Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-4.jpg

Efnahagsyfirlit - 07.09.2015

Fækkun VSK þrepa ólíkleg til að auka skilvirknina mikið

Frumvarp til fjárlaga 2015 gerir ráð fyrir breytingum á virðisaukaskattskerfinu sem m.a. er ætlað að auka skilvirkni íslenska virðisaukaskattskerfisins. Með skilvirkni í þessu tilviki er átt við hversu vel skatturinn virkar sem tekjuöflunartæki. Skilvirkni íslenska kerfisins hefur verið sögð lág sökum margra undanþága og stórs bils á milli almenna þrepsins og neðra þrepsins. Í nýlegri grein í Vísbendingu færir hagfræðingur VR fyrir því rök að ólíklegt sé að þær breytingar sem frumvarpið kveður á um auki skilvirkni kerfisins eins mikið vonir standa til (sjá greinina hér).

Í upphafi árs 2015 var fyrsta skref stigið í átt að því að sameina efra og neðra virðisaukaskattsþrepið í eitt þrep. Neðra þrepið hækkaði úr 7% í 11% og efra þrepið lækkaði úr 25,5% í 24%. Fjárlagafrumvarpið 2015 gerir ráð fyrir að neðra þrepið fari upp í 14% í ársbyrjun 2016 og efra þrepið fari í tveimur skrefum niður í 24% í ársbyrjun 2016. Þessar breytingar, ásamt afnámi undanþága frá virðisaukaskatti, eru liður í átaki stjórnvalda til að auka skilvirkni virðisaukaskattskerfisins. Viðar Ingason, hagfræðingur VR, bendir á í grein sinni að skilvirkni sé ekki líkleg til að aukast mikið við það eitt að minnka bilið á milli þrepa eða taka upp eitt þrep. Einnig bendir hann á að mælikvarðinn á skilvirkni hækki á Íslandi í efnahagslegri uppsveiflu en lækki aftur í niðursveiflu. Þannig er ekki hægt að horfa á mælingu á skilvirkni virðisaukaskattskerfisins árin eftir hrun og á þeim forsendum einum draga þá ályktun að íslenska kerfið sé með lága skilvirkni í samanburði við önnur Evrópulönd eða OECD ríki. 

Eftir hrun jókst hlutdeild matar og drykkjarvöru í útgjöldum heimilanna en stór hluti þess er í neðra þrepi virðisaukaskatts. Þessi þróun ein og sér lækkar skilvirkni virðisaukaskattskerfisins. Ofan á breytt neyslumynstur lagðist byggingageirinn nánast af og því dró verulega úr virðisaukaskattstekjum í kjölfar hrunsins sem einnig hafði töluverð áhrif á mælingu skilvirkninnar. 

Í dag er Ísland í 24. sæti meðal OECD ríkja yfir skilvirkni virðisaukaskattskerfisins Árið 2006 var landið í því 9. þrátt fyrir að stórt bil væri á milli efra og neðra þreps. Uppsveifla í íslensku efnahagslífi og afnám undanþága eru líklegri til að auka skilvirknina en fækkun virðisaukaskattsþrepa. Þannig er ólíklegt að skilvirkni íslenska virðisaukaskattskerfisins verði mikið minni við það að nauðsynjarvörur á borð við mat- og drykkjarvörur verði að mestu leyti áfram í lægra virðisaukaskattsþrepi en hinu almenna. 

 Sjá grein Viðars Ingasonar, hagfræðings VR.