Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
VR006.jpg

Launakönnun - 10.07.2017

Aukin fræðsla skilar ávinningi

Fræðsla skilar sér í fleiri tækifærum á vinnumarkaði, gerir vinnuna áhugaverðari, eykur sjálfstraust starfsmanna og verðmæti þeirra fyrir vinnustaðinn. Aukin fræðsla virðist hins vegar ekki skila eins miklum ávinningi þegar kemur að launum. Þetta má lesa úr niðurstöðum launakönnunar VR fyrir árið 2017 en þær voru birtar í vor (sjá ítarlega umfjöllun).

Í könnuninni fékk helmingur svarenda spurningar um fræðslumál, meðal annars hvort þeir hefðu fengið starfstengda fræðslu eða þjálfun á árinu 2016. Þrír af hverjum fjórum af þeim sem fengu fræðslutengdar spurningar höfðu sótt einhverjar fræðslu sem tengdist starfinu, t.d. fyrirlestur, ráðstefnu eða námskeið, hlustað á erindi á netinu eða fengið annars konar menntun eða þjálfun. Flestir sóttu fyrirlestur eða námskeið tengt starfinu en um þriðjungur hlustaði á fræðsluerindi á netinu. Svarendur fengu sjö valkosti í þessari spurningu og má sjá þá á myndinni. Í um helmingi tilfella var fræðslan að stærstum hluta að frumkvæði starfsmannsins en greitt af fyrirtækinu í um 70% tilfella.

 

 

Meira sjálfstraust og fleiri tækifæri 

Um sjö af hverjum tíu sem sóttu sér fræðslu á árinu 2016 sögðu í könnuninni að sú fræðsla hafi gert þá að verðmætari starfsmönnum fyrir fyrirtækið og á það einkum við um stjórnendur. Tveir af hverjum þremur sögðu að fræðslan hefði gert vinnuna áhugaverðari og svipað hlutfall að sjálfstraust þeirra hefði aukist með meiri fræðslu. Þá sagði um helmingur svarenda að fræðslan hafi aukið tækifæri þeirra á vinnumarkaði og eru stjórnendur hæstir hvað þetta varðar.

Fræðslan skilaði hins vegar ekki mikilli hækkun launa, að því er þeir sögðu sem sóttu sér einhverja fræðslu.
Í könnuninni var spurt í hve miklum eða litlum mæli fræðslan sem viðkomandi sótti á árinu 2016 hafi hækkað launin. Aðeins 13% sögðu að fræðslan hafi skilar þeim mikilli launahækkun en 42% að hækkunin hafi verið mjög lítil. Þegar litið er til atvinnugreina má sjá að fræðsla skilaði síst launahækkun til starfsfólks hjá fyrirtækjum í samgöngum og ferðaþjónustu.

40% þurfa meiri fræðslu í tengslum við starfið

Rúmlega fjórir af hverjum tíu , eða 43%, sögðust hafa mikla þörf fyrir viðbótarmenntun eða fræðslu í tengslum við núverandi starf sitt en 19% að þörfin væri lítil. Eftir því sem menntunin var meiri og launin hærri því líklegra var að viðkomandi taldi sig þurfa meiri fræðslu eða menntun. Það á einnig við um stöðu innan fyrirtækja, þeir sem voru í hærri stöðum töldu frekar þörf á aukinni menntun.