VR blaðið - 07.06.2018
Ákvað að taka stökkið
Viðtal við Ragnar Þór Ingólfsson formann VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er fæddur í Reykjavík þann 17. maí árið 1973, en þann sama dag er íþróttafélagið Leiknir í Breiðholti stofnað. Ragnar Þór ber sterkar taugar til hverfisins enda uppalinn Breiðhyltingur. Hann lærði snemma að svara fyrir sig, lágvaxni strákurinn sem kom sér oftar í vandræði en úr þeim með látunum. Fjóla Helgadóttir settist niður með Ragnari Þór og spurði hann út í æskuna, fyrsta starfið og hvers vegna hann bauð sig fram til formanns hjá stærsta stéttarfélagi landsins.
Úr Breiðholtinu
„Fyrstu æskuárin bjuggum við fjölskyldan á Írabakkanum í neðra Breiðholti en við fluttum þegar ég var mjög ungur upp í efra Breiðholt, í Austurbergið. Það var alveg ævintýralegt að fá að alast upp í Breiðholtinu á þessum tíma. Þaðan á ég stóran og góðan vinahóp sem heldur ennþá þéttu sambandi í dag. Það sem er svo frábært við Breiðholtið er að það er allt innan hverfisins. Það er öll þjónusta í göngufæri, verslun, skóli, fjölbrautarskóli, sundlaug, bókasafn, tónlistarskóli, íþróttahús og svo mætti áfram telja. Krakkar þurfa ekki að leita út úr hverfinu til að komast í sitt tómstundastarf. Þetta er líka svona í Árbænum þar sem ég bý núna og ég finn mikla samsvörun þar með Breiðholtinu, það er þessi góða uppbygging hverfisins og nálægðin við náttúruna sem er svo frábær. Við unnum við það í unglingavinnunni að gróðursetja trén og þann skóg sem er komin upp í brekkunum í kringum Breiðholtið, í þá daga var þetta bara auðn. Svo var stutt í indíánagilið í Elliðaárdalnum, það voru farnar ófáar ævintýraferðirnar þangað. Þegar maður elst upp í stóru hverfi og er með þeim minnstu í bekknum, þá þarf maður oft að hafa munninn fyrir neðan nefið og ég hef verið þekktur fyrir það að kjafta mig út úr alls konar aðstæðum, og líka í alls konar aðstæður! Ég var frekar seinþroska, byrjaði ekki að stækka fyrr en ég var um 17 ára svo ég var töluvert lægri í loftinu en hinir. Ég var kallaður Raggi litli en það fór aldrei í taugarnar á mér enda svo sem ekkert verra viðurnefni miðað við margt annað sem fólk var kallað.“
Dúx í félagslífinu
„Pabbi minn heitir Ingólfur Jónsson og var bifreiðastjóri hjá Ölgerðinni í 25 ár og starfaði síðustu ár í innkaupum og sölu hjá Búr sem er í eigu Innnes. Mamma heitir Dagný Guðmundsdóttir og starfaði í 40 ár sem sjúkraliði á Barnaspítalanum og svo á bráðamóttöku barna en þau eru bæði nýlega hætt að vinna. Þegar ég var krakki var ekki óalgengt þegar langveik börn voru að koma til Reykjavíkur til meðferðar að starfsfólkið tók að sér börnin og voru kannski að passa meðan foreldrarnir þurftu að útrétta eða annað og mér fannst alltaf gaman þegar börn voru í heimsókn heima hjá okkur og ég lék mér við mörg þeirra. Svo var toppurinn að fá að fara á sumrin með pabba á bílnum, mig minnir að það hafi verið farið til Akraness á mánudögum og til Keflavíkur á þriðjudögum og lengri túrarnir eins og á Snæfellsnesið og á Kirkjubæjarklaustur voru farnir á fimmtudögum af því að þá þurfti kannski að gista. Maður fékk að gefa krökkunum límmiða þegar maður kom í plássin þegar þau hópuðust að bílnum og það fannst manni alveg æðislegt sport. Svo spillti ekki fyrir að maður fékk náttúrulega nóg af gosi og lakkrís en þeir keyrðu líka út fyrir lakkrísgerðina Drift og Ingólfur gamli sem átti lakkrísgerðina gaf manni oft poka af lakkrísendum og afskurði.
Mamma og pabbi áttu sitthvora dótturina áður en ég kom til sögunnar og við Vigdís systir ólumst upp saman en Harpa systir ólst upp á Höfn í Hornafirði. Ég held það sé alveg óhætt að segja að þær hafi fengið allt það besta sem hægt er að fá. Þær eru yndislegustu manneskjur sem ég þekki en ég held aftur á móti að ég hafi fengið aggressívu genin. Þær eru báðar mjög vel menntaðar og eru örugglega með fleiri háskólagráður en Georg Bjarnfreðarson! Þær eru tvímælalaust fyrirmyndir mínar í lífinu ásamt mömmu og pabba. Ég var mjög fyrirferðarmikill sem krakki og hef líklega verið eins og slæm umgangspest að búa með, sérstaklega fyrir eldri systur. Ég hefði sjálfsagt fengið einhverjar greiningar ef það hefði verið komið á þessum tíma. Ég byrjaði ungur að spila á potta og tromma með barbídótinu hennar Dísu systur og fékk góða útrás með því svo foreldrar mínir keyptu handa mér trommur sem voru settar út í bílskúr. Ég var í bílskúrsböndum á unglingsárunum og tók nokkur stig á slagverk í FÍH. Tónlist hefur alltaf verið stór partur af lífi mínu en ég kenndi sjálfum mér að spila á gítar og píanó.
