Greinar - 25.06.2018
Er sjálfsmyndin í hættu?
Af hverju líður okkur eins og okkur líður? Áhrif streitu á sjálfsmyndina eru oft vanmetin.
Sjálfsmynd eða sjálfsmat er hugtak sem vísar til þess hvernig við hugsum um okkur sjálf, hvaða kjarnaviðhorf eða hugmyndir við höfum um okkur og hversu mikils virði við teljum okkur vera. Matið getur verið jákvætt, t.d. „ég er góð manneskja“ eða „ég er mikils virði“ - en það getur einnig verið neikvætt, t.d. „ég er ekki nógu dugleg(ur)“ eða „ég er lítils virði“. Eitt af því sem getur haft áhrif á sjálfsmyndina er langvarandi streituálag. Birtingarmyndir slíks álags geta verið margvíslegar og einkennin bæði líkamleg og andleg, hugsanir og hegðun sem hafa hafa hamlandi áhrif á lífsgæði okkar.
Streita á sér margar birtingarmyndir
Einstaklingur sem glímir við mörg streitueinkenni sökum yfirálags gæti til dæmis verið svefnvana, í tilfinningalegu ójafnvægi, orkulaus, þreyttur, áhugalaus og gleyminn. Í kjölfar slíkra einkenna fer fólk oft að upplifa neikvæðar hugsanir í eigin garð. Flestir þekkja það af eigin raun að vera töluvert óvægnari við sjálfan sig en aðra, svona yfirleitt. Við erum oft ansi fljót að dæma okkur þegar okkur tekst ekki eins vel upp og áætlað var. Streittur einstaklingur fer fyrr en síðar að upplifa að hann hafi minni stjórn á lífinu en hann var vanur, hafi síður stjórn á líðan sinni og hegðun. Í kjölfarið aukast neikvæðar hugsanir sem ýta svo enn frekar undir kvíða. Trú á eigin getu minnkar og í kjölfarið óttast fólk og jafnvel forðast að takast á við ný og krefjandi verkefni. Neikvætt viðhorf í eigin garð viðheldur svo þessum vítahring og streitan eykst enn frekar. Þegar lífið er komið á þennan stað getur verið kvíðvænlegt og jafnvel yfirþyrmandi að mæta til vinnu eða takast á við daglegt líf.
Samviskusamir í aukinni hættu
Þeir einstaklingar sem teljast vera í meiri hættu á að þróa með sér alvarlega streitu eiga það sameignlegt að búa yfir ákveðnum persónueiginleikum og viðhorfi í eigin garð. Viðhorf þeirra gefur tóninn um það hvernig þeir vilja vinna sína vinnu og koma hlutunum frá sér. Sem dæmi má nefna mikinn metnað fyrir starfi sínu, samviskusemi, ósérhlífni og hjálpsemi. Því er auðvelt að skilja að sjálfsmat einstaklings á sjálfum sér geti vel orðið fyrir barðinu á streitunni og að einstaklingur geti fundið fyrir kvíða og jafnvel depurð þegar hann missir getuna til að lifa eftir viðhorfum sínum.
Okkar eigin viðhorf viðhalda vandanum
Við þurfum því að skoða betur hvað það er í hugarfari og viðhorfum okkar í eigin garð sem orsakar og viðheldur vandanum. Eru þetta gagnlegar hugsanir? Innri pressa sem viðhorfin setja á okkur valda auknu álagi til viðbótar við það álag sem fyrir er. Þegar við náum svo ekki að standa okkur eins og við viljum kviknar á varnarkerfi líkamans. Þá verðum við líklegri til að beita okkur hörku og tala okkur niður. „Af hverju þarf ég alltaf að vera svona sein/seinn?“ „Ég er alveg ómöguleg/ur.“ „Ég á eftir að klúðra,” og svo framvegis. Hugsanir sem þessar eru óhjálplegar og auka á vanlíðan og streitu. Því er mikilvægt að vakna til vitundar um þessa innri rödd okkar sem hugsanir og viðhorf eru.
Vertu þinn besti vinur
Til að brjóta upp þennan vonda vítahring þurfum við að læra að þekkja viðhorf okkar í eigin garð og hvernig neikvæðar hugsanir hafa áhrif á það. Í kjölfarið verður auðveldara að átta sig á og veita því athygli þegar okkur líður illa. Fyrst þá höfum við tækifæri til að grípa inn í og rjúfa vítahringinn með uppbyggilegri aðferðum. Þegar vítahringurinn er hafinn þá hefur verið kveikt á varnarkerfi líkamans og því er helsta markmið okkar að sefa og róa kerfið. Að sýna okkur sjálfum umburðarlyndi og væntumþykju á álagstímum getur dregið úr einkennum alvarlegrar streitu. Það er hægt að gera með ýmsum aðferðum og gott er að prufa sig áfram og sjá hvað hentar best.
Fyrsta skrefið er að læra að veita vanlíðan og neikvæðum hugsunum athygli.
Annað skrefið er að minna sig á að það er eðlilegt að líða illa, öllum líður illa einhvern tímann. Að upplifa sársauka og vanlíðan er hluti af því að vera manneskja.
Þriðja skrefið er að taka ákvörðun um að veita sjálfum sér þann skilning og hlýju sem er nauðsynlegur á þessari stundu – og í kjölfarið gera það sem hverjum og einum þykir gagnlegt til að hlúa að þér.
Hér er dæmi um leiðir til að hlúa að sér:
- Talaðu fallega og mildilega til þín eins og þú myndir tala við besta vin.
- Minntu þig á að að þú sért að gera þitt besta miðað við líðan og getu.
- Minntu þig á að þessar óhjálplegu hugsanir um sjálfan þig eru bara einkenni streitu og endurspegla ekki raunveruleikann.
- Gerðu hluti sem láta þér líða vel eins og að tala við vin/maka, fara í göngutúr, prjóna, lesa bók, leysa Sudokuþraut, hugleiða eða fara í ræktina.
Höfundar:
Sigrún Ása Þórðardóttir, sálfræðingur og fagstjóri hugarhreysti og geðræktar hjá Heilsuborg
Anna Sigurðardóttir, sálfræðingur hjá Heilsuborg.