VR blaðið - 23.10.2024
Fjármálalæsi ungs fólks
Það að skilja fjármál, þekkja helstu hugtök og vera meðvituð um hvernig hlutirnir virka á vinnumarkaðnum skiptir miklu máli fyrir velsæld einstaklinga. Samkvæmt könnun Gallup og Samtaka fjármálafyrirtækja, sem gerð var fyrr á árinu er fjármálalæsi ungs fólks hér á landi of lítið og algeng skoðun að ungmenni ættu að læra um efnið á grunn- og framhaldsskólastigi.
VR hefur lengi lagt sitt af mörkum í fjármálalæsi ungs fólks og hefur boðið upp á kynningar um réttindi og skyldur á vinnumarkaðnum fyrir grunn- og framhaldsskóla í yfir 20 ár. Á síðasta skólaári heimsótti VR 70 grunnskóla á félagssvæðum sínum og hélt kynningu um réttindi og skyldur fyrir u.þ.b. 4.500 nemendur í 10. bekk. Kynning VR er orðin fastur liður í mörgum skólum en 98% grunnskóla á stórhöfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi fengu kynningu. Á Suðurnesjum fengu 70% grunnskóla kynningu, 73% grunnskóla á Suðurlandi og 58% grunnskóla á Austurlandi. Markmið kynninganna er að fræða ungt fólk og valdefla svo það sé meðvitaðra um rétt sinn og ólíklegra að hægt sé að beita það órétti á vinnumarkaðnum.
Nokkrir framhaldsskólar fengu einnig kynningu fyrir útskriftarhópa sína eða 40% af öllum framhaldsskólum á landinu. Það hefur verið vinsælla hjá framhaldsskólunum að fara í gegnum VR-Skóla lífsins en það er netnám sem fer yfir allt það helsta varðandi réttindi og skyldur á vinnumarkaðnum, ásamt góðum ráðum fyrir atvinnuleit, samskipti á vinnustað og fleira gagnlegt. Á síðasta skólaári fóru 834 nemendur í 12 framhaldsskólum í gegnum netnámið. VR-Skóli lífsins fagnar 10 ára afmæli á árinu 2024 og hefur verið með afmælisleik í gangi fyrir þá nemendur sem klára netnámið árið 2024. Til að vera með í leiknum þurfa nemendur að klára örstutta könnun um efnið eftir að hafa farið í gegnum netnámið en 92% svarenda segir að þau telji að VR-Skóli lífsins muni nýtast þeim vel.
Greinin birtist fyrst í 2. tbl. VR blaðsins 2024. Smelltu hér til að lesa blaðið.