Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-3.jpg

Efnahagsyfirlit - 12.01.2017

Hlutfall húsnæðis af útborguðum launum fer hækkandi

Hlutfall húsnæðis af útborguðum launum fer hækkandi

Nýtt Efnahagsyfirlit VR kemur út í dag. Þar kemur m.a. fram að undanfarin ár hefur hlutfall útborgaðra launa heimilis sem varið til greiðslu fasteignaláns farið hækkandi. Í dag er hlutfallið að jafnaði 20-21% en var um 18% stuttu eftir efnahagshrunið. Hlutfallið er í takt við árin 2000 til 2004. Það er þó áhyggjuefni að vísbendingar eru um að hlutfall útborgaðra launa sem varið er í greiðslu fasteignaláns fer hækkandi. Þetta snertir helst þau heimili sem eru að kaupa sér sína fyrstu fasteign eða stækka við sig.

Skuldir og eignir Íslendinga hafa þróast með ólíkum hætti eftir aldurshópum á undanförnum árum

Eignir Íslendinga, skipt niður á aldurshópa, hafa þróast með ólíkum hætti seinustu tvo áratugina. T.a.m. hafa eignir 67 ára og eldri aukist um tæp 58 % umfram eignir 30-34 ára á tímabilinu 2007 til 2015. Ekki er rétt að horfa aðeins á eignir. Sé litið til skuldsetningar fæst nokkuð svipuð mynd. Meðalupphæð skulda hefur hækkað meira meðal eldri aldurshópanna en þeirra yngri. Skuldir 67 ára og eldri hafa einnig hækkað umtalsvert meira en yngri aldurshópanna. Þetta er möguleg birtingarmynd þess hve erfitt það hefur verið fyrir yngri aldurshópana að eignast fyrstu fasteign árin eftir hrun.

Neyslumynstur íslenskra heimila er í takt við hin Norðurlöndin

Neyslumynstur, þ.e. hversu stóru hlutfalli útgjalda heimils er varið í tiltekna vöru eða þjónustu, er svipað því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Hlutfall útgjalda vegna húsnæðis, hita og rafmagns er lægra en í Danmörku en hærra en í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.

Fjölgun starfandi eftir ríkisfangi

Fjölgun félagsmanna VR undanfarin 2 – 3 ár, og þar með starfandi einstaklingum, má skýra í auknum mæli sem fjölgun félagsmanna með erlent ríkisfang. Þróunin er þó ekki jafn hröð og árin fyrir hrun. Fjöldi félagsmanna VR með erlent ríkisfang jókst mjög hratt árin 2006 og 2007. Frá 2012 hefur þeim fjölgað jafnt og þétt.

Gengi krónunnar hefur styrkst mikið en er enn veikt sögulega séð

Undanfarin tvö ár hefur gengi krónunnar hefur verið í miklum styrkingarham. Ástæðan er mikil fjölgun ferðamanna. Í umræðunni hefur meðal annars verið talað um annað hrun sökum styrkingarinnar. Það er þó ekki hægt að bera þessa gengisstyrkingu núna saman við gengisstyrkinguna árin fyrir hrun. Orsakavaldarnir eru mjög ólíkir.