VR blaðið - 20.10.2017
7% félagsmanna með erlent ríkisfang
Starfsmönnum með erlent ríkisfang hefur fjölgað mikið á íslenskum vinnumarkaði síðustu ár, í nánast öllum atvinnugreinum og stéttarfélögum. Samkvæmt áætlun Vinnumálastofnunar voru um 12% starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði á fyrri hluta þessa árs erlendir. Félagsmenn VR með erlent ríkisfang voru alls 7% af heildarfjölda félagsmanna.
Árið 1990 voru félagsmenn VR innan við sextán þúsund. Langstærsti hópurinn hafði íslenskt ríkisfang og félagsmenn með erlent ríkisfang voru innan við 1%. Þannig var staðan í nokkur ár og það var ekki fyrr en árið 2006 sem hlutfallið fór yfir 2%. Frá þeim tíma hefur hlutfall félagsmanna með erlent ríkisfang hins vegar aukist ár frá ári, að hrunárunum undanskildum. Í ljósi þessarar þróunar stendur VR nú fyrir herferðinni „Þekktu þinn rétt“ þar sem helstu réttindi á vinnumarkaði eru kynnt á mörgum tungumálum. Sjá nánar hér.
Yngri félagsmenn fjölmennastir
Nær annar hver erlendur félagsmaður í VR á fyrri hluta þessa árs er á aldrinum 25 – 34 ára. Þessi aldurshópur hefur frá upphafi verið fjölmennastur í hópi erlendra félagsmanna og hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár frá því að vera þriðjungur erlendra félagsmanna árið 1990. Fæstir erlendra félagsmanna eru í elsta hópnum, 55 ára eða eldri, eða um 4% á fyrri hluta ársins. Ef við skoðum hins vegar aldursskiptinguna í félaginu öllu, burtséð frá ríkisfangi, sést að yngsti hópurinn, undir 25 ára að aldri, er fjölmennastur eða 30% á fyrri helmingi ársins. Þessi hópur hefur löngum verið stærstur en er hlutfallslega minni núna en árið 1990. Elsti hópurinn hefur bætt við sig svo um munar, árið 1990 voru félagsmenn 55 ára og eldri 9% allra félagsmanna en eru núna um 14%. Á töflunni má sjá aldursskiptingu annars vegar hjá félagsmönnum með íslenskt ríkisfang og hins vegar með erlent ríkisfang.
Steinunn Böðvarsdóttir
Fagstjóri rannsókna og greininga
Grein birtist í 3. tölublaði VR 2017