Launakönnun - 12.02.2015
Auðvitað eru forsendur fyrir góðri launahækkun!
Síðustu mánuði höfum við, launafólk á almennum vinnumarkaði, fylgst með því þegar tilteknir hópar hjá hinu opinbera hafa fengið ríflegar launahækkanir, prósentuhækkanir sem við höfum aldrei séð í okkar samningum. Rökin eru m.a. þau að hér sé um leiðréttingu að ræða, að störfin séu svo mikilvæg eða eitthvað álíka. Hér virðist svigrúmið engu skipta. Þegar við á hinum almenna vinnumarkaði ræðum okkar launamál hins vegar, er annað uppi á teningnum. Þá hlaupa allir upp til handa og fóta, svigrúmið er lítið og óðaverðbólga framundan.
Verðbólga er EKKI óhjákvæmilegur fylgifiskur launahækkana
En hvað segir sagan okkur? Hafa launahækkanir í kjarasamningum síðustu ára haft úrslitaáhrif á hækkun verðlags? Í ítarlegri umfjöllun á vef VR (sjá hér) sýnir hagfræðingur VR svart á hvítu hvaða áhrif kjarasamningsbundnar launahækkanir hafa haft á þróun verðlags frá aldamótum. Niðurstaðan er einfaldlega sú að áhrif þeirra eru almennt mun minni en haldið er á lofti í þeirri umræðu sem nú er í þjóðfélaginu. Ef áhrif launahækkana væru á þann veg sem atvinnurekendur vilja telja okkur trú um væri verðbólgan í dag mun hærri en raunin er. Aðrir þættir, sérstaklega gengisþróun og olíuverð, hafa mun meiri áhrif á verðbólguna en nokkurn tíma launahækkanir í kjarasamningum. Við skulum hafa þetta í huga þegar við ræðum hvaða svigrúm er til launahækkana á almennum markaði.
Launahækkun er líka tekjuauki fyrirtækja
Við verðum að huga að því að laun eru ekki bara kostnaður fyrirtækja heldur tekjur þeirra. Um 80% launa okkar fara í neyslu. Launahækkun leiðir því til aukinnar einkaneyslu sem aftur skilar auknum tekjum til fyrirtækjanna. Um leið og laun hækka, grípa því miður of mörg fyrirtæki til þess ráðs að hækka verð á vörum og þjónustu samsvarandi, krónu fyrir krónu. Það eru engar forsendur fyrir slíkri hækkun – laun eru ekki 100% rekstrarkostnaðar fyrirtækja - og óásættanlegt að fyrirtæki hagi sér með þeim hætti.
Kröfugerð VR lögð fram - sanngirni að leiðarljósi
Launahækkanir síðustu misseri á hinum opinbera markaði hafa að sjálfsögðu áhrif á þær kröfur sem stéttarfélög á almennum vinnumarkaði gera í komandi samningum. Það gefur auga leið. Í nýrri könnun meðal félagsmanna VR vill mikill meirihluti beinar kauphækkanir og aukinn kaupmátt. Við viljum finna fyrir því í veskinu að ráðstöfunartekjur okkar hafi aukist, það dugar ekki að lýsa því yfir að kaupmáttur hafi aukist ef enginn finnur fyrir því.
Á morgun, föstudag, leggur VR fram launalið kröfugerðar sinnar þar sem áhersla er lögð á leiðréttingu á launum félagsmanna. Sanngirni verður að ráða því hvernig við skiptum þjóðarkökunni. Við krefjumst þess að komið verði fram við okkur með sömu virðingu og aðra.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR