Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-2.jpg

Efnahagsyfirlit - 10.08.2017

Efnahagsyfirlit VR – stefnir í viðsnúning í íslensku efnahagslífi?

Í ágústhefti Efnahagsyfirlits VR er fjallað um spurninguna; „Er að hægja á í íslensku efnahagslífi?“ en fyrr eða síðar mun koma að því að lengsta uppsveifla í hagsögu Íslands taki enda. Óformleg skilgreining efnahagskreppu er sú ef landsframleiðsla dregst saman tvo ársfjórðunga í röð en sé hagsagan skoðuð er býsna algengt að landsframleiðsla dragist saman milli tveggja samliggjandi ársfjórðunga án þess að vera forboði efnahagsniðursveiflu.

Er farið að hægja á straumi ferðamanna?
Í fyrsta skipti frá árinu 2002 dróst fjöldi ferðamanna til Íslands saman milli apríl og maí. Hugsanlega er því farið að hægja á í ferðamannaiðnaðinum en þó eru ekki neinar sterkar vísbendingar um að ferðamönnum fari fækkandi á næstu misserum.

Tímabundið bakslag á fasteignamarkaði?
Í efnahagsuppsveiflunni hefur orðið mikil hækkun á fasteignaverði á Íslandi. Hefur það helst verið vegna mikils skorts á húsnæði og fjölgun ferðamanna. En nú hefur íbúðum fjölgað nokkuð frá og með apríl 2017 og ásett verð virðist að meðaltali hafa lækkað.

Jaðarskattur launa á Íslandi
Jaðarskattur launa á Íslandi getur verið mjög hár en hann má skilgreina sem skattinn sem greiddur er t.d. af næstu 10.000 kr. í laun að viðbættri skerðingu bóta. Í dæmum má sjá að allt að 60% hækkunar launa fari í skatta og skerðingu t.d. barna- og húsaleigubóta og því aðeins tæp 40% sem sitja eftir í vasa viðkomandi.

Neysla erlendra ferðamanna
Heildarkortavelta erlendra ferðamanna jókst aðeins um 7,1% í maí 2017 miðað við maí 2016 mælt í krónum en íslenska krónan hefur styrkst mikið seinasta árið sem þýðir að öll neysla verður mun dýrari fyrir ferðamenn. Ekki er ólíklegt að neysla ferðamanna dragist þar af leiðandi saman mælt í krónum.

Verðbólga aldrei mælst lægri
Verðbólgan í júní 2017 var 1,8% og -3,1% án húsnæðisliðarins. Þetta er lægsta verðbólga án húsnæðis sem hefur mælst á Íslandi.

Fjárhagsaðstoð á Íslandi
Hlutfall Íslendinga sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2016 lækkaði fyrir alla aldurshópa frá 2015 nema 65 ára og eldri þar sem hlutfallið stóð í stað.

Sjá hér Efnahagsyfirlit VR í heild sinni