Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-1.jpg

Efnahagsyfirlit - 11.03.2016

Kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna skilar sér ójafnt

Kaupmáttarvísitala VR hækkaði um 5,3% á fjórða ársfjórðungi 2015 og þarf að hækka um 4,2% til að ná hámarkinu fyrir hrun. Kaupmáttur launa segir þó ekki alla söguna. Sá kaupmáttur sem heimilin finna fyrir er kaupmáttur ráðstöfunartekna (þar er tekið tillit til launa, annarra tekna og tilfærslna á borð við vaxta- og barnabætur að frádregnum sköttum). Gangi spár um þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna eftir fyrir árin 2015 og 2016 þarf kaupmáttur þó enn að aukast um 8,7% til að ná hámarkinu fyrir hrun. Vöxtur í kaupmætti ráðstöfunartekna hefur ekki skilað sér jafnt milli allra tekjuhópa samfélagsins en stærsti hluti hækkunarinnar hefur farið til efsta tekjuhópsins. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjasta Efnahagsyfirliti VR, sem gefið er út mánaðarlega. Hér að neðan er stiklað á stóru í því sem fram kemur í yfirlitinu.

Hagvöxtur á mann var 2,9% árið 2015 samanborið við 0,8% árið 2014 en landsframleiðsla á mann 2015 er nú jöfn landsframleiðslu á mann 2007 og má því segja að íslenska hagkerfið sé komið út úr kreppunni m.v. þennan mælikvarða. Hagsagan sýnir að margir og misjafnir þættir hafa stuðlað að því að frá 1945 hefur landsframleiðsla á mann fimmfaldast en nýjasti stóri þátturinn í bættum lífskjörum er fjölgun ferðamanna.

Verðbólgan í febrúar var 2,2% og er því enn undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Húsnæðisverð er enn helsti áhrifavaldur verðbólgunnar og ljóst að svo mun áfram verða næstu misseri. Seðlabankinn hefur undanfarið spáð mun meiri verðbólgu en raun varð og hefur lækkað verðbólguspár sínar í kjölfar þess. Verðbólguspá bankans fyrir 2017 er þó að mestu óbreytt og bendir til um 4% verðbólgu á þeim tíma.

Innflæði fjármagns heldur áfram en seinustu 9 mánuði hafa 72 milljarðar flætt inn í íslenska hagkerfið sem m.a. hefur leitt til þess að peningastefna Seðlabankans hefur ekki virkað sem skildi. Þetta mikla innstreymi getur kynt enn frekar undir þensluna í íslensku efnahagslífi en mikil hætta er á verðbólguskoti ef innstreymið snýst snögglega í útstreymi.

Nokkuð hefur hægt á í heimsbúskapnum á sama tíma og mikil þensla er að myndast á Íslandi. Kreppa ríkir nú í mörgum nýmarkaðsríkjum og kínverska hagkerfið er talið mjög veikburða. Þá eru einnig merki um að hægagangur sé í bandaríska hagkerfinu sem m.a. bendir til þess að örvunaraðgerðir seinustu ára hafa skilað litlu öðru en gífurlegri hækkun á eignamörkuðum.