Ég fór í Fjölbrautarskólann í Breiðholti eftir 9. bekkinn en kláraði ekki. Ég var miklu virkari í félagslífinu heldur en nokkurn tímann í náminu, sat í nemendaráði og fullt af nefndum og hafði einnig gert þegar ég var í Hólabrekkuskóla. Ef ég hefði átt að útskrifast eða brillera sem dúx í einhverju þá hefði það verið í félagslífinu. Ég var í skemmtinefndinni, spilaði í skólahljómsveitum og sat í útvarpsnefnd þegar Útrás, útvarpsstöð framhaldsskólanema, var komið á laggirnar. Ég var góður í því sem ég hafði áhuga á, stærðfræðinni og raungreinunum en annað komst ekki inn á radarinn. Ég hefði alveg getað klárað námið en ég hafði bara ekki áhugann og þetta átti bara ekki við mig. Ég hef verið duglegur að lesa mér til og kynna mér það sem ég hef áhuga á og þó ég hafi ekki gráðu held ég að ég sé ekkert illa að mér í mörgu af því sem er að gerast í okkar þjóðfélagi og ég hef alltaf passað mig á að kynna mér hlutina vel og vera ekki að mynda mér skoðun nema þekkja vel til.“
Verkstæðisstrákur verður sölustjóri
„Þegar ég er að flosna upp úr framhaldsskólanum, í kringum 1992, fer ég að vinna með skólanum í Erninum. Fyrsta sumarið var ég að vinna á verkstæðinu og við vorum oft að gera við langt fram eftir kvöldi og næturlangt stundum. Svo fór ég að setja saman hjól og eftir tvö, þrjú sumur minnir mig, fékk ég að leysa aðeins af í búðinni og þá komu svolítið í ljós mínir hæfileikar, að eiga í samskiptum við fólk og þessi sölumennska sem virtist mér í blóð borin. Áður en leið á löngu var ég orðinn fastur í búðinni sem mér fannst ofboðslega skemmtilegt. Svo vinn ég mig upp í sölustjórastöðu, ég fer að panta inn vörur og fyrirtækið stækkar og búðin og það verður mikil uppbygging. Þetta var ótrúlega góður tími og gaman að fá að taka þátt í þessu. Jón Pétur og Jóna, eigendur Arnarins, eru alveg ofboðslega duglegt fólk og heiðarlegt og ég lít á þau sem mína aðra fjölskyldu, mér þykir ótrúlega vænt um þau og fyrirtækið auðvitað líka.
Ég fer að skrifa um lífeyrissjóðakerfið í kjölfar vinamissis árið 2007 og í framhaldi af því býð ég mig fram til stjórnar VR árið 2009. Ég tók þátt í búsáhaldabyltingunni og var virkur í grasrótinni eftir hrun. Ég vann hjá Erninum í næstum 25 ár, það vantaði bara nokkra mánuði upp á þegar ég hætti. Á þessum tímapunkti þurfti ég bara að hrökkva eða stökkva og ég ákvað að taka stökkið. Ég var búinn að vera í stjórn VR í átta ár og ég var búinn að tala fyrir því að það væri hámarkstími sem hægt væri að sitja í svona stjórnum. Ef þú nærð ekki þínum markmiðum á þessum tíma þá er bara tímabært að hleypa öðrum að. En ég var heldur ekki alveg tilbúinn til þess að hætta og ákvað því að bjóða mig fram til formanns VR. Ég hefði aldrei fyrirgefið sjálfum mér ef ég hefði ekki farið í þessa baráttu og vitað af þessu handónýta kerfi sem væri að vinna gegn möguleikum barnanna minna þegar þau eru orðin uppkomin. Skilaboðin til þeirra eru og verða: „Ég reyndi allt sem ég gat til að breyta þessu kerfi“. Vonandi tekst mér það og ef það tekst ekki þá get ég allavega sagt að ég reyndi allt og ég gaf mig allan í það og það eru skilaboð sem ég vil senda fólki almennt. Við erum ósigrandi ef við stöndum saman. Við erum landið og þjóðin, ekki einhverjar fámennar klíkur. Ég er líka bara venjulegur maður og ég gæti ekki verið í þessari stöðu sem ég er í ef ég tæki inn á mig mótlæti. Það hefur engin áhrif á mig og snertir mig ekki neitt að fólk kalli mig öllum illum nöfnum eða gagnrýni mig. Ég sef allavega eins og ungbarn á næturna.“
Tapaði atkvæðagreiðslunni um hundinn
„Ég á þrjú börn með fyrrum sambýliskonu minni, Guðbjörgu, og tvö fósturbörn en sambýliskona mín, sem vill svo skemmtilega til að heitir einnig Guðbjörg, átti tvö börn fyrir okkar samband. Þetta er svona hefðbundið blandað fjölskyldumynstur. Daði Már er að verða 18 ára í júní, Daníel Dúi er 14 ára, Logi er 10 ára, Sóley er 9 ára og Emma Lísa er 6 ára. Svo púslum við þessu saman eins og gengur og gerist með svona blandaðar fjölskyldur. Þetta getur verið áskorun en hefur gengið merkilega vel. Það eina sem við Guðbjörg eigum saman er lítill hundur sem heitir David Bowie, kallaður Bowie. Ég vildi nú fyrst ekki fá hund inn á heimilið en þetta var sett í atkvæðagreiðslu sem tapaðist sex á móti einum. Þannig að ég þurfti að fara eftir lýðræðislegri niðurstöðu og núna er Bowie bara einn af genginu. Guðbjörg mín er grunnskólakennari og er virk í starfi Vinstri grænna. Hún situr einnig í stjórn Kennarafélags Reykjavíkur svo að þessi pólitík er hálfsmitandi virðist vera. Við Guðbjörg hjólum mikið saman en það var óumflýjanlegt fyrir mig að smitast af hjólabakteríunni þegar ég var að vinna í Erninum. Ég hef ferðast mikið og hjólað erlendis og það er það skemmtilegasta sem ég geri. Við Guðbjörg höfum hjólað í Vattern í Svíþjóð þar sem er haldinn risastór hjólaviðburður. Þar er farin 300 km leið í einni beit og vorum við um 13 tíma að hjóla það. Svo höfum við hjólað í Króatíu með vinafólki okkar og höfum hjólað með vinum okkar upp í bústað en þangað eru um 130 km, tökum bara daginn í þetta og höfum gaman af. Svo hefur elsti strákurinn minn tekið þátt í WOW Cyclothon með Hjólakrafti og ég studdi það verkefni og fékk að taka þátt í því með Valda í Hjólakrafti í gegnum starf mitt hjá Erninum. Það er eitt af því skemmtilegasta sem ég hef tekið þátt í og er virkilega flott verkefni. Síðan stækkaði þetta og maður fylgdist með á hliðarlínunni. Við erum líka alveg í því að fara með yngri krakkana út að hjóla stífluhringinn. Það er yndislegt að geta farið hérna örstutt heiman frá sér og vera komin út í náttúruna í Elliðaárdalnum. Svo er líka alveg geggjað að fara á fjallahjólinu upp í Heiðmörk eða fara Reykjavíkurhringinn. Þegar ég byrjaði í hjólabransanum á sínum tíma þá gat ég talið þá sem hjóluðu á veturna á fingrum annarrar handar. Þeir voru það fáir að maður þekkti þá með nöfnum. Þetta voru taldir furðufuglar, fólk keyrði framhjá einhverjum sem var að nota hjól sem samgöngutæki og hugsaði bara „Vá, þessi er eitthvað skrítinn!“. Það er því mikið gleðiefni að samgönguhjólreiðar séu orðnar þetta stórar á Íslandi og ég sé ekkert nema gott við það. Ég reyni sjálfur að hjóla stundum í vinnuna en það er aðeins erfiðara en ég reiknaði með út af öllum þessum fundum út og suður. Það er óhætt að segja að hjólreiðar séu mín hugleiðsla. Ég hef prófað hefðbundna hugleiðslu í einni hjólaferðinni úti í Asíu. Það var einn í hópnum sem var með hugleiðslu á hverjum morgni áður en við byrjuðum að hjóla en það átti ekki vel við mig, þá fyrst fer allt á yfirsnúning þegar ég á vera að hreinsa hugann. En þegar ég er á hjólinu get ég kúplað mig út og tæmt hugann og fengið þessa langþráðu hvíld frá kollinum.“
Hvað er framundan?
„Framundan eru líklegast einar erfiðustu kjaraviðræður sem hafa átt sér stað í áratugi. Það þarf að eiga samtal við stjórnvöld og atvinnulífið og óumflýjanlegt er líka uppgjör innan okkar raða til þess að það sé hægt að halda áfram. Ég vonast til þess að þessar gríðarlegu miklu breytingar sem hafa orðið á forystunni, þessi sögulegu tíðindi, verði til þess að þjappa saman hreyfingunni. Það eru verkefni næstu missera að þétta raðirnar og láta uppgjörið fara fram. Hugsanlega verður það ekki fyrr en í haust á næsta ASÍ þingi, en það væri best ef það væri eins fljótt og hægt er. Þannig er hægt að vinna að nýjum áherslum og nýr hópur geti fengið vinnufrið til þess. Þá er einnig mikilvægt að fá áheyrn hjá ríkisstjórninni og Samtökum atvinnulífsins svo við getum mögulega náð langtímasamningi fyrir áramót, án átaka. Það væri draumurinn.“
Viðtal birtist í 2. tölublaði VR blaðsins 2018