Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-3.jpg

Efnahagsyfirlit - 19.12.2017

Fyrst framleiðniaukning svo launahækkun?

Sambandið milli framleiðni og launa er vinsælt en jafnframt umdeilt umfjöllunarefni hagfræðinnar. Þetta samband er tekið fyrir í nýjasta Efnahagsyfirliti VR sem gefið er út í tengslum við mánaðarlega fundi stjórnar félagsins.

Samkvæmt eldri hagfræðikenningum er framleiðniaukning nauðsynleg forsenda launahækkunar. En margir hagfræðingar í dag setja spurningamerki við þetta. Þeir benda m.a. á að hærri laun geta aukið hvata til að gera betur í starfi sem skilar sér svo í aukinni framleiðni. Hærri launakostnaður geti einnig ýtt undir fjárfestingu fyrirtækja til að auka framleiðni og mæta þannig auknum launakostnaði.

Í Efnahagsyfirliti VR fyrir desember 2017 er fjallað um samband framleiðni og kaupmáttar launa á Íslandi síðustu ár. Fram að hruni árið 2008 höfðu kaupmáttur og framleiðni fylgst að, eins og sjá má á myndinni. Í kjölfar hruns myndaðist hins vegar mikið gap á milli framleiðni og kaupmáttar. Framleiðni stóð í stað frá árinu 2009 og jókst ekki fyrr en launahækkanir höfðu aukið kaupmátt nógu mikið til að loka því gapi sem myndaðist.

Í Efnahagsyfirlitinu að þessu sinni er einnig fjallað um hagvöxt á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við sama tímabil árið 2016 og spáð í þróunina. Að lokum má nefna að stuttlega er fjallað um breytingar á vinnumarkaði frá 1870 en Hagstofa Íslands opnaði nýlega áhugaverðan vef með sögulegum hagtölum.