VR blaðið - 08.10.2018
Kulnun í starfi - Ábyrgð atvinnurekenda, eigenda og stjórnenda
Kulnun, streita og margskonar streitutengd heilsufarsvandamál fara vaxandi í samfélaginu og valda ekki aðeins vanlíðan og heilsubresti heldur einnig auknum kostnaði hjá fyrirtækjum, stofnunum og sjúkrasjóðum. Samkvæmt tölulegum upplýsingum sem liggja fyrir hérlendis og rannsóknum erlendis virðist aukningin vera mikil og víðtæk. Einföld skýring liggur ekki fyrir en fræðimenn velta vöngum yfir þessari aukningu. Líklegast er talið að þetta sé vegna breytinga á þjóðfélagsmynd og almennt auknum kröfum í samfélaginu. Auknum kröfum um aðgengi og samskipti. Kröfum fyrirtækja um meiri framleiðni, kröfum til stofnana um aukna skilvirkni og persónuvernd og auknum kröfum einstaklinga á sjálfa sig um framgangsríkt líf. Einnig er erfitt fyrir ungt fólk að komast í framtíðarhúsnæði og þjónusta við aldraða er ekki nægilega góð. Og millikynslóðirnar eru í mikilli vinnu til að afla tekna til að greiða upp skuldir frá hruninu en þurfa í leiðinni að styðja við bæði næstu kynslóð á undan og þá sem á eftir kemur. Allt þetta eykur álag á einstaklinga og í samfélaginu.
Aukningin í mælanlegri vanlíðan og veikindafjarveru vegna kulnunar er það mikil að sums staðar er talað um faraldur kulnunar. Það má segja að um sé að ræða sterka orðanotkun en ljóst er að auka verður skilning allra á þessari vá og bæta þekkingu og efla forvarnir. Enginn vill gróðrarstíu kulnunar á vinnustað.
Mikilvægt er að sporna við þessari þróun og berum við öll ábyrgð hvað það varðar. Þessi grein fjallar um ábyrgð vinnuveitenda, eigenda og stjórnenda fyrirtækja og stofnana.
Hagsmunir
Í verksmiðjum fortíðar vildu eigendur sem mesta framleiðni og lítil tillitssemi var gagnvart velferð vinnuaflsins. Verkefni breyttust, menntun jókst og tölvubyltingin breytti störfum sem urðu í auknum mæli huglæg með aukinni notkun heilans í stað verka sem kröfðust mest líkamlegrar orku. Hugmyndir breyttust og vinnuaflið varð mannauður. Kostnaðarsamara og erfiðara varð fyrir fyrirtæki að endurráða menntaðan starfsmann með langa starfsreynslu heldur en ómenntaðan við einföld störf. Vinnuverndarfræðin efldust og bentu m.a. á aukna hættu af slysum og mistökum vegna álags og síðar auknum kostnaði vegna veikindafjarveru. Nýjustu upplýsingar úr þessum fræðum benda á þann skaða sem hlýst af veikindanærveru, þ.e. þegar starfsmenn sem eru í raun óvinnufærir vegna kulnunar, mæta til vinnu, en eru ekki vel starfhæfir.
Einnig hafa rannsóknir bent á mikilvægi réttrar stjórnunar, stefnu og mannauðsverndar á vinnustað. Stjórnendur og eigendur eru þar í lykilstöðu og geta með ákvörðunum sínum, stefnumótun og sem fyrirmyndir, verndað góða líðan og heilsu starfsmanna. Í leiðinni verja þeir hag fyrirtækisins. Hagsmunir fyrirtækis og starfsmanns fara oftast saman hvað þetta varðar.
Forvarnir
Möguleikar stjórnenda til að beita vörnum gegn kulnun í starfi og efla heilsu eru meiri og fleiri en margan grunar. T.d. hefur stjórnunarstíll mjög mikil áhrif. Stjórnandi sem lætur sér annt um starfsfólk, vekur traust og er góð fyrirmynd um samspil vinnu og einkalífs hefur verulega mikil áhrif. Til eru margar rannsóknir sem sýna hve sterk þau eru. T.d. sýndi þekkt sænsk rannsókn fram á að ef starfsmenn hafa trú á yfirmanni sínum eru þeir í minni hættu á að fá hjartaáfall.
Þeir stjórnendur sem aðhyllast heilsueflandi stjórnunarhætti og skilja mikilvægi forvarna, sjá til þess að ekki myndist heilsuspillandi aðstæður á vinnustað. Þeir koma í veg fyrir að það myndist aðstæður fyrir vond samskipti s.s. óviðeigandi hegðun, kynbundið áreiti eða einelti sem alltaf leiða til vanlíðunar og oft heilsubrests og skertrar vinnugetu.
Þeir kunna líka að hindra ofurstreitu í vinnuskipulagi og að bregðast tafarlaust við fyrstu merkjum um kulnun. Stjórnendur taka einnig ákvarðanir um hvernig aðstæður eru á vinnustaðnum. Talsverð þekking er nú á því hvaða umhverfi hentar starfsemi best, t.d. opin rými og sveigjanleg vinnuaðstaða á skrifstofum og önnur fræði leggja á ráðin um bestu aðstæður í verksmiðju og þekkingarfyrirtækjum. Það er mikilvægt að stjórnendur átti sig á að á þessu sviði er nú til þekking byggð á sannreyndum vísindarannsóknum sem segja til um hvaða aðstæður eru bestar.
Þegar breytingar eru gerðar í rekstri fyrirtækja reynir það á alla, bæði stjórnendur og starfsfólk. Mikilvægt er að velja vel tímasetningu til þess og gera raunhæfar áætlanir varðandi tímamörk og veita starfsfólki góðar upplýsingar um breytingaferlið, markmið þess, framkvæmd og framtíðarsýn.
Þekking
Þekking er mikilvægasta vopn stjórnenda til forvarna gegn kulnun. Þeir þurfa sjálfir að þekkja til forvarnaaðgerða sem draga úr líkum á kulnun á vinnustað. Þeir eiga að kunna skil á fyrstu einkennum kulnunar og vita hvernig á að bregðast við með snemmtækri íhlutun. Og þeim ber að styðja vel við störf mannauðssérfræðinga og að fræða starfsfólk reglulega.
Á vinnustöðum þar sem mikið álag er til staðar er skynsamlegt að huga sérstaklega vel að starfsmönnum. Vitað er að margar starfsstéttir eru í aukinni hættu á kulnun. T.d. má nefna starfsfólk sem stundar vaktavinnu og þá sem þurfa að vera lengi fjarri heimilum sínu eða eru stöðugt í samskiptum og afgreiðslustörfum. Gera má streitumælingar reglulega og veita sérstaka forvarnafræðslu til þessara hópa.
Lög og skyldur
Í samræmi við vinnuverndarlög ber stjórnendum að sjá til þess að gerðar séu forvarnaáætlanir sem unnið er markvisst eftir til að efla sálfélagslegt umhverfi og auka vellíðan starfsmanna og draga úr líkum á kulnun. Þeir eiga líka að láta gera viðbragðsáætlanir sem eru virkjaðar samstundis ef kulnun eða sjúkleg streita greinist eða alvarlegir atburðir verða eins og einelti eða kynbundið ofbeldi.
Greining
Þegar grunur vaknar um kulnun er mikilvægt að greina vandann sem fyrst. Ráðgjafar eða meðferðaraðilar geta gert slíka greiningu og veita síðan ráðgjöf og meðferð til einstaklinga eins og þörf er á. Vitað er að árangur verður mun betri ef samvinna er við stjórnendur sem sjá til þess að góður skilningur á vandanum sé til staðar í nánasta starfsumhverfi starfsmannsins til að styðja við hann og starfsemina. Fyrstu viðbrögð, stuðningur, skilningur og snemmtæk ráðgjöf eða meðferð skiptir miklu máli við úrlausn á streitu eða kulnun á vinnustað.
Endurkoma til vinnu
Hvíld er mikilvægur þáttur í meðferð gegn kulnun og stundum þarf að senda starfsfólk í sjúkraleyfi í fáar til nokkrar vikur. Mikilvægt er þá að stjórnendur sjái til þess að starfsfólk verði ekki fyrir truflun heima. Eitt símtal frá vinnustað getur haft neikvæðar afleiðingar í för með sér og unnið gegn gagnsemi hvíldarinnar. Einnig verða stjórnendur að gæta þess að ekki hlaðist upp verkefni sem bíða starfsmannsins þegar hann kemur aftur til starfa. Það er mikilvægt að undirbúa vinnustaðinn fyrir endurkomu starfsmannsins svo vinna hefjist mjúklega, jafnvel í hlutastarfi til að byrja með. Í sjaldgæfum tilfellum fer kulnun á það alvarlegt stig að sjúkleg streita myndast með djúpstæðri og langvinnri skerðingu á vinnugetu og mun lengri veikindafjarveru. Viðbrögð stjórnenda ættu þá að vera með svipuðum hætti en í þessum tilfellum þarf að gera langtímaáætlun um starfsendurhæfingu við Virk eða aðra aðila sem taka að sér endurhæfingu vegna alvarlegs kulnunarástands eða sjúklegrar streitu. Það hefur sýnt sig að samvinna stjórnenda og fagaðila endurhæfingarinnar er lykilatriði svo góður árangur náist.
Framtíðin
Ljóst er að álag verður áfram mikið og það er mikilvægt að hvert og eitt okkar auki þekkingu sína á forvörnum gegn kulnun og kunni að bregðast rétt við ef einkenni koma fram.
Stjórnendur eru í lykilstöðu í samfélaginu til að efla forvarnir og bregðast rétt við kulnun. Áhrifavald þeirra er að öllum líkindum mikilvægara en þeir gera sér grein fyrir og harðasta baráttan gegn kulnun fer nú fram úti í samfélaginu, í fyrirtækjum og stofnunum, fremur en á sjúkrastofnunum heilbrigðiskerfisins.
Því er mikilvægt að stjórnendur fylgist vel með nýrri þekkingu á þessu sviði og geri sér grein fyrir því valdi sem felst í stöðu þeirra. Þannig geta þeir stuðlað að betri líðan og bættri heilsu. Þeir þurfa líka að hafa hugrekki til að taka af myndugleik á þessum málum innan fyrirtækjanna, vera góðar fyrirmyndir og efla umræðu og auka þekkingu.
Mælikvarðar á ofurálag og kulnunarhættu
- Aukin starfsmannavelta
- Aukin veikindafjarvera
- Dulin vandamál veikindanærveru
- Tíðari samskiptaerfiðleikar
- Ákvarðanafælni
- Þverrandi traust
- Kulnunareinkenni hjá millistjórnendum
- Fjarlægur stjórnandi
Greinin birtist í 3. tbl. VR blaðsins 2018 - Smelltu hér til að skoða blaðið