Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-3.jpg

Efnahagsyfirlit - 11.05.2016

Landsframleiðsla á mann segir ekki alla söguna

Efnahagsleg frammistaða landa er alla jafna metin út frá mælikvarðanum landsframleiðsla á mann og breytingu á þeim mælikvarða milli ára. Í uppsveiflu eykst landsframleiðsla á mann en dregst saman í niðursveiflu. Landsframleiðsla á mann segir þó ekki alla söguna hvað varðar velferð þjóða, hamingju einstaklinga eða hversu mikið þurfti að hafa fyrir landsframleiðslunni. Jákvæð tengsl eru þó á milli landsframleiðslu á mann og ýmissa mælikvarða á hamingju. Það þýðir að búast má við því að eftir því sem landsframleiðsla á mann er hærri er þjóðin einnig hamingjusamari. Hið sama má segja um félagslegar framfarir landa en þær eru yfirleitt meiri þar sem landsframleiðsla á mann er hærri. Sambandið á milli landsframleiðslu virðist þó síður eiga við um ríkari lönd. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjasta Efnahagsyfirliti VR sem nú er komið út.

Störfum fjölgar en falið atvinnuleysi er enn hátt

Mæling á atvinnuleysi sýnir að þeim fækkar sem teljast atvinnulausir á sama tíma og fleiri eru nú við störf en áður. Þannig er vinnumarkaðurinn að nálgast hratt stöðuna fyrir hrun þar sem mikla vinnu var að fá og atvinnuleysi lítið. Fjölmargir eru enn hluti af þeim hópi sem fellur undir falið atvinnuleysi en þeim hefur þó fækkað frá því þegar verst lét í kringum 2012. Á fyrsta ársfjórðungi 2016 voru 8.000 manns tilbúin að vinna en ekki að leita en þessi hópur telst ekki atvinnulaus. Á sama tíma voru 6.100 manns sem uppfylltu skilgreininguna á því að teljast atvinnulaus.

Atvinnuleysi erlendra ríkisborgara enn hátt

Árin fyrir hrun var atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara að jafnaði minna en atvinnuleysi meðal íslenskra ríkisborgara. Eftir hrun jókst atvinnuleysi þeirra umtalsvert meira en meðal íslenskra ríkisborgara og fór hæst í 15,4% á meðan atvinnuleysi fór hæst í 9,1% meðal íslenskra ríkisborgara. Í lok árs 2015 var atvinnuleysi erlendra ríkisborgara 5,5% en 2,2% hjá íslenskum.

Kaupmáttarvísitala VR aldrei hærri

Kaupmáttarvísitala VR hefur aldrei mælst hærri. Á fyrsta ársfjórðungi 2016 hækkaði vísitalan um 11,1% samanborið við sama ársfjórðung árið áður. Kaupmáttarvísitölur ná þó ekki til annarra tekna sem einstaklingur kann að hafa ásamt því að innihalda ekki upplýsingar um vaxtabyrði af lánum einstaklings. Þannig getur kaupmáttur launa aukist mikið án þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist að sama marki. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur ekki enn náð hámarkinu frá því fyrir hrun en líkt og fjallað var um í marshefti Efnahagsyfirlitsins benda spár til þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna árið 2016 verði enn um 8% lægri en hámarkið fyrir hrun.

Skattbyrði meðallauna

Skattbyrði meðallauna hefur aukist umtalsvert frá árinu 1990. Stór hluti þessarar aukningar má rekja til þess að persónuafsláttur hefur ekki frá upphafi annað hvort fylgt verðlagi eða launavísitölu Hagstofunnar. Ef persónuafsláttur hefði fylgt launavísitölu Hagstofunnar hefði skattbyrði lítið breyst frá 1995 þó nokkur aukning hefði verið 1990 til 1995.

Brottflutningur íslenskra ríkisborgara

Enn eru fleiri Íslendingar sem flytja frá landinu en til þess en á fyrsta ársfjórðungi 2016 fluttu 110 fleiri frá landinu en til þess. Árinu 2015 var brottflutningur íslenskra ríkisborgara töluverður og sá mesti sem sést hefur á tímabili sem ekki flokkast sem efnahagskreppa.