12. febrúar sl. og samþykkti trúnaðarráð að stjórn VR héldi áfram að vinna að og gera áætlanir er varða leigufélagið. Stjórn VR samþykkti í framhaldinu á stjórnarfundi þann 20. febrúar sl. að stofna formlega leigufélag VR og hefja uppbyggingu þess.
Vonir standa til að með stofnun leigufélags VR geti félagið haft áhrif á leigumarkaðinn og hvatt önnur félagasamtök og lífeyrissjóði til að gera slíkt hið sama og þannig stuðlað að heilbrigðari leigumarkaði. Hugsunin er sú að félagið nýti Félagssjóð VR, sem telur um 10% heildareigna félagsins, í verkefnið og fjármunir VR verði notaðir til góðra verka með þessum hætti. Þess skal getið að aðrir sjóðir VR verða ekki notaðir í verkefnið en nokkuð hefur borið á því að rætt hafi verið um Sjúkrasjóð VR og Varasjóð félagsins í þessu samhengi en slíkt er að sjálfsögðu fráleitt.
Líkan af leigufélaginu hefur verið teiknað upp og kynningar hafa verið sendar til bæði banka og lífeyrissjóða. Þá hefur stjórn VR einnig athugað hvernig félagið stæði að kaupum á íbúðarblokk frá verktaka og hvernig slík kaup kæmu út miðað við kaup á markaði. Niðurstaðan væri sú að félagið gæti boðið allt að 15-30% lægri leigu og þar með meira öryggi til þeirra sem leigja af slíku félagi.
Líkan leigufélagsins byggir á því að félagið nái hagstæðri fjármögnun og leigan lækki til samræmis. Ef félagið byggir íbúðir sjálft og nær niður byggingarkostnaði eða fær einhvers konar ívilnanir með lóðaúthlutun þá njóta leigjendur góðs af því með lægri leigu. Úthlutun í leigufélagi VR væri í samræmi við aldursdreifingu eftir félagatali. Sem dæmi eru um 30% félagsmanna okkar á aldrinum 20-29 ára og yrði þá fjöldi íbúða í hlutfalli við það, eða 11 íbúðir af 40. Umframeftirspurn væri sinnt með því að draga innsend nöfn félagsmanna úr potti.
Okkar krafa um ávöxtun er alltaf sú sama. Krafan snýr ekki að markaðsaðstæðum á húsnæðismarkaði hverju sinni en aðstæður eru skelfilegar fyrir almenning um þessar mundir. Markaðsaðstæður eru aftur á móti gjöfular fyrir græðgisdrifna auðhringi sem svífast einskis til að græða sem mest á sem skemmstum tíma án þess að taka tillit til langtímahagsmuna heillrar þjóðar. Það sorglega er að mörg leigufélög virðast nýta sér þetta hörmulega ástand og eru dæmi um að fjölskyldum sé sagt upp leigu eingöngu til að fá boð um að halda svo áfram á 20% hærra verði eða hypja sig. Þessu viljum við breyta. Þessu verðum við að breyta!
Við í VR höfum fengið gríðarlega góð viðbrögð við þessari hugmynd þó aðdáendahópur þeirra sem hagnast hafa vel á ástandinu hafi ekki stækkað samhliða því. Má þar nefna Viðskiptablaðið sem er í eigu aðila sem hafa mikla hagsmuni af óbreyttu ástandi og hafa eytt heilsíðum í rakalausan þvætting um leigufélag VR til þess eins að tala verkefnið niður. Við hljótum að taka því sem einskæru hrósi og að við séum með þessu framtaki VR á hárréttri leið.
Við munum vafalítið finna fyrir frekari mótspyrnu kerfisins við þessum hugmyndum okkar en við verðum engu að síður að taka af skarið ef við ætlum að breyta þessu ástandi í stað þess að bíða það af okkur með hendur í skauti og vonast til að einhver annar geri það, eða markaðurinn lagist af sjálfu sér. Hugsunin með leigufélagi VR er að geta breytt til hins betra fyrir okkar félagsmenn og sýna í verki að við erum framsækin og gerum hlutina í stað þess að bíða eftir að aðrir geri þá fyrir okkur.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Grein birtist í 1. tölublaði VR blaðsins 2018