Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-3.jpg

Efnahagsyfirlit - 15.12.2016

Efnahagsyfirlit VR - Gengisstyrking skilar sér síður út í verðlag en gengisveiking

Í umræðunni undanfarnar vikur hefur því verið haldið fram að gengisstyrking skili sér að sama marki út í verðlag og gengisveiking. Þetta er þó ekki í samræmi við svör stjórnenda fyrirtækja. Áhrifin af gengisveikingu og gengisstyrkingu á verðbólgu eru ekki þau sömu. Þá hefur einnig verið talið að erfitt sé að skila gengisstyrkingunni vegna launahækkana. Í því felst rökvilla sem gengur út á það að ekki er hægt að heimfæra það sem á við um einstakt fyrirtæki yfir á fyrirtækin sem heild. Þetta kemur fram í nýjasta Efnahagsyfirliti VR.

Ekki eru skýr merki um bólu á fasteignamarkaði þó verð hafi hækkað mikið

Fasteignaverð hefur hækkað mikið undanfarin ár. Sú hækkun á sér stað á sama tíma og skuldir heimila fara lækkandi. Helsta ástæða hækkunar fasteignaverðs er gífurleg hækkun leiguverðs sem aftur orsakast af mikilli fjölgun ferðamanna og aðflutningi erlends vinnuafls. Eignabóla er hækkun eignaverðs sem getur gengið til baka á skömmum tíma líkt og fyrir hrun þegar aðgengi að lánsfé varð snögglega mun erfiðara. Til að bóla geti talis á fasteignamarkaði í dag þarf í raun að færa rök fyrir því að bóla sé í ferðamannaiðnaðinum.

Landsframleiðsla á mann hærri en fyrir hrun

Landsframleiðsla á hvert mannsbarn á Íslandi verður hærri 2016 en 2007 verði hagvöxtur árið 2016 í takt við fyrstu níu mánuði ársins. Landsframleiðsla er ekki fullkominn mælikvarði á velferð og því ekki svo að allir hafi það betra nú en 2007. Til að svara einhverju til um velferð þarf einnig upplýsingar um tekjudreifingu og þá fyrirhöfn sem liggur að baki landsframleiðslunnar.

Verðbólgan í nóvember 2016

Verðbólgan í nóvember var 2,1% en neikvæð uppá -0,3% sé litið framhjá hækkun húsnæðisverðs. Ýmsir aðilar leituðu leiða til að finna annan mælikvarða á verðlag í kjölfar seinustu kjarasamninga til að varpa ljósi á áhrif launahækkana á verðbólgu. Sú leit skilaði engum árangri. Þeir mælivarðar sem hægt er að styðjast við til að varpa ljósi á verðbólgu sem ekki er háð gengi krónunnar eða olíuverði hækkuðu ekki eftir seinustu kjarasamninga. Verðbólgan er enn knúin áfram að hækkun fasteignaverðs en helstu óvissuþættir eru gengi krónunnar og olíuverð.

Sjá efnahagsyfirlit VR desember 2016