Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Ingrid

VR blaðið - 04.11.2022

Heilbrigð mörk á vinnustað ganga út á traust og virðingu

Ingrid Kuhlman skrifar:

Öll höfum við okkar mörk í samskiptum við annað fólk þó að við séum oft ómeðvituð um þau. Iðulega finnum við ekki hvar þau liggja fyrr en við upplifum að yfir þau sé gengið. Það að þekkja sín líkamlegu, andlegu og tilfinningalegu mörk getur komið í veg fyrir að við tökum of mikið að okkur, að ætlast sé til of mikils af okkur eða að komið sé fram við okkur á ósiðlegan eða ósanngjarnan hátt. Mörkin greina á milli þess sem við hugsum og þess sem okkur finnst og hugsana og tilfinninga annarra. Ýmis atriði geta hjálpað okkur við að skilja og vinna með þessi mörk sem við öll erum með og höfum þörf fyrir að séu virt.

Mismunandi tegundir

Líkamleg eða áþreifanleg mörk lúta að atriðum eins og snertingu og okkar persónulega rými, en það felur í sér ósýnileg mörk sem umlykja okkur í félagslegum samskiptum. Það eru ákveðin mörk þegar kemur að líkamanum, suma föðmum við en öðrum heilsum við með handabandi eða höldum lengra frá okkur. Líkamleg mörk okkar varðandi snertingar hafa líklega breyst eftir að heimsfaraldurinn hófst. Vinnurými okkar, eigur okkar og tíminn sem ákveðum að verja í að aðstoða aðra eru önnur dæmi um áþreifanleg mörk.

Andleg og tilfinningaleg mörk eru aftur á móti óáþreifanlegri. Andleg mörk varða hugsanir, gildi og skoðanir. Tilfinningaleg mörk aðgreina tilfinningar okkar frá tilfinningum annarra. Fólk með sterk andleg og tilfinningaleg mörk mun deila skoðunum sínum án þess að taka því persónulega þegar aðrir eru því ósammála. Það hefur sterka sjálfsmynd og sjálfsvirðingu, segir nei við óraunhæfum beiðnum og lætur í sér heyra þegar gengið er yfir mörk þess.

Hvers vegna er mikilvægt að setja mörk?

Skýr mörk hjálpa til við að skapa öryggi og vernda okkur með því að skýra hvað er á okkar ábyrgð og hvað er ábyrgð annarra. Þau hjálpa okkur að varðveita líkamlega og tilfinningalega orku. Gera okkur kleift að vinna eftir eigin gildum og finna hvar línur ásættanlegrar og óásættanlegrar hegðunar liggja.

Það er algengur misskilningur að skýr mörk fjarlægi okkur frá öðrum eða séu hindrun sem komi í veg fyrir góð samskipti. Sannleikurinn er sá að þegar við vitum hvar við endum og aðrir byrja, getum við átt í nánum samskiptum vegna þess að okkur finnst við vera örugg. Að hafa skýr mörk gagnvart yfirmanni og samstarfsmönnum stuðlar að aukinni ánægju í starfi, aukinni skilvirkni og auknum afköstum. Skýr mörk draga líka úr streitu.

Fagleg og persónuleg mörk

Á vinnustöðum er fjöldinn allur af faglegum mörkum en þau snúa fyrst og fremst að skipulagi og starfsskyldum. Það skiptir máli að stjórnendur skilgreini á skýran hátt hlutverk starfsmanna og ábyrgð. Starfsmenn ættu m.a. að geta svarað eftirfarandi spurningum:

  • Hvaða væntingar eru gerðar til mín?
  • Á hvaða verkefnum ber ég ábyrgð?
  • Hver ákveður forgangsröðunina?
  • Hver er minn næsti yfirmaður?
  • Hver úthlutar mér verkefnum?
  • Hver veitir mér endurgjöf og ræðir við mig um frammistöðu mína?

Þar að auki höfum við öll persónuleg mörk sem varða það sem við teljum ásættanlegt og ekki ásættanlegt í samskiptum og framkomu við samstarfsmenn og yfirmenn. Þau geta m.a.varðað:

  • tón, líkamstjáningu og orðalag sem við notum í samskiptum. Að samtöl á vinnustað séu til dæmis ekki móðgandi, særandi, of persónuleg eða óviðeigandi.
  • snertingar og líkamlega nálægð (persónulegt rými fólks).
  • viðhorf fólks í garð samstarfsfólks.
  • hvernig við högum okkur þegar við þurfum að vinna með fólki sem okkur semur ekki sérstaklega vel við.
  • aðstæður þar sem við þurfum að setja þeim mörk sem virða ekki mörk okkar.
  • að það séu skýrt skilgreindar afleiðingar þegar samstarfsmaður eða yfirmaður fer yfir okkar mörk.

Persónuleg mörk geta einnig hjálpað okkur við að halda heilbrigðu jafnvægi milli starfs og einkalífs. Þau geta m.a. falið í sér að skoða ekki vinnupóstinn heima, að skilja fartölvuna eftir í vinnunni eða að vinna ekki í fríum. Veik persónuleg mörk geta leitt til eineltis eða þess að gengið sé á lagið vegna þess að starfsmaður hefur ekki sett sér skýr mörk eða stendur ekki vörð um þau.

Valdamisræmi í samskiptum stjórnenda og starfsmanna

Í samskiptum stjórnenda og starfsmanna er ákveðið valdamisræmi fyrir hendi. Stjórnendur hafa vald stöðu sinnar vegna, sem hefur þær afleiðingar að starfsmenn hafa tilhneigingu til að fara eftir fyrirmælum þeirra. Það getur verið áskorun að setja mörk þegar yfirmaðurinn misnotar vald sitt, eins og t.d. þegar hann:

  • ætlast til of mikils af starfsmanni eða gerir óraunhæfar kröfur.
  • niðurlægir starfsmann fyrir framan vinnufélagana.
  • neyðir starfsmann til að vinna yfirvinnu oft í viku.
  • minnir starfsmann á að auðvelt sé að segja honum upp eða skipta honum út.
  • veitir ekki aðgengi að mikilvægum upplýsingum sem starfsmaður þarf að hafa til að sinna starfi sínu vel.
  • sýnir niðurlægjandi viðbrögð við spurningum starfsmanns.

Í slíkum aðstæðum er sérlega mikilvægt að vera meðvitaður um mörk sín og bregðast við af ábyrgð og festu. Að setja yfirmanni mörk getur þó verið áskorun þar sem hann getur haft mikil áhrif á dagleg verkefni, starfsánægju og framgöngu í starfi.

Mikilvægir þættir við að setja mörk

Eftirfarandi atriðum er gott að velta fyrir sér við að ákveða mörk:

  1. Vertu meðvitaður/-uð um eigin gildi og siðferði og hvaða mörk eru nauðsynleg til að stuðla að vellíðan í vinnunni. Hvernig líður þér þegar þú ert upp á þitt besta? Hvað fær þig til að blómstra? Hvað er nauðsynlegt fyrir þig til að ná hámarksframmistöðu?
  2. Þekktu þín eigin faglegu og persónulegu mörk. Í því felst m.a. að geta greint hversu langan tíma það muni taka þig að vinna verkefni eða hversu mikilli orku þú þurfir að verja í það. Einnig hvað þú telur ásættanlega og óásættanlega hegðun.
  3. Áttaðu þig á því sem stuðlar að vellíðan þinni almennt. Ef kvöldverður með fjölskyldunni er þér mikilvægur skaltu setja þau mörk að fara heim á ákveðnum tíma. Einnig getur verið gott að setja mörk vegna fjarvinnu eða vinnu heima. Þegar við erum alltaf í vinnunni og tökum okkur aldrei hlé er hætta á að við brennum út.
  4. Vertu heiðarleg/-ur og skýr við samstarfsmenn og yfirmenn um mörk þín. Betra er að segja þeim kurteislega fyrirfram að þú hafir ekki áhuga á að taka þátt í neikvæðri umræðu eða baktali eða svara tölvupóstum um helgar en að gera það eftir á.
  5. Við þurfum öll að bera ábyrgð á okkar eigin mörkum, t.d. með því að ræða það ef okkur finnst yfir þau gengið. Ræddu það eins fljótt og unnt er þegar einhver fer yfir mörk þín. Reynslan sýnir að því lengri tími sem líður frá broti á mörkum, þeim mun óskýrari verða þau. Sýndu samkennd – oft er fólk ekki meðvitað um hvernig hegðun þess hefur áhrif á aðra. Það mun jafnvel þakka þér fyrir hreinskilnina.
  6. Hafðu í huga að það er eðlilegt að það verði árekstrar og að það er ekki sjálfgefið að við höfum rétt fyrir okkur því við getum með okkar mörkum verið að ganga yfir mörk annarra.
  7. Að setja og halda mörkum krefst tíma og þjálfunar. Einhverntíma verður farið yfir mörk þín. Líttu á það sem tækifæri til að leiðbeina vinnufélögum.

Vettvangur vinnustaðarins

Þegar menningin á vinnustað er góð eru þessi mál rædd opinskátt og af virðingu. Engir tveir einstaklingar hafa sömu mörk og að ræða mörkin eykur skilning hjá öllum aðilum. Formleg starfsmannasamtöl eru góður vettvangur til að ræða þessi mál auk þess sem flestir vinnustaðir eru með stefnur og viðmið varðandi viðeigandi hegðun, eins og t.d. siðareglur, eineltisáætlanir, jafnréttisáætlanir o.fl.

Ein leið til að ræða mörk og samskipti á vinnustað er að taka þau til umfjöllunar og útbúa svokallaðan samskiptasáttmála. Hér er um að ræða krefjandi en jafnframt gefandi vinnu þar sem starfsmenn skiptast á skoðunum og ákveða hvernig samskiptum við vinnufélagana skuli háttað. Ávinningur slíkrar vinnu er m.a. sameiginlegur skilningur á góðum samskiptum, meiri vellíðan á vinnustað, aukin geta vinnustaðarins til að ræða málin og betri og árangursríkari samskipti.

Ingrid Kuhlman er leiðbeinandi og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun og með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði.

Greinin birtist fyrst í 2. tbl. VR blaðsins 2022. Smelltu hér til að lesa blaðið.