Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
ragnar_vr_portret-3.jpg

VR blaðið - 10.10.2018

Ef við lyftum gólfinu, lyftist þakið með

Af hverju eiga menntaðir að berjast fyrir kjörum ómenntaðra og öfugt? Af hverju eiga hátekjuhópar að taka slaginn með lægri tekjuhópum? Af hverju í ósköpunum eiga þeir sem eru skuldlausir og séreignafólk að taka upp hanskann fyrir fólk á leigumarkaði?

Því er kerfisbundið haldið að okkur hvað sé á vettvangi stéttarfélaga að fjalla um og berjast fyrir. Orðræðustríðið hættir þó ekki þar, heldur er sífellt reynt að búa til gjá milli stétta, menntunar, launa og lífsgæða almennt.

Þessa umræðu þekki ég vel þar sem VR er það stéttarfélag sem er með hvað breiðastan hóp félagsmanna. Þeir sem hæst halda þessari orðræðu á lofti eru skósveinar viðsemjenda okkar en ekki félagsmennirnir sjálfir. Það er skiljanlegt að draumur atvinnurekenda sé að sundra samstöðu launafólks og mæra þá sem hafa grafið undan verkalýðshreyfingunni undanfarin ár og áratugi.

Þau réttindi sem við höfum í dag féllu svo sannarlega ekki af himnum ofan. Réttindi sem okkur finnast sjálfsögð í dag náðust fram með harðri baráttu og átökum og ekki síst með samstöðu heildarinnar.

Ef við lyftum þakinu lyftist gólfið með. Það þýðir að þó við sum sjáum ekki persónulegan hag okkar í kröfugerð hreyfingarinnar í dag þá getur það haft verulega jákvæð áhrif á hag okkar eða afkomenda til framtíðar. Það er mikilvægt að þétta öryggisnetið.

En hvar viljum við að gólfið verði? Skilaboðin eiga sérstaklega við þá sem hafa notið allra tækifæra og komist áfallalaust í gegnum lífið því það er því miður þannig að þó við höfum það gott og séum heppin þá er ekkert sem tryggir að börnin okkar og afkomendur verði það, og skiptir menntun engu máli í því samhengi.

Með börn á framfæri þekki ég og veit að það er ekkert sem tryggir að þau muni njóta sömu tækifæra og ég í lífinu hvort sem þau ná að mennta sig eða ekki. Mér hryllir við þeirri samfélagsmynd sem blasir við. Við erum að missa fjölda fólks á langvarandi örorku vegna álags, börnin okkar eiga ekki möguleika á að eignast þak yfir höfuð, í algjörlega sturluðu vaxtaokurs- og verðtryggingarumhverfi sem við búum við. Þúsundir félaga okkar, vina, bræðra og systra sem hafa flúið lífskjörin sem í boði eru á Íslandi eiga ekki afturkvæmt og spilar húsnæðismarkaðurinn þar stórt hlutverk ásamt því hversu dýrt er að lifa. Getum við kallað okkur velferðarsamfélag sem býr einstæðu tveggja barna foreldri herbergi í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði með aðgang að sameiginlegri eldunar- og salernisaðstöðu á 100 þúsund krónur á mánuði, sem er sambærilegt og íslensk fjölskylda er að borga fyrir raðhús í Bergen í Noregi með interneti?

Er staðan virkilega góð og án fordæma eins og stjórnmálamenn og talsmenn sérhagsmunaafla halda fram? Misskipting auðs og lífsgæða hefur aldrei verið meiri á Íslandi. En hvað eru lífsgæði? Eru lífsgæði að hlaupa sem hraðast á hamstrahjólinu til að borga af sem flestum fermetrum eða nýjasta bílnum? Eru það lífsgæði að slá um sig á samfélagsmiðlum þar sem flestir virðast lifa hinu fullkomna lífi? Innst inni vitum við að það eru ekki raunveruleg lífsgæði.

Þó vitum við að okkar uppgjöf er sigur þeirra sem hafa sett okkur hlutverk í mauraþúfunni með loforði um að með óbilandi þrælslund komumst við ofar og jafnvel á toppinn, sem aldrei verður.

Hvað ætlum við að gera í málunum? Ætlum við að skila samfélaginu til barnanna okkar með skilaboðunum: Þetta er ekki okkar vandamál. Ætlum við að taka þátt í því að byggja upp fyrirmyndarsamfélag sem við getum komið áfram til framtíðar kynslóða? Kynslóðirnar á undan hafa unnið marga sigra og aflað okkur þeirra réttinda sem við þekkjum í dag. Hvað ætlar okkar kynslóð að skilja eftir sig?

Sigrar fortíðarinnar voru ekki unnir af verkalýðsforingjum eða einstaklingum. Það var samtakamáttur heildarinnar sem vann stærstu sigrana. Alveg eins og við sem erum í forsvari fyrir verkalýðshreyfinguna verðum aldrei sterkari en fjöldinn sem er tilbúinn að fylgja okkur. Það er mikilvægt að skilja það að samstaða okkar hópa og stuðningur félagsmanna við þá sem tala fyrir þeirra hönd er samningsstaða okkar í hnotskurn. Samningsstaða okkar verður aldrei sterkari en fjöldi þeirra sem tilbúnir eru að fylgja okkur.

Uppgjöf er ekki valkostur! Saman erum við ósigrandi